20.10.1969
Sameinað þing: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1970

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur fram komið, hefur verið fylgt þeirri meginstefnu við gerð þessa fjárlagafrv. fyrir árið 1970, sem hér liggur fyrir til umr., að takmarka svo mjög útgjöld ríkissjóðs, að hægt verði að afgr. greiðsluhallalaus fjárlög án þess að leggja á nýja skatta. Heildarhækkun á rekstrarreikningi nemur rúmum 800 millj. kr. eða um 11.8%. Varla mátti með neinni sanngirni búast við minni hækkun í kjölfar nauðsynlegra efnahagsaðgerða til stuðnings útflutningsframleiðslunni á s.l. ári og þeirra verðlagsbreytinga, sem af þeim hlaut að leiða. Er raunar augljóst, að sparlega hefur verið á öllu haldið. Um helmingur af útgjaldaaukningunni rennur til menntamála, heilbrigðismála og tryggingamála, en hækkun á öðrum fjárlagaliðum er fyrst og fremst hækkun á launum opinberra starfsmanna og 90 millj. til aukinna opinberra framkvæmda. Er ánægjulegt til þess að vita, að unnt hefur verið að auka fjárveitingar til félags– og menntamála þrátt fyrir erfitt árferði.

Fjárlagafrv. fylgja drög að framkvæmdaáætlun ársins 1970 fyrir opinberar framkvæmdir, nemur sú áætlun 285 millj. kr. og hefur Seðlabankinn gert áætlanir um fjáröflun til þeirra framkvæmda. Er hér aðallega um að ræða fé til stækkunar áburðarverksmiðju, til Laxárvirkjunar og annarra raforkuframkvæmda og raforkurannsókna svo og til byggingarframkvæmda Háskólans, sem kemur til viðbótar því fé, sem háskólahappdrættið leggur fram.

Fjárlög verða að sjálfsögðu ekki rædd af neinni sanngirni, nema haft sé í huga almennt efnahagsástand og árferði hverju sinni, kemur þar bæði til greina árferði undanfarinna ára eða aðdragandi fjárlaganna svo og útlit og horfur. Eins og kunnugt er, lækkuðu útflutningstekjur þjóðarinnar um nærri helming á tveggja ára tímabili, árin 1966–1968, var um að ræða bæði verðfall á útflutningsframleiðslunni og aflabrest. Er hér um að ræða mesta efnahagsáfall þjóðarinnar á þessari öld og meira áfall, en komið hefur fyrir nokkra aðra þróaða þjóð, ef undan eru skildar styrjaldarástæður. Þessi stórfellda tekjulækkun og minnkaða kaupgeta hjá þeim, sem að útflutningsframleiðslunni störfuðu, hlaut að hafa stórfelld samdráttaráhrif á allt atvinnulíf í landinu.

Hin mikla uppbygging atvinnulífsins á árunum fyrir 1967, hinn öflugi gjaldeyrisvarasjóður og hinar stórfelldu framkvæmdir við Búrfell og í Straumsvík drógu þó lengi vel úr því, að hin stórkostlegu áföll legðust á þjóðina af fullum þunga, eins og þau gerðu s.l. vetur. Það má kannske eftir á segja, að efnahagsaðgerðirnar hafi dregizt of lengi, vegna þess að menn gerðu sér vonir um að aflabresturinn og þó einkum hið mikla verðhrun á útflutningsframleiðslunni yrði ekki eins varanlegt eins og raun varð á.

Það hefur verið megin viðfangsefni ríkisstj. undanfarin misseri að ráða bót á því atvinnuleysi, sem af áföllunum stafaði. Stjórnarandstaðan hefur ýmist ekki viðurkennt, að um nein veruleg áföll hafi verið að ræða eða, þó að hún hafi stundum viðurkennt þau í orði, hún hefur a.m.k. ekki tekið neitt tillit til þess í málflutningi sínum og reynt að notfæra sér ástandið í áróðursskyni. Það leysir þó vissulega engan vanda að sniðganga staðreyndir og beita blekkingum. Margt orkar tvímælis, er gert er, og má um deila, en verður skýrara og hverjum manni auðskildara er frá líður. Í ljósi þess er rétt að athuga nokkru nánar atvinnumálin, sem hafa verið bragð bezta áróðursefni stjórnarandstöðunnar undanfarin misseri og athuga nokkru nánar annars vegar, hvernig stjórnarflokkarnir og hins vegar, hvernig stjórnarandstaðan hefur staðið að þeim málum, þeirri vá, sem atvinnuleysið er.

