17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3482)

195. mál, símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 6. og 10. landsk. þm. hafa nokkuð rætt efni þessarar þáltill., sem fjallar, eins og bent hefur verið á, um það, að Nd. Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að gjöld vegna símtala milli Brúarlands- og Reykjavíkursvæðisins svo og innbyrðis á Suðurnesjasvæðinu reiknist á sama hátt og gjöld fyrir innanbæjarsímtöl. Ég ætla ekki að andmæla efni þessarar till., sem bent er á í grg., að sé eðlilegt og sanngjarnt. En ég vil aðeins benda á, að ég hygg, að víða um land sé brýnt tilefni til þess að athuga þetta mál ekki síður en á umræddu svæði. Ég leyfi mér að benda á eitt svæði sérstaklega, sem kemur upp í huga minn, en það er landshöfnin í Rifi og næsta nágrenni, þ.e. þéttbýlið í sjálfu Rifi, Hellissandur, Gufuskálar og Ólafsvík. Þessir staðir eru mjög nálægir hver öðrum. Það hefur lengst af verið mjög erfitt að komast á milli þeirra, þar til allt í einu ástandið gerbreyttist, þegar vegurinn var lagður fyrir Ólafsvíkurenni. Nú stendur enn til, að það ástand batni, þegar nýr vegur verður lagður frá Rifi upp í Ólafsvíkurenni.

Það er alveg ljóst mál, að á þessu svæði, sem ég hef nú nefnt, er atvinnulíf mjög samtvinnað og nátengt á öllum þessum stöðum, og fellur því undir þann rökstuðning, sem þegar er hafður uppi í grg., að hér sé um nátengt og afmarkað atvinnusvæði að ræða. Ég vil því mælast til þess, — og ég mun gera ráðstafanir til þess, — að þetta svæði verði athugað, a.m.k. samtímis því svæði, sem umrædd till. fjallar um.