17.11.1969
Efri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

15. mál, menntaskólar

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess nú þegar við 1. umr. þessa máls hér í deildinni, að leggja á það áherzlu, að frá mínu sjónarmiði er hér um að ræða mjög þarft og mikilvægt mál, og ég vil gjarnan, að það komi fram úr þingmannahópi og frá þm. stjórnarandstöðu, að ég tel, að að þessu máli hafi verið sérlega vel unnið og árangurinn sé eftir því. Ég tel, að sú nefnd, sem hefur unnið að menntaskólafrv., eigi þakkir skildar fyrir það mikla starf, sem hún hefur leyst af hendi, og ég fagna því, að árangurinn hefur orðið svo góður sem ég tel að raun beri vitni um og þetta frv. sýni. Nm. hafa verið óhræddir við að gera tillögur um mjög verulegar breytingar í menntaskólanámi, sem í megindráttum eru tvímælalaust til bóta, án þess þó að vera svo róttækir, að þeir vilji umbylta öllu, sem áður reyndist vel eða sæmilega. Ég held, að þarna sé stigið myndarlegt spor, án þess þó að vera glannalegt.

Þetta frv. var lagt fyrir þingið í fyrra og komst þá í gegnum hv. Nd., en strandaði í þessari d., af hvaða ástæðum sem það nú var. Ég vænti þess, að svo þurfi ekki að fara að þessu sinni, heldur megi þetta mál, sem þegar hefur fengið mjög rækilegan undirbúning, hafa greiðan gang í gegnum þingið.

Hæstv. menntmrh. lagði að vísu á það allmikla áherzlu í framsöguræðu sinni, að hann vænti þess, að kostnaðaraukinn, sem leiddi af samþykkt þessa lagafrv., yrði ekki mjög mikill. Ég er nú engan veginn viss um það, því ef vel og rækilega verður að framkvæmdinni staðið, þá geri ég fastlega ráð fyrir, að af henni hljótist töluverður kostnaðarauki. En ég held, að hiklaust sé til svo mikils að vinna, að það sé ástæðulaust að horfa þar allt of mikið í skildinginn.

Ég vona sem sagt, að þetta frv., sem ég tel mjög mikilsvert, megi nú fá greiðan gang í gegnum Alþ. Ég á sæti í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og skal því ekki gera nú að umtalsefni örfá atriði, sem ég kynnti að hreyfa í n., en vil aðeins ítreka það, að ég fagna þessu frv. og tel, að þeir, sem að samningu þess hafa staðið, og hæstv. menntmrh., eigi þakkir skildar fyrir mjög gott starf.