15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

80. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með frv. því um breyt. á almannatryggingalögum, sem hér er til umr., er gerð till. um að auka mjög þann styrk, sem sjúkratryggingarnar veita þeim mönnum, sem þurfa að sækja læknishjálp erlendis. Menn, sem þurft hafa að fara erlendis á sjúkrahús, hafa fengið til þess nokkurn styrk eða fjárhagslegan stuðning, sem þó hefur verið talinn ófullnægjandi, en með þessu frv. er lagt til að bæta hér verulega um.

Þessu máli var vísað til heilbr.– og félmn., og n. sendi það til umsagnar Tryggingastofnunar ríkisins og fékk þaðan nokkrar ábendingar og ýmsar grg. og skilríki um það, sem gerzt hafði áður í þessu máli við undirbúning þess. Satt að segja, þegar þetta var skoðað betur, virtist þetta mál, sem í fljótu bragði sýnist vera tiltölulega einfalt, a.m.k. séð frá sjónarhóli leikmanns, vera orðið anzi flókið og margþætt. Það kom fram í þessum skjölum frá Tryggingastofnun ríkisins, að sérfræðingana greinir nokkuð á um, hvernig heppilegast er að koma þessu fyrir, annars vegar þá sérfræðinga, sem hafa undirbúið þetta mál af hálfu rn. og hins vegar þá, sem hjá Tryggingastofnuninni eða á vegum hennar starfa. Þarna eru að vísu engin meiri háttar ágreiningsefni, en þó nokkuð mismunandi skoðanir á, hvernig þessu kerfi verður bezt fyrir komið. Þegar n. fór að athuga þetta, taldi hún sér ekki vel fært að fara að gera upp á milli skoðana þessara sérfræðinga, sem um málið höfðu fjallað á ýmsum undirbúningsstigum, heldur tók hún þá stefnu, að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, í fyrsta lagi vegna þess, að hér er þó örugglega um verulegar úrbætur að ræða fyrir það fólk, sem þarf á því að halda að fara til útlanda og fá þar læknishjálp og í öðru lagi vegna þess, að n. leit svo á, að sanngjarnar og skynsamlegar reglur yrðu ekki settar um þetta til frambúðar nema að fenginni meiri reynslu. Og það var einnig skoðun nm., að það hlyti að reka að því á allra næstu árum, að almannatryggingalöggjöfin í heild yrði tekin til endurskoðunar og þá gæfist sjálfsagt tilefni til að endurskoða þau ákvæði, sem í þessu frv. felast, að fenginni þeirri reynslu, sem þá yrði á komin. Það varð því niðurstaða n., eins og fram kemur á nál., að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt.