01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í D-deild Alþingistíðinda. (3847)

183. mál, loðnugöngur

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og undirtektir hans í þessu efni, en ég vil aðeins minnast á tvö til þrjú atriði.

Það er þá fyrst, að ég vil mjög eindregið skora á hæstv. ráðh. að ákveða það, sem ekki hefur enn þá verið fastákveðið, að loðnuleit og loðnurannsóknir fari fram í sumar og fram á haust, en hann tók fram, að það væri enn óákveðið, hvernig því yrði háttað.

Þá vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að rétt sé að leyfa undanþágu fyrir sandsílistroll, en fara þó að öllu með gát, en það þarf m.a. að gera til þess að kynna sér, hversu mikið er um þann fisk og hvernig gengur að veiða hann, og einnig til þess að fá reynslu af því um leið, hversu mikil hætta fyrir smáfiskinn er samfara þeim veiðum. En það fáum við ekki að vita nema reynt sé, og þess vegna vil ég styðja, að þetta sé reynt.

Mér finnst gott að heyra, að meiningin er að greiða fyrir spærlingsveiðunum með því að leita að honum og greiða fyrir flotanum. En spurning er, hvort ekki þyrfti að leggja meira í það en þessar tvær vikur, sem hæstv. ráðh. minntist á, og vil ég beina því til hans að athuga það atriði.

Varðandi kolmunnann upplýsti hæstv. ráðh., að ætlunin væri að litast um eftir honum, en ekki væri ákveðið, hvernig því yrði hagað. Því vil ég enn endurtaka þessa till., sem ég gerði áðan, að það verði farið í reglulega kolmunnaleit, sem sé miðuð við það, að komast eftir því, hvernig ástatt sé með hann, og miðuð við að greiða fyrir veiðunum. Það verði farið síðast í apríl, og sá leiðangur standi í maí og júní til þess að greiða fyrir hugsanlegum kolmunnaveiðum. Ég vona, að hæstv. ráðh. hafi tekið eftir því, sem ég stakk upp á, að það yrði sett verð á kolmunnann í apríl og það sem allra fyrst, til þess að menn geti farið að hugsa sig um, hvort tiltækilegt sé að fara í þetta. En margir hafa mikla trú á kolmunnaveiðum. Ég held, að það geti verið varasamt að treysta því að sameina að öllu leyti síldarleit og kolmunnaleit. Það mun þurfa að skoða betur, og vil ég vona, að hæstv. ráðh. geri það.

Þá vil ég leggja enn áherzlu á það, að gerðar verði veiðitilraunir á þessum fiskum í flotvörpu, það veiðarfæri, sem nú er mest treyst á annars staðar, og enginn vafi er á því, að við höfum allt of litlar veiðar gangandi einmitt í flotvörpuna. Vil ég, að hið opinbera gangi á undan og leggi í slíkar veiðitilraunir, og enn fremur í tilraunir til verkunar á öllum þessum fiskum til matar með margvíslegu móti.

Loks sakna ég þess, að það kom ekki fram hjá hæstv. ráðh., að Hafþór verði gerður út allt árið. Ég vona, að það sé ekki vottur þess, að ætlunin sé að leggja honum, því að enginn vafi er á því, og kemur raunar fram, bæði af því, sem ég segi um þessa nauðsyn, og einnig því, sem hæstv. ráðh. segir um nauðsynlega leit að fiski og rannsóknir, að það er fullkomin þörf fyrir skipin þrjú og miklu meira. Ég vonast þess vegna eftir því, að þögnin þýði ekki, að það sé meiningin að leggja Hafþóri eða draga hann út úr starfinu, heldur verði hann í fullum gangi ásamt nýja skipinu, sem við bætist.