08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í D-deild Alþingistíðinda. (3912)

201. mál, nefndir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, enda má segja, að það sé óeðlilegt að efna til umr. um atriði eins og þetta, þó að að vissu leyti hafi hér gefizt tilefni til þess. En án þess að ég viti nú nákvæmlega, hver ætlunin er að svari þessari fsp., þá geri ég samt ráð fyrir því, að það mundi að lokum verða hlutverk fjmrn. að afla þessara upplýsinga, sem hér er farið fram á um starfandi nefndir. Og ég vil þá taka það fram, þannig að það liggi fyrir, áður en þessi fsp. verður samþ., að því verður ekki svarað á þessu þingi, því að það er ekki hægt. Þó að mönnum kunni að finnast það undarlegt, þá er það nú samt svo, að það er mjög mikið vafamál, hvað er nefnd og hvað er ekki nefnd, og það eitt út af fyrir sig kostar mikla rannsókn. Þegar ráðh. felur tilteknum mönnum að vinna að ákveðnum störfum, þá er það mikið álitamál, hvort á að kalla það nefnd. Það er í stórum stíl, sem vissum mönnum er falið að undirbúa mál og vinna að tilteknum verkefnum, og það er mikið álitamál, hvort það er nefnd eða ekki.

Ég vil aðeins upplýsa það hér, að um þetta munu hafa farið fram sérstakar viðræður milli yfirskoðunarmanna ríkisreikninga, sem hafa beðið um víðtækar upplýsingar um þetta mál, og fjmrn., og ég er alveg sammála því, að æskilegt væri að gera um þetta tæmandi skrá, eins og yfirskoðunarmenn hafa fyrir sitt leyti óskað eftir. Þetta verður að sjálfsögðu gert, en það verður að eiga sér aðdraganda. Það er ekki til sundurliðað yfirlit yfir það, hvað skipað er innan rn. af trúnaðarmönnum, sem mætti kallast nefndir. Það er auðvitað til yfirlit yfir allar fastanefndir, sem starfa samkvæmt lögum, og annað þess konar, það er auðvitað ekkert efamál, en það er spurt um fleira en það. Það er spurt um, hvað af því séu fastanefndir, og þar af leiðandi verður að líta svo á, að fsp. eigi við allar nefndir, en ég hygg, að ég megi segja, að samkomulag sé um það milli rn. og yfirskoðunarmanna, að þetta þurfi verulegan aðdraganda, og þurfi að skipuleggja alveg sérstaka upplýsingaþjónustu rn., til þess að hægt sé að gefa tæmandi upplýsingar um þetta mál.

Ég taldi aðeins rétt, áður en ákvörðun yrði tekin um þessa fsp., að láta þetta koma fram, og jafnframt það, að eins og ég sagði, þá hefur orðið um það fullt samkomulag milli rn. og yfirskoðunarmanna, að mjög tæmandi skýrsla verði tekin saman um þetta mál nú á þessu ári.