21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í D-deild Alþingistíðinda. (3709)

913. mál, flutningar frá Reykjavíkurhöfn um veg til álversins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. 1. liður fsp.: „Hve mikið magn af vörum hefur verið flutt frá Reykjavíkurhöfn um veg til Straumsvíkur frá 1. ágúst til 31. desember 1969 á vegum álversins?“

Ég man ekki, hvenær Straumsvíkurhöfn var afhent formlega, ég held, að það hafi verið í nóvember eða jafnvel í desember, en það var byrjað að nota hana fyrr. Það gæti verið, að það hafi farið eitthvað meira fram hjá höfninni, á meðan hún var ekki fullgerð og ekki var búið að afhenda hana. Ég vil aðeins minna á það. En ég geri ráð fyrir því, að a.m.k. nú eftir að höfnin er fullgerð, án þess að ég hafi spurt Eimskipafélagið að því, að vöruflutningar til álversins séu skráðir cif. Straumsvík. Ég geri ráð fyrir því, en ég hef ekki spurt um það. En það er vitanlega mikið atriði fyrir Eimskipafélagið að fá þessa flutninga.

Sem svar við þessum 1. lið vil ég segja það, að samkv. upplýsingum Eimskipafélagsins nemur þetta magn 6 739 tonnum, og þetta er náttúrlega mikið magn að flytja landleiðis frá Reykjavík til Straumsvíkur. Ég er fyrirspyrjanda alveg sammála um það, að mér finnst það ekki heppileg þróun og það er eðlilegt, að þeim, sem fara eftir Hafnarfjarðar- eða Kópavogsveginum kannske tvisvar eða þrisvar á dag, finnist það ekkert þægilegt að hafa þessa stóru vöruflutningavagna á veginum. En ég held, að þetta hljóti að breytast, eftir að Straumsvíkurhöfn er orðin fullgerð.

2. liður: „Hve miklu magni af vörum var landað á sama tíma í Straumsvíkurhöfn og einnig í Hafnarfjarðarhöfn á vegum álversins?“

Samkv. upplýsingum hafnarstjórans í Hafnarfirði, en Straumsvíkurhöfn er hluti af Hafnarfjarðarhöfn, hefur eftirgreindu magni verið landað í Straumsvík og Hafnarfirði á tímabilinu frá 1. ágúst til 31. desember 1969: Hafnarfjarðarhöfn 494 tonn, Straumsvíkurhöfn 26 881 tonn eða samtals 27 375 tonn.

3. liður: „Hvað borgar Eimskipafélag Íslands h.f. í vegasjóð af þessum flutningum frá Reykjavíkurhöfn til Straumsvíkur?“

Gjöld í vegasjóð vegna flutnings með vörubifreiðum frá Reykjavík til Straumsvíkur á flutningi vegna álversins greiðast samkv. vegalögum þannig:

a. Af dísilbifreiðum kr. 14.500.00 á ári fyrir bifreiðar að eigin þunga allt að 2000 kg og til viðbótar . 500 kr. á ári fyrir hver 100 kg af eigin þyngd umfram 2000 kg.

b. Af vörubifreiðum með benzínhreyfli greiðast árlega kr. 72 pr. 100 kg miðað við eigin þunga bifreiðarinnar. Vegagjald af benzínbifreiðum er einnig innheimt sem hluti af benzínverði samkv. vegalögum, 5.67 kr, pr. lítra.

Flutningur á varningi til Straumsvíkur um Reykjavíkurhöfn hefur farið fram að nokkru leyti með eigin vörubifreiðum Eimskipafélagsins og að verulegu leyti með vörubifreiðum, sem teknar eru á leigu hjá vörubifreiðastöðvum. Greiðsla á vegaskatti fyrir þær bifreiðar, sem teknar eru á leigu, er innifalin í leigugjaldinu, sem Eimskipafélagið hefur greitt viðkomandi aðilum fyrir þá þjónustu, sem þeir hafa selt félaginu í þessu sambandi. Ókleift virðist með öllu að tilgreina sérstaklega fjárhæð þá, sem félagið á þennan hátt greiðir í vegasjóð vegna þessa sérstaka aksturs, bæði með föstu árgjaldi á hverja bifreið á ári og innifalið í benzínverðinu.

Ég vona, að þessi svör þyki eftir atvikum fullnægjandi.