Hinar róttæku efnahagsaðgerðir s.l. vetur, sem engum var að sjálfsögðu ljúft að framkvæma, voru eingöngu gerðar til þess að ráðast gegn atvinnuleysinu, til eflingar útflutningsframleiðslunni, sem allt atvinnulíf í landinu byggist á og til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna út á við. Stjórnarandstaðan reyndi á allan hátt að þvælast fyrir þessum nauðsynlegu aðgerðum og gera þær tortryggilegar, en hafði þó ekki upp á neitt annað að bjóða en almenn slagorð um aðrar leiðir, allsherjar endurskoðun á grundvelli atvinnulífsins, eflingu hinna þjóðlegu atvinnuvega o.s.frv.

Nú er liðinn hæfilegur tími til þess að fengizt hefur nokkur reynsla af áhrifum gengisbreytingarinnar og annarra ráðstafana, er henni fylgdu, á stöðu þjóðarbúsins. Um þetta atriði segir í nýútkomnu riti Seðlabankans, Fjármálatíðindum, að ekki fari á milli mála, að fyrstu áhrif gengisbreytingarinnar á greiðslujöfnuð og gjaldeyrisstöðu hafi verið mjög hagstæð. Kemst hann að þeirri niðurstöðu, að greiðslujöfnuðurinn fyrri helming þessa árs hafi verið hagstæður um 300 millj. kr., en var óhagstæður á sama tímabili í fyrra um 1.000 millj. kr. Batinn á milli þessara fyrri árshelminga 1968 og 1969 nemur því hvorki meira né minna en 1.300 millj. kr. og er þá reiknað á núverandi gengi bæði árin og innflutningur til Búrfellsvirkjunar og álbræðslu dreginn út úr bæði árin til þess að rugla ekki samanburðinum. Að vísu bendir Seðlabankinn á, að því miður hafi einn þáttur sjávarútvegsins algerlega brugðizt og á hann þar við Austurlandssíldina, telur hann, að af þeim sökum verði síðari árshelmingur töluvert óhagstæðari, en þó sé ástæða til þess að gera sér vonir um, að jafnvægi náist í viðskiptunum við útlönd á árinu í heild og sé þar um mjög mikilvæg umskipti að ræða í þjóðarbúskapnum eftir áföll síðustu tveggja ára.

Með tilliti til atvinnumála var markmið efnahagsaðgerðanna s.l. vetur fyrst og fremst það að ráðast gegn atvinnuleysinu, efling útflutningsatvinnuveganna með fyllstu nýtingu fiskveiðiflotans og fiskvinnslustöðvanna og bætt samkeppnisaðstaða iðnaðarins. Þessar aðgerðir báru strax mjög verulegan árangur í öllum byggðarlögum landsins. Í þeim byggðarlögum, sem byggja afkomu sína að mjög verulegu leyti á útflutningsframleiðslunni, fiskveiðum og fiskverkun, hvarf atvinnuleysið með öllu á nokkrum vikum, þó að sums staðar yrði að grípa til sérstakra ráðstafana, sem ég mun víkja að síðar. Á mestu þéttbýlissvæðunum, höfuðborgarsvæðinu og á Akureyrarsvæðinu, eða Akureyrar–Siglufjarðarsvæðinu, kom batinn hægar, en þó nokkuð jafnt og öruggt. Er það skiljanlegt, þar sem iðnaður vegna heimamarkaðar og margvísleg þjónustustörf eru verulegur hluti atvinnulífsins og verður að bíða eftir aukinni kaupgetu frá útflutningsstarfseminni og þeim, sem við hana vinna. Á Akureyri og Siglufirði kom einnig til staðbundinna og tímabundinna erfiðleika einstakra hlutfallslega stórra fyrirtækja, sem vantaði hráefni, t.d. til niðurlagningar og niðursuðu.

Þó að verulega drægi úr atvinnuleysinu, er leið á veturinn og vorið, voru margir uggandi um atvinnumöguleika hins stóra hóps skólafólks, um 8.000 manns, sem bættist á vinnumarkaðinn á tiltölulega skömmum tíma. Þetta fór þó betur en á horfðist. Nokkrar sérstakar ráðstafanir voru gerðar og mun hafa rætzt úr fyrir flestum furðu vel, en hætt er þó við, að ýmsir hafi orðið tekjurýrari, en oft áður. Sumaratvinna skólafólks er annars mál, sem athuga þarf mjög gaumgæfilega. Hætt er við því, að þróun atvinnulífsins, aukin vélvæðing og aukin iðnþróun geri það að verkum, að æ erfiðara verði að veita ört stækkandi árgöngum skólafólks fullnægjandi sumaratvinnu. Er að því mikil eftirsjá, þó að ekki komi til fjárhagserfiðleikar þessa æskufólks. Ef ekki tekst með einhverjum ráðum að tryggja þessu skólafólki örugga sumaratvinnu, kemur vel til athugunar að lengja árlegan skólatíma hjá einstökum hópum skólafólks, einkum langskólamönnum og koma á námslaunakerfi og stytta þannig heildarnámstímann.

Í athyglisverðri skýrslu, sem Efnahagsstofnunin hefur nýlega gert í samráði við atvinnumálan. ríkisins um atvinnuástandið, kemur fram, að mánuðina maí–ágúst voru skráðir atvinnulausir á öllu landinu um 1,4% mannafla. Á sama tíma var skráð atvinnuleysi í Noregi nokkru minna eða um 0,8%, en á öllum hinum Norðurlöndunum meira, í Danmörku 1,7%, í Svíþjóð 2% og í Finnlandi um 2,8%. Út af fyrir sig er það ánægjulegt eftir hina miklu efnahagsörðugleika, sem yfir hafa gengið, að atvinnuleysi nú er ekki orðið meira en gerist hjá Norðurlandaþjóðunum, sem þó gera flestum ef ekki öllum þjóðum meira til þess að tryggja fulla atvinnu. Athugun Efnahagsstofnunarinnar er öll hin athyglisverðasta, hún beindist fyrst og fremst að samsetningu og eðli atvinnuleysisins í Reykjavík, á Akureyri og á Siglufirði. Allt er þetta nokkuð mismunandi eðlis og á rætur sínar að rekja til mismunandi ástæðna. Gefur þessi athugun vissulega nýjar upplýsingar og betri skilning á eðli málsins og gerir það viðráðanlegra að ráða bót á vandanum eftir eðli hans í hinum ýmsu tilvikum. Í Reykjavík er atvinnuleysið minna, en jafndreift eftir kyni og hjúskaparstétt og virðist standa í sambandi við slaka vinnuaflseftirspurn í heilum atvinnugreinum, t.d. byggingariðnaði. Á Akureyri og einkum á Siglufirði er það meira og hlutfallslega miklu meira af konum en körlum, og stendur m.a. í sambandi við vöntun á hráefni til niðursuðu. Líklegt þykir, að tiltölulega ríflegar atvinnuleysisbætur geri það að verkum, að atvinnuleysisskráning er fastar sótt, en áður tíðkaðist, m.a. af fólki, sem annars tæki aðeins tímabundinn og tilviljunarkenndan þátt í atvinnulífinu eða ætti við vanhæfni við vinnu eða aðlögunarerfiðleika að stríða, en þó að mikið hafi áunnizt til úrbótar á því atvinnuleysi, sem að steðjaði s.l. vetur, er vissulega enn við nokkurt atvinnuleysi að stríða í þeim byggðarlögum, sem ég nefndi sérstaklega, og minna um yfirvinnu og aukatekjur en á velgengnisárunum og mega margir illa við því. Það hlýtur því að vera höfuðviðfangsefni ábyrgra stjórnarvalda og raunar allra ábyrgra og velviljaðra stjórnmálamanna að vinna að lausn þessara mála án þess að láta flokkspólitískan áróður tefja fyrir og torvelda úrbætur. Það er raunar ánægjulegt til þess að vita, að ríkisstj. hefur átt mjög gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og atvinnumálanefndir hinna ýmsu byggðarlaga og margt hefur verið vel gert og er verið að gera í samráði við þessa aðila og má í því sambandi nefna 340 millj. kr., sem ráðstafað hefur verið í samráði við fulltrúa hinna ýmsu byggðarlaga til stuðnings við gamlan og nýjan atvinnurekstur, sem vænlegur þótti til nokkurra varanlegra úrbóta að kunnugra manna yfirsýn. Í þessu sambandi má einnig nefna, að hraðað verður 440 millj. kr. fjárveitingu til húsnæðismála, sem mun auka atvinnu við byggingar mjög verulega og nýjasta ákvörðun ríkisstj. er, að ákveðið hefur verið að hefja lánveitingar til skipasmíðastöðvanna til smíða á fiskiskipum, þó að ekki sé búið að selja þau fyrir fram. Undanfarin ár hafa risið hér upp skipasmíðastöðvar, sem tæknilega eru fullfærar um að byggja fiskveiðiskipin og hefur farið verulega fram um samkeppnishæfni á skömmum tíma. Föst og ákveðin verkefni fram í tímann eru þessari atvinnugrein eins og öðrum mikilvæg til þess, að til betra og hagkvæmara skipulags stefni og skapar möguleika til nýrrar hagræðingar og aukinnar framleiðni. Þá má einnig nefna það, að tryggt hefur verið fjármagn til þess að halda áfram þeirri varanlegu vegabyggingu, sem byrjað er á. Allt á þetta eftir að auka atvinnu og skapa nýja kaupgetu, en það örvar aftur aðrar atvinnugreinar. En þrátt fyrir þetta allt og jafnvel þó að það dugi í bili til þess að bægja frá bráðasta voðanum, þá þarf þjóðin vissulega að hyggja vel að atvinnumálum sínum í náinni framtíð og liggja til þess ástæður, sem ég skal nánar gera grein fyrir.

