22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í D-deild Alþingistíðinda. (3945)

929. mál, snjómokstur á þjóðvegum

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Þegar fram fóru umr. hér í þinginu í vetur um vegamálin, þá bar snjómokstur á góma, og höfum við nú fengið upplýsingar um það, hvað vinna við snjómokstur hefur kostað á s.l. þremur árum, og þetta er mikil upphæð, sem fer til þessarar viðhaldsvinnu. En um það er ekkert að segja. Það er nauðsynlegt að halda þjóðvegunum opnum, og það er vitað mál, að ekki eru allir ánægðir. Hér hefur hv. 4, þm. Austf. verið að lýsa áliti sínu í sambandi við Norðfjörð, og ég vil með fáeinum orðum endurtaka það, sem ég sagði hér í vetur, þegar þetta var á dagskrá, að Siglfirðingar eru langt frá því að vera ánægðir með snjómoksturinn á leiðinni frá Sauðárkróki til Siglufjarðar. Þar hefur verið ákveðið að moka aðeins einu sinni í viku, en ég held, að það sé mjög óheppilegt að hafa slík ákveðin fyrirmæli um mokstur. Stundum hefur hríðað svo mikið, að það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að ráðast í mokstur einu sinni í viku. Það geta verið stanzlausar hríðar, og þá þýðir ekkert að vera að tala um þetta, en svo geta líka verið smáskaflar, sem er hægt að ryðja úr vegi með kannske 2–3–4 klst. vinnu, þegar stórvirk verkfæri eru á næsta leiti. Mér finnst, að verkstjórar Vegagerðarinnar verði að hafa það teygjanleg fyrirmæli, að þeir sjálfir megi ráða því, hvort út í snjómokstur er farið eða ekki.

Ég vil svo að lokum taka undir það, sem hv. alþm. Gísli Guðmundsson var að tala hér um, hvort það væri ekki rétt að athuga og endurskoða ákvæðin og reglurnar um snjómokstur, og ég held, að það ætti að gilda þá almennt um snjómokstur og þyrfti að fá inn í reglugerðir fyrirmæli um enn meira svigrúm fyrir verkstjóra til að láta vinna eftir því, sem heilbrigð skynsemi býður hverju sinni.