02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

115. mál, iðja og iðnaður

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil nú mjög eindregið beina því til hæstv. ráðh., að hann fallist á brtt. 2. minni hl. n. á þskj. 343. Hæstv. ráðh. gat þess, að hann hefði gefið yfirlýsingu í sambandi við EFTA–málið á sínum tíma, þess efnis, að hvenær sem um meiri háttar mál væri að ræða, mundi hann bera það undir Alþingi. Það er nú auðvitað alltaf álitamál, hvenær um meiri háttar mál er að ræða af þessu tagi. En ef sú n. væri til staðar, sem 2. minni hl. iðnn. hefur lagt til, að kosin yrði, þá mundi ráðh. sjálfsagt geta fengið álit hennar á því, hvort um meiri háttar mál væri að ræða eða ekki og yrði þá væntanlega ekki ágreiningur um það, hvað bera skyldi undir Alþ. og hvað ekki. En í till. um nefndina felst auðvitað það, að Alþ. í heild eða fulltrúar Alþ. í heild eigi þess kost að fylgjast rækilega með þessum málum og segja álit sitt á þeim, áður en þau eru afgreidd. Það skiptir auðvitað meginmáli.