Þjóðhagslega séð hefur sjávarútvegurinn verið okkar langsterkasta atvinnugrein það sem af er þessari öld og verður það vafalaust um langa framtíð enn. Í skjóli sjávarútvegs hafa landbúnaður og iðnaður tekið mjög örum þroska á tiltölulega skömmum tíma miðað við aðstæður og er ekki nema gott eitt um það að segja, svo lengi sem sjávarútvegurinn er þess um kominn. En það er nú einu sinni svo, að hinir samkeppnishæfustu atvinnuvegir leggja drýgstan skerf til lífskjara hverrar þjóðar, en styrkir og verndanir draga lífskjörin niður. Þar með er þó ekki sagt, að styrkir og vernd að vissu marki geti ekki átt á sér nokkurn rétt. Ég er t.d. þeirrar skoðunar, að það sé þjóðhagslega rétt að veita landbúnaðinum vernd svo langt fram í tímann sem ég sé, en svo ég taki ekki of djúpt í árinni tel ég það mikið vafamál, hvort iðnaður, sem þarfnast við skulum segja 40% tollverndar, skili nokkrum einasta eyri í vinnulaun í þjóðarbúið, því að engan veginn er víst, að verðmæti vinnunnar sé meira en einmitt þessi tollvernd. Og ég tel það mikið vafamál, að útfluttar mjólkurafurðir hafi staðið undir erlendum kostnaði við framleiðslu þeirrar vöru. Hvort tveggja skapar atvinnu en engin vinnulaun. Þeir, sem krefjast styrkja og verndar fyrir sívaxandi hluta þjóðarframleiðslunnar og jafnframt batnandi lífskjara, eru ekki sjálfum sér samkvæmir. Enginn mannlegur máttur getur veitt þeim þetta hvort tveggja og því miður eru það nú einmitt sömu stjórnmálamennirnir, sem heimta hvort tveggja. Þetta stafar ekki af greindarleysi hjá þessum mönnum, þetta er blekking. Í reynd eru styrkir og vernd baggar, sem eru hengdir sitt hvoru megin á sjávarútveginn. Baggar, sem Brúnka getur borið stuttan spöl hverju sinni, þegar saman fer uppgripaafli og óvenjulega hagstætt útflutningsverð. Ef Brúnka staulast áfram í 2–3 ár, hafa menn sífellt tilhneigingu til þess að binda henni kannske 50% of þunga bagga miðað við venjuleg aflabrögð og verð. Ef eitthvað ber út af um aflabrögð eða verð, sligast Brúnka og menn verða að tína af henni baggana aftur, annað hvort í formi 50% gengisfellingar eða það sem verra er, í formi atvinnuleysis. Þetta er einfaldlega skýringin á tíðari og stórfelldari gengisfellingum en þekkjast í nokkru öðru nálægu landi. Það eru engir galdrar til í þessu efni. Ef menn vilja búa við góð og vaxandi lífskjör, þá þarf sívaxandi hluti þjóðarframleiðslunnar að vera samkeppnisfær án styrkja og verndar. Mörg helztu og djúpstæðustu ágreiningsmál stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna undanfarin ár hafa einmitt verið vegna grundvallarstefnunnar í þessum málum. Grundvallarstefnunnar í því, hvernig byggja skuli upp framtíðarstefnuna í atvinnumálum, og hvergi hefur komið betur og skýrar í ljós, hverjir eru framfarasinnaðir og hverjir eru andófsmenn og afturhaldsmenn og skal ég rökstyðja það nokkuð. Það ætti öllum að vera orðið ljóst, að atvinnuvegirnir eru of einhæfir og allar greinar þeirra meira og minna háðar þeim máttarstólpa, sem sjávarútvegurinn er. En þó að hann sé sterkur, þá hlýtur hann alltaf að vera sveiflubundinn, háður aflabrögðum, veðurfari og verðlagi og ef eitthvað bjátar á hjá honum, þá er strax vá fyrir dyrum. Markmiðið hlýtur því að vera að leita allra ráða til þess að efla og koma upp nýjum samkeppnishæfum iðnaði fyrir heimamarkað og til útflutnings, sem verið gæti burðarás við hlið sjávarútvegs, styrkt þar með verðgildi krónunnar og bætt lífskjörin. Fyrir nokkrum árum gerði Efnahagsstofnunin áætlun um fjölgun fólks á vinnumarkaðinum á árabilinu 1965 til 1985. Er niðurstaðan sú, að atvinnufólki muni fjölga um 45% eða um 34 þús. manns á þessu 20 ára tímabili. Er það meira en tvöfaldur sá mannfjöldi, sem nú vinnur samtals í landbúnaði og fiskveiðum. Í landbúnaði starfa nú um 10 þús. manns og fer heldur fækkandi. Í fiskveiðum um 5.500 manns og er það um það bil nákvæmlega sami mannfjöldi og stundaði fiskveiðar hér árið 1910. Auðvitað geta orðið um það skiptar skoðanir, hvort auka megi fiskveiðar mjög verulega, frá því sem nú er, eða fjölga fólki í þeirri atvinnugrein. Efnahagsstofnunin telur það hæpið, að um geti orðið að ræða stórfellda aukningu í fiskveiðum Íslendinga og bendir í því sambandi á þá staðreynd, að nýting margra fiskistofna í N-Atlantshafi sé í hámarki. Á það má einnig benda, að samkeppnisaðstaða Íslendinga hefur versnað, m.a. vegna stórkostlega aukinnar sóknar þjóða, sem