15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður og ekki blanda mér inn í þau orðaskipti, sem orðið hafa á milli formælenda Alþb. og hins nýja flokks frjálslyndra og vinstri manna. En ég verð að segja það, að mig furðar nokkuð á því um svo glöggan mann sem hæstv. forsrh. er og stundum sanngjarn, að hann skuli kalla það jafnréttismál milli flokka, að einn flokkurinn, sem er flokkur hans sjálfs, fái aðstoð úr ríkissjóði til tveggja dagblaða, þegar aðrir fá til eins blaðs. Og þau rök, sem hann færði fyrir því, fá ekki staðizt, því að ef litið er á stærð flokkanna, þá er Sjálfstfl. ekki helmingi stærri en sérhver annar flokkur hér á landi. Því fer mjög fjarri, eða svo var það um síðustu kosningar, og líklega hefur hann nú ekki stækkað í seinni tíð. En sannleikurinn er sá, að eins og þetta mál liggur hér fyrir og fjárveitingin er orðuð í fjárlögum ársins 1970, þá er þessi fjárveiting ekki til flokka, heldur til blaða eða dagblaða, eins og það er orðað. Nú vil ég ekki halda því fram, að hæstv. fjmrh. hafi brotið ákvæði fjárlaga með því að veita einu vikublaði fyrirgreiðslu. Það fer nokkuð eftir því, hvernig orðið dagblað er skilið. En ef hann hefur haft heimild til þess að greiða þessu vikublaði, sem gefið er út í Reykjavík, fé, þá hefur hann hina sömu heimild til þess að greiða vikublöðum, sem gefin eru út annars staðar á landinu, fé, m.a. því vikublaði, sem gefið er út á vegum frjálslyndra og vinstri manna á Akureyri og sem ég veit ekki, hvort er nokkuð ómerkara blað en það vikublað, sem gefið er út á vegum flokksins hér í Reykjavík. Þessu vildi ég beina til hæstv. fjmrh. og veit líka, að honum muni ekki óljúft vera að taka það til greina, sem ég nú segi.

Að öðru leyti vil ég aðeins bæta því við, að ég get alveg tekið undir það hjá hv. 6. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, að ef blöðum er veitt fyrirgreiðsla eða ef blöð eru keypt eða ef blöðum er greitt fyrir þjónustu, sem þau inna af hendi sem blöð, þá á ekki að fara eingöngu eftir því, hvort blaðið er gefið út af pólitískum landssamtökum eða pólitískum flokkum. Það er ekki eðlilegt. Hins vegar er það náttúrlega nokkurt vandamál, eftir hvaða reglu skuli farið. En þetta algera heyrnarleysi gagnvart þeim óskum, sem bornar hafa verið fram af hálfu blaða t.d. á Akureyri, er mér næstum óskiljanlegt.