18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

40. mál, lækkun tolla á vélum til iðnaðarins

Flm. ( Þórarinn Þórarinsson ):

Herra forseti. Efni þessarar till. er, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta nú þegar endurskoða tollalög með það fyrir augum, að innflutningstollar á efnum og vélum til iðnaðarins verði hinir sömu og nú eru á efnum og vélum til fiskveiða. Ríkisstj. skal strax og þessari endurskoðun er lokið leggja fyrir Alþ. frv. um breytingar á tollalögunum í samræmi við hana.

Það er óþarft að rekja í löngu máli, hvert er tilefni þessarar till. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allar þjóðir keppa nú að því að auka fjölbreytni atvinnuvega sinna og renna þannig fleiri stoðum undir afkomu sína, og þá er hér fyrst og fremst um að ræða aukningu á margvíslegum iðnaði eftir því sem aðstæður leyfa á hverjum stað. Hinir gömlu atvinnuvegir eins og landbúnaður og fiskveiðar, námuvinnsla og aðrar atvinnugreinar, sem byggðust aðallega á öflun hráefna, dragast nú óðum saman, vegna þess að ný tækni og ný vinnubrögð valda því, að ekki þarf eins margt starfsfólk við þessar atvinnugreinar og áður. Hins vegar fjölgar fólkinu og þess vegna verður það vandamál, að tryggja öllum næga atvinnu, ekki leyst á annan veg en þann, að nýjar atvinnugreinar komi til sögunnar. Þessi hefur orðið þróunin annars staðar, og hún er að sjálfsögðu fyrir hendi hér á landi ekki síður. Þó að sjávarútvegur og landbúnaður, okkar gömlu atvinnuvegir, starfi með eðlilegum hætti á komandi árum, þá eru ekki neinar líkur til þess, að þeir nægi til að tryggja þjóðinni næga atvinnu og sæmilega lífsafkomu. Þess vegna er okkur óhjákvæmileg nauðsyn eins og öðrum þjóðum að renna fleiri stoðum undir okkar afkomu með því að efla hér sem fjölbreyttastan iðnað. Og þó að aðstaða okkar sé að sumu leyti örðugri í þessum efnum en ýmissa annarra þjóða, getum við bætt það upp með öðrum hætti, og iðnaður á því að geta þrifizt eigi síður hér á landi en annars staðar. Í þessari till. er vikið að einu atriði, sem áreiðanlega mundi styrkja verulega aðstöðu iðnaðarins frá því, sem nú er, ef það væri leyst á þann veg, sem gert er ráð fyrir í till.

Á efnum og vélum til iðnaðar hvíla nú allháir tollar, t.d. á vélum til fiskiðnaðarins. Á þeim er 10–15% tollur, og á vélum til annars iðnaðar er yfirleitt 25% tollur eða jafnvel hærri, og tollar á ýmsum efnum til iðnaðarins eru enn hærri en þetta, í sumum tilfellum margfalt hærri. Það liggur í augum uppi og þó sérstaklega eftir þær breytingar, sem orðið hafa á skráningu íslenzkrar krónu, að hér er um mjög tilfinnanlegan skatt að ræða fyrir iðnaðinn, einkum þær iðngreinar, sem standa í verulegri uppbyggingu. Með því að fella þessa tolla niður væri uppbygging iðnaðarins verulega styrkt og framleiðslan jafnframt gerð ódýrari með því að lækka einnig tollana á efninu.

Við, sem flytjum þessa till., teljum eðlilegt, að iðnaðurinn sitji við sama borð og fiskveiðarnar í þessum efnum, hér sé um atvinnuvegi að ræða, sem álíka mikil nauðsyn sé á að styrkja og efla, og þess vegna eigi ekki að gera þarna neitt upp á milli. En í sambandi við fiskveiðarnar hagar nú þannig til, að af bátum og vélum til fiskveiða er ekki greiddur neinn tollur, en af veiðarfærum og efnum til fiskveiða er greiddur 4% tollur. Það er okkar álit, að færa eigi tollinn á efnum og vélum til iðnaðarins í þetta sama horf. Telja má nokkurn veginn víst, að ef það fengist fram, mundi það verða a.m.k. í mjög mörgum tilfellum veruleg lyftistöng fyrir iðnaðinn. Ég vil nefna í þessu sambandi, að nú er mjög rætt um það, að Ísland gerist aðili að EFTA, fríverzlunarbandalagi Evrópu, og raunar mun það vera ákveðið af hæstv. ríkisstj., að af inngöngunni verði. En ef af inngöngunni verður, er enn þá óhjákvæmilegra en ella að gera þá ráðstöfun, sem þessi till. fjallar um. Samkvæmt þeim samningi, sem ríkisstj. hefur undirbúið við Efnahagsbandalagið, er gert ráð fyrir, að iðnaðurinn fái ekki nema 10 ára aðlögunartíma, sem að mínum dómi er allt of stuttur. Það, að aðlögunartíminn er svona stuttur, gerir það enn þá meira aðkallandi en ella, að reynt sé á allan hátt að skapa þeim iðnaði, sem á hér aukna samkeppni fyrir höndum, sem bezta aðstöðu, svo að hann sé sem bezt undir það búinn að standast þá samkeppni, sem hann á fyrir höndum, bæði inn á við og út á við. Og það má m.a. gera með þeim hætti, sem þessi till. fjallar um. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að væntanlegir keppinautar í EFTA-löndunum þurfa yfirleitt ekki að greiða slíka tolla sem hér um ræðir, tolla af hráefnum og tolla af vélum. Það má taka sem dæmi, að norskt fyrirtæki, sem kaupir vélar eða hráefni í Englandi, þarf enga tolla að greiða, og ég hygg, að sama gildi raunar um öll lönd utan við EFTA-svæðið, en eins og ástatt er hér í dag, þarf íslenzkur iðnaður að greiða 25% tolla eða meira af vélum, sem hann þarf til starfrækslu sinnar og í flestum tilfellum enn þá meira af efninu. Ég ætla ekki að ræða það hér, en ég held, að það liggi í augum uppi, að ef úr aðild að EFTA verður, er óhjákvæmilegt að gera margháttaðar ráðstafanir til að styrkja iðnaðinn í þeirri samkeppni, sem hann á fyrir höndum, og ein af þeim ráðstöfunum, sem að mínum dómi er alveg óhjákvæmileg, er sú, að þeir tollar, sem rætt er um í þessari till., verði felldir niður strax, en ekki í áföngum. Það sé það minnsta í þessum efnum, sem iðnaðurinn þurfi á að halda til að standast þá samkeppni, sem aðild að EFTA mun hafa í för með sér, bæði sá iðnaður, sem keppir á heimamarkaði, og eins sá iðnaður, sem stundar útflutning.

Ég vil vænta þess, að þetta nýja viðhorf verði til þess, að þessi till. fái nú betri undirtektir en á undanförnum þingum. Hún hefur verið flutt tvívegis áður og dagað þá uppi, þrátt fyrir það, að hún hafi í bæði skiptin hlotið mjög eindreginn stuðning frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Félagi ísl. iðnrekenda, en sú n., sem hefur fengið þetta mál til meðferðar, hefur leitað álits þessara aðila um þetta efni. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.