áður stunduðu lítið fiskveiðar og ekki síður vegna þess, að flestar þjóðir vernda sinn heimamarkað og víða eru veittir styrkir til fiskveiða í skjóli sterks iðnaðar, sem þá er að jafnaði yfirgnæfandi atvinnuvegur, t.d. eru gamlir keppinautar okkar, Norðmenn, farnir að styrkja fiskveiðar sínar talsvert til stuðnings vissum byggðarlögum. Vafalaust er hægt að nýta betur afla okkar, en nú er gert og miðar alltaf nokkuð í þá átt, en þess er þó að gæta, að samkeppnisaðstaðan verður þeim mun verri sem fiskurinn er meira unninn, vegna þess að innflutningstollar markaðsbandalaganna vaxa að jafnaði með auknu vinnslustigi varnings. Af hinni miklu fólksfjölgun á vinnumarkaðinum, 34 þús. manns fram til ársins 1985, má gera ráð fyrir, ef byggt er á reynslu annarra þjóða, að um helmingur gangi til þjónustustarfa, en þó að sjálfsögðu að því tilskildu, að það takist að staðsetja hinn helminginn, um 17 þús. manns, við samkeppnishæf framleiðslustörf. Það er hér, sem vandinn liggur og er vandséð, að um aðrar leiðir sé að ræða, en að byggja upp samkeppnishæfa iðnaðarframleiðslu fyrir verulegan hluta þessa fólks. Það var því ekki þarflaus fyrirhyggja, þegar ríkisstj. strax á góðæristímabilinu hóf að huga að stórvirkjun og orkufrekum iðnaði. Það var liðin hálf öld síðan gáfaður stórhugi var kominn á fremsta hlunn með að hrinda slíkum stórvirkjum í framkvæmd. Ekki varð þó af þeim framkvæmdum og enn rann Þjórsá óbeizluð og ónýtt til sjávar í hálfa öld. Allar götur síðan hefur verið rætt og ritað um orku fallvatnanna sem eina aðalauðlind landsins og grundvöll iðnþróunar og oft á tíðum eins og nýting þessara verðmæta væri á næsta leiti. En sannleikurinn er bara sá, að það þjónar engum tilgangi að viðurkenna ekki staðreyndir, að stórvirkjanir ásamt uppbyggingu orkufreks iðnaðar eru svo stórfelld fyrirtæki fjárhagslega, tæknilega og ekki sízt sölutæknilega, að við höfum ekki verið þess umkomnir að gera það á eigin spýtur og höfum raunar oft og tíðum átt fullt í fangi við smávirkjanir til almenningsneyzlu. Nú er svo komið, að vatnsaflsvirkjanir geta átt í erfiðri samkeppni við kjarnorkuvirkjanir í náinni framtíð og gætum við þá hæglega misst af strætisvagninum. Það er góðra gjalda vert að vera varfærinn í þjóðernismálum, en hitt kann stundum að orka tvímælis, hvort sé íslenzkum hagsmunum hollara að ala á minnimáttarkennd og einangrun og stuðla þannig að efnahagslegri afturför eða hitt að manna sig upp í það að halda til jafns við útlendinga og öðlast þá reynslu, sem er nauðsynleg í samskiptum við aðra aðila á tuttugustu öldinni. Norðmenn, tuttugu sinnum stærri þjóð en við, létu sér það lynda að leysa iðnþróunarmál sín í samvinnu við aðra aðila og gaf það góða raun. „Sjálfstæði er betra en kjöt“, sagði Bjartur í Sumarhúsum. Hann var sjálfum sér samkvæmur, blessaður karlinn og gerði ekki meiri kröfur til lífsins, en sjálfstæðið leyfði, en eigi að síður rættust ekki draumar Bjarts. Þegar ríkisstj. hóf samninga um byggingu Álverksmiðjunnar í Straumsvík og undirbúningi að stórvirkjun við Búrfell, boðaði stjórnarandstaðan hagfræði Bjarts í Sumarhúsum, eins og oft fyrr og síðar og taldi sig hafa til þess góða aðstöðu, þegar þjóðin bjó við betri lífskjör en nokkru sinni fyrr og þurfti ekki á slíku að halda þá stundina. Bygging álversins var þannig talin tilræði við hina þjóðlegu atvinnuvegi, sem skorti vinnuafl þá stundina og alið var á þjóðerniskennd og tortryggni í garð þeirra manna, sem að samningsgerðinni stóðu. Stjórnarandstaðan lét sig hafa það að greiða atkv. á móti þessum framkvæmdum. Framsóknarmenn telja sig nú út af fyrir sig ekki hafa verið á móti Búrfellsvirkjun, en það er vægast sagt útúrsnúningur, því það vita allir, að 210 þús. kw. virkjun, nærri þreföldun á vatnsvirkjuninni, sem fyrir var, var ekki framkvæmanleg nema tryggð væri sala á verulegum hluta orkunnar strax. Byggingarframkvæmdir við Búrfell og í Straumsvík námu um 7 þús. millj. kr. Við þær unnu oftast talsvert á annað þúsund manns á árunum eftir áföllin og enn vinna í Straumsvík um 400 manns. Gjaldeyristekjur af framleiðslunni verða á fimmta hundrað þúsund kr. á næsta ári og á árinu 1974 hátt í 800 millj. Nú verður varla um það deilt, hverjir voru framsýnir og hverjir skammsýnir í atvinnumálum ört vaxandi þjóðar. Allir sjá nú, hvaða afleiðingar það hefði haft, ef stjórnarandstöðunni hefði tekizt að koma í veg fyrir þessar framkvæmdir.

