26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (3632)

903. mál, raforkumál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er áreiðanlega rétt, sem fyrirspyrjandi sagði, að það má segja, að þau sveitabýli séu dauðadæmd, sem ekki eiga neina von þess að fá raforku. Fyrsti möguleikinn er sá, að vera meðal þeirra lukkulegu, sem geta fengið raforku af samveitusvæðum, en hin býlin, sem ekki geta gert sér vonir um það, eiga um tvo möguleika að velja. Það er þá fyrst að geta komið upp dísilrafstöð, og það er úrræði, sem margir hafa gripið til og er bráðabirgðaúrræði. Það er rétt, sem ráðh. segir, að það eru veitt allgóð lán til þess að koma upp dísilrafstöðvum, en með því olíuverði, sem nú er, er rekstur dísilstöðvar í sveit samt algerlega ósambærileg aðstaða við það að fá raforku frá samveitusvæðunum. Þau býli eru því til frambúðar næsta illa sett, sem ekki geta horft til annarra möguleika en að bjarga sér með dísilrafstöð, sem venjulega er allt of lítil til þess að leysa raforkuvanda heimilisins að öllu leyti, t.d. eru þær sjaldan svo stórar, að þær geti leyst súgþurrkunarvandamálið ásamt því að sjá fyrir rafmagni til matseldar, lýsingar og annarra hluta. Hinn möguleikinn er að virkja vatnsafl fyrir einstök sveitabýli, en sá möguleiki er kostnaðarsamur. Sjaldgæft er, að aðstaða sé svo ákjósanleg til vatnsvirkjunar, að slík rafstöð kosti ekki 1/2–1 millj. eða jafnvel yfir það. Það er ekki öllum fært, nema því aðeins að ríkið veiti verulega aðstoð til slíks.

Ég held, að það sé um það bil ár síðan ég ræddi við hæstv. ráðh. um það, að lagaheimildir — ég held, að það sé áreiðanlegt — eru fyrir hendi til að veita lán, allt að helmingi kostnaðar, til vatnsaflsstöðva í sveitum. Síðan hefur þessi rúma lagaheimild verið takmörkuð mjög með reglugerðarákvæðum eða framkvæmdavenjum ráðh., ég veit ekki, hvort heldur er. Þegar ég ræddi við ráðh. fyrir ári eða svo, sagði hann, að það væri alveg rétt, að reglurnar, sem um þetta giltu þrátt fyrir hinar rúmu heimildir laganna, væru eflaust settar fyrir löngu og hefðu dregizt aftur úr, væru niður úr öllu valdi, og þetta þyrfti að endurskoða. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., — ég held, að hann hafi ekki getið um það í ræðu sinni, — hvaða reglur gilda nú um lána- og styrkjaveitingar af hendi ríkisins til byggingar vatnsaflsstöðva í sveit. Er það nokkuð í samræmi við þann kostnað, sem nú er í sambandi við slíka framkvæmd? Er þar er um að ræða, ef lagaheimildinni er fullnægt, að helmingur kostnaðar sé fáanlegur sem lán eða eitthvað í námunda við það? Það þyrfti að vera, til þess að nokkur möguleiki væri á því, að sveitabýli gætu risið undir að útvega hinn hluta fjárins, sem þá í flestum tilfellum gæti verið 1/2–3/4 millj. Það var þetta, sem ég vildi beina til ráðh.

Annars vildi ég segja það um km-regluna, að hún er í mörgum tilfellum viðsjárverð og í öðrum tilfellum forkastanleg. Það gæti verið, að það væri innan við 1.5 km meðaltalsvegalengd milli bæja og annað hvert eða þriðja hvert þeirra býla hefði enga möguleika til þess að vera framtíðarbýli í sveit. En samt hefði þessi byggð aðstöðu til þess að fá raforku frá samveitusvæði. Hins vegar gætu verið nokkur býli, sem væru öll saman stórbýli og ættu öll tvímælalaust framtíð fyrir sér. Þar væru 2 eða 2.5 km á milli bæja, en þau býli væru á aftökulistanum, dauðadæmd, af því að þau hefðu enga von um að fá raforku, meðan þessi vitlausa regla er í gildi. Ég vona, að hennar dagar verði sem fæstir.