01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í D-deild Alþingistíðinda. (3862)

924. mál, ríkisábyrgðir

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á undanförnum þingum höfum við fulltrúar Framsfl. í fjvn. leyft okkur að flytja fsp. til hæstv. fjmrh. í sambandi við ríkisábyrgðasjóð, og við töldum ekki ástæðu til að breyta því núna, enda þótt okkur sé ljóst, að þau gögn, sem um er spurt, verði lögð síðar fyrir þingið. En það er hins vegar ástæða til þess, að Alþ. fái skýrslu um störf ríkisábyrgðasjóðs í tæka tíð á hverju þingi.

Þessar fsp., sem við höfum leyft okkur að flytja, eru á þskj. 432, og eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hve mikið hefur ríkisábyrgðasjóður greitt vegna ríkisábyrgða á árinu 1969, fyrir hverja og hve mikið fyrir hvern aðila?

2. Hvaða einstaklingar og fyrirtæki skulda ríkisábyrgðasjóði í árslok 1969, og hver er skuld hvers um sig?

3. Hve mikið var afskrifað af eignum ríkisábyrgðasjóðs á árinu 1969 og af hvaða ástæðum ?“