Svipuð þessu urðu átökin um Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn, enn boðaði stjórnarandstaðan hagfræði Bjarts í Sumarhúsum og tókst þó ekki að koma í veg fyrir framkvæmdir. Hvað er þetta? Mér er spurn: Hvað er þetta annað en íhaldssemi og afturhaldssemi og íhaldssemi er engu betri, þó að hún kenni sig við róttækar vinstri stefnur og kemur raunar óorði á frjálslynda, framfarasinnaða og umbótasinnaða vinstri stefnu. Það er að sjálfsögðu ekki úr lausu lofti gripin sú málvenja, sem nú tíðkast austan járntjalds, að greina milli íhaldssamra og frjálslyndra kommúnista og gæti verið gagnlegt að skilgreina nánar hinar ýmsu vinstri stefnur hér á landi. Og ekki yrði vandinn minni a.m.k. málfarslega séð, þegar tala þarf um afturhaldssama framsóknarmenn, en vissulega sitja þeir við stýrið í þeim flokki. Sóknin til samkeppnishæfrar iðnþróunar verður ekki vandalaus fyrir fjármagnssnauða smáþjóð og má búast við ýmsum vonbrigðum á þeirri leið, en hún er eigi að síður þjóðarnauðsyn og þegar á heildina er litið er ekki ástæða til annars en bjartsýni. Ef hægt er að koma skriðunni af stað, öðlast þjóðin tæknilega og viðskiptalega reynslu og fær það sjálfstraust, sem henni

