20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram hér á Alþ. í gær og þess vegna hefur verið takmarkaður tími til að kynna sér efni þess og hinar ýmsu skýrslur og tölur, sem því fylgja. Þess vegna verður það, sem ég segi hér, sagt með þeim fyrirvara, að ekki hefur gefizt tími né aðstaða til þess að íhuga efni þess nægilega. En mér sýnist svo við fljótan yfirlestur, að í frv. felist tvö meginatriði.

Fyrra atriðið er það, að framkvæmdum við uppbyggingu álbræðslunnar verður hraðað um 2–3 ár og hún kemst af þeim ástæðum fyrr til fullra nota en ella.

Hitt atriðið sýnist mér að felist í því, að heildarsala á raforku til álbræðslunnar verður aukin úr 120 í 140 MW, eða um rúmlega 20 MW, og samfara því fari fram stækkun á álbræðslunni, sem svari því, að hún framleiði 10-11 þús. lestum meira af áli, heldur en upphaflega var gert ráð fyrir, þannig að framleiðsla hennar verði eftir þessa stækkun frá 70–77 þús. smálestir í staðinn fyrir 60–61 þús. smálestir.

Ég hygg, að það liggi í augum uppi í sambandi við fyrra atriðið, — þ.e. að framkvæmdum við álbræðsluna verði hraðað og afköst hennar verða þess vegna fyrr nýtt en ella,— að það sé óbeinn hagur að því fyrir okkur; hagur fyrir Landsvirkjun og þjóðina í heild að ýmsu leyti. Þetta þýðir t.d. það, að orka, sem ella mundi fara til einskis hjá Búrfellsvirkjun, nýtist fyrr og betur en ella, svo ég tel þetta atriði samningsins ótvírætt vera til hagræðis.

Um hitt atriðið, sem snýst um það, að orkusalan verði aukin um 20 MW, — þ.e. heildarorkusalan þegar álbræðslan verður komin til fullra nota, — er það að segja, að hvort í því felst hagræði fyrir okkur eða ekki, byggist á því, hvort það verð, sem hér fæst, fullnægir til að mæta kostnaðarverði á orkunni frá Búrfellsvirkjun eða ekki. Um þetta kom fram ágreiningur í Landsvirkjunarstjórn. Að vísu mun það vera rétt, að allir þeir, sem þar eiga sæti, greiddu atkv. með samningnum, en tveir þeirra með fyrirvara, og ég veit að annar þeirra, Sigtryggur Klemenzson, greiddi atkv. með samningnum með þeim fyrirvara, að hann teldi þetta orkuverð of lágt.

Mér finnst rétt að rifja það upp í þessu sambandi, hvernig áætlