03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

90. mál, stjórnarráðshús

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ef ég skil svar hæstv. ráðh. rétt, þá er það á þá leið, að búið sé að ljúka öllum undirbúningi að því, að hægt sé að hefjast handa um byggingu nýs stjórnarráðshúss á þeim stað, sem um hefur verið talað, þannig að teikningar séu nokkuð tilbúnar og annað, sem það snertir, en strandi aðeins á því að taka ákvörðun um það, hvenær verkið skuli hafið. Ég tel, að ef það stendur eingöngu á ákvörðun um þetta efni og ríkisstj. treystir sér ekki til að taka hana, þá sé ástæða til þess að taka málið til sérstakrar meðferðar hér á Alþ. við annað tækifæri heldur en þetta. En mér virðist, að það séu margar ástæður, sem reki á eftir því, að í þessa framkvæmd sé ráðizt.

Það er í fyrsta lagi það, sem hefur verið nefnt, að þar sem þessi framkvæmd er vel undirbúin og þess vegna hægt að hefjast handa strax, sé æskilegt að gera það frá því sjónarmiði, að meðan atvinnuskortur er í landinu mundi einmitt slík framkvæmd koma að verulegu gagni til að bæta úr honum.

En svo er það í öðru lagi, að bygging eins og þessi hlýtur að skapa ýmsa möguleika á aukinni hagræðingu í störfum landsstjórnarinnar. Nú veldur það miklu óhagræði í því sambandi, ef hinar opinberu skrifstofur eru dreifðar víðs vegar um bæinn og m.a. skrifstofur stjórnarráðsins sjálfs. Það kom fram hér í umr., þegar hæstv. fjmrh. var með sérstakt sparnaðarfrv. fyrir nokkrum árum, að það er ekki hægt að sameina ýmsar ríkisstofnanir fyrr en búið er að tryggja húsnæði fyrir þær, þar sem hægt er að hafa þær á sama stað. Frá þessu sjónarmiði er hér um sparnaðarmál að ræða. Auk þess verður ríkið nú að borga mikið fé, svo að millj. kr. skiptir, í húsaleigu fyrir þessar stofnanir hjá einkaaðilum hér og þar í bænum. Það væri miklu hyggilegra að taka sérstakt lán til þessarar framkvæmdar og láta það fé, sem nú fer í húsaleigu, ganga til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af þessu láni.

En sem sagt, sé hér aðeins um það að ræða, að það standi á endanlegri ákvörðun um málið og ríkisstj. telji sér ekki fært að taka hana, þá er sjálfsagt að flytja málið í öðru formi hér á Alþ., þannig að hægt sé að taka endanlega afstöðu til þess. Ég álít, að það sé misskilningur hjá hæstv. forsrh., að ekki sé hægt að ráðast í þessa byggingu vegna þess, að hún þurfi að standa fyrir einhverjum öðrum, sem ríkið þarf að láta reisa. Eins og ég hef sagt núna, mundi vera hægt að leysa þetta mál með lántöku og nota það fé, sem nú fer til þess að greiða húsaleigu í stórum stíl, til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af því láni, og þar af leiðandi þarf slík lántaka ekki að standa í vegi fyrir öðrum framkvæmdum, sem ríkið þarf að koma fram, svo sem skólabyggingum, spítalabyggingum o.s.frv.