er nauðsynlegt. Hvað leiðir af öðru og hvað styrkir annað. Af góðri reynslu frá Búrfelli og í Straumsvík skapast nýjar hugmyndir um stórkostlegar virkjanir á Austurlandi og Suðurlandi og andófsmennirnir bregða búi að Sumarhúsum. Sannleikurinn er sá, að ríkisstj. hefur haft fleiri og stærri framtíðarjárn í eldinum en nokkur önnur ríkisstj. Íslenzkur iðnaður hefur búið við nokkra og þó hóflega samkeppni um skeið og kemur út úr þeim átökum sterkari og djarfari en nokkru sinni fyrr. Þess sjást alls staðar merki. Fjárfesting í iðnaði hefur vaxið og talar það skýru máli og hún vex einmitt í þeim iðngreinum, sem hyggja á útflutningsframleiðslu og samkeppnishæfa framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Þjóðin hefur á að skipa mörgum raunsæjum, framsýnum forystumönnum í iðnaði, sem gera sér fyllilega ljóst hlutverk iðnaðarins í íslenzkum þjóðarbúskap. Iðnrekendur hafa komið sér upp útflutningsskrifstofu og þjóðinni er að skiljast, hvað hönnun á iðnaðarvarningi er. Með fárra daga millibili fáum við fjölmargar jákvæðar fréttir af þessari byrjunarviðleitni. Fullvinnsla okkar sérstæðu ullar flyzt inn í landið, sútun skinna flyzt inn í landið, útflutningur á pelsum og annarri fullunninni iðnaðarvöru úr skinnum er hafin. Fatnaðarsýning, sem nýlega var á ferð í Kaupmannahöfn, Þýzkalandi og London, telur sig hafa náð 100 viðskiptasamböndum og þarf þó að sækja í gegnum tollmúra markaðsbandalaganna, Fríverzlunar samtakanna og Efnahagsbandalagsins. Málning er flutt út, umbúðir eru fluttar út, skipabygging flyzt inn í landið, Hafnfirðingar ætla að fara að smíða fiskibát fyrir Indverja, margvíslegur iðnaður er seldur til Færeyja og ólíklegt má telja, að Færeyingar kaupi af okkur iðnaðarvarning á dýrara verði en þeir geta fengið hann annars staðar. Þeir hafa verið meðlimir EFTA síðan 1968. Bendir þetta allt til þess, að við séum orðnir samkeppnisfærari um ýmsan iðnaðarvarning en margan grunar. Við höfum að vísu betri tök á því að selja vörur í Færeyjum, en víða annars staðar, en þetta sýnir okkur þó einmitt það, að okkur vantar fyrst og fremst sölutækni á erlendum markaði, aukna og betri hönnun á hinum sérstæðu hráefnum okkar og umfram allt hugdirfsku til þess að horfast í augu við aðrar og stærri þjóðir en Færeyinga. Við skulum ekki gera of mikið úr öllum þessum fréttum, en við skulum heldur ekki gera of lítið úr þeim og umfram allt ekki draga úr kjarki þeirra manna, sem að þessari viðleitni standa. Ekkert af þessu hefði getað gerzt í Sumarhúsum. Vissulega hefði verið æskilegt að efla iðnaðinn meira en gert hefur verið og hægt hefur verið að gera í fjármagnssnauðu þjóðfélagi, sem hefur í mörg horn að líta, en það er fyrst og fremst fjármögnun, sem iðnaðurinn þarfnast. En athyglisvert er, að af umtalsverðri gagnrýni, sem stefna ríkisstj. hefur fengið í iðnaðarmálum, þá hefur hún ekki verið frá framámönnum iðnaðarmanna eða iðnrekenda, hún hefur verið frá Sumarhúsamönnum.

