03.02.1970
Efri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

115. mál, iðja og iðnaður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það er hinn yfirlýsti tilgangur þessa frv. að samræma ýmis ákvæði íslenzkrar löggjafar ákvæðum EFTA–samningsins. Iðnn. hefur á stuttum fundi nú áðan fjallað um þetta mál og það varð sameiginleg niðurstaða nm., að samræming af þessu tagi væri rökrétt afleiðing af aðild Íslands að EFTA. Hins vegar lítum við 3 nm. þannig á, að í einu veigamiklu atriði þurfi að gera breytingu á þessu frv., til þess að vel sé. Það er þess vegna, sem við flytjum hér brtt., að vísu skriflega, við frv. Það eru hv. 4. þm. Sunnl., Björn Fr. Björnsson, hv. 11. þm. Reykv., Kristján Thorlacius, og ég. Við erum því andvígir, að fela ráðh. eins víðtækt vald og gert er ráð fyrir í þessu frv. til þess m.a. að veita erlendum aðilum undanþágu til atvinnurekstrar hér á landi.

Hv. 4. þm. Sunnl. ræddi þetta mál nokkuð hér við 1. umr., og ég skal því ekki hafa mörg orð um þetta, en vil leggja á það áherzlu, að hér er mikilvægt mál á ferðinni og við þremenningarnir í iðnn. lítum þannig á, að það sé á engan hátt forsvaranlegt af Alþ. að afsala sér slíku valdi í hendur ráðh., og teljum, að miklu máli skipti, að breyting verði gerð hér á. Þess vegna leyfum við okkur að leggja til, að aftan við næstsíðustu mgr. 2. gr. bætist: „Þó er óheimilt að veita leyfi til iðjurekstrar án samþykkis Alþingis, ef viðkomandi félag eða fyrirtæki er að hálfu eða meira í eigu erlendra aðila.“

Ég sé ekki ástæðu til, nema þá að sérstaklega gefnu tilefni, að rökstyðja nánar þessa brtt. Þetta mál, sem hún snertir, hefur verið mikið rætt og menn hafa vafalaust mótað afstöðu sína til þess. Ég leyfi mér fyrir hönd okkar flm. að æskja þess við hæstv. forseta , að hann leiti afbrigða fyrir þessari till., þannig að hún megi einnig koma til atkvgr.