Ég gat þess áðan, að ríkisstj. hefur haft fleiri járn í eldinum en nokkur önnur ríkisstj. til þess að breikka grundvöll atvinnulífsins og móta framtíðarþróun þess. Auk Búrfells, Álverksmiðjunnar og Kísilgúrverksmiðjunnar, innlendra skipasmíðastöðva og sútunarverksmiðja er hafinn undirbúningur að stækkun Áburðarverksmiðjunnar. Í athugun og á rannsóknarstiginu eru mörg stór verkefni. Má þar t.d. nefna sjóefnavinnslustöð á Reykjanesi og olíuhreinsunarstöð, þaravinnslu við Breiðafjörð, perlusteinsnámur á Austurlandi og leit og rannsóknir á málmgrýti og öðrum dýrmætum jarðefnum og umfram allt undirbúning undir stórkostlegri virkjanir, en okkur hefur nokkru sinni fyrr dreymt um.

Herra forseti. Ég hef varið miklum hluta ræðutíma míns í atvinnumálin, sem ég tel vera mál málanna, ekki bara í dag, heldur einnig í náinni framtíð með tilliti til ört vaxandi árganga á vinnumarkaðinum og skal ég nú fara að ljúka máli mínu. Niðurstaða mín er sú, að við verðum, fámenn og fjársnauð þjóð, að brjótast fram til nútíma iðnþróunar og byggja þannig upp nýjan burðarás við hlið sjávarútvegsins til þess að treysta gildi gjaldmiðilsins og tryggja jafnan og öruggan vöxt lífskjara. Þjóðin hefur nægt andlegt og líkamlegt atgervi og nógan manndóm til þess að halda til jafns við aðra og hafi hún það ekki, þá getur hún heldur ekki búið við jafngóð kjör og aðrir. Hið langvarandi samstarf núverandi stjórnarflokka, sem annars eru um flest ólíkir, hefur byggzt á því, að þeir eru sammála um að hafta stefna kreppuáranna frá fjórða áratugnum sé liðin saga og að hafta– og uppbótaleið eftirstríðsáranna hafi gengið sér til húðar. Og þeir eru sammála um það, að nútíma iðnþróun hljóti að vera lausnin í atvinnumálum ört vaxandi þjóðar. Í þessum grundvallaratriðum er staðfest hyldýpi milli núverandi stjórnarflokka og stjórnarandstöðu, Sumarhúsaandans, sem enn í dag hefði horft á Þjórsá renna óbeizlaða til sjávar í stað þess að mala þjóðinni betri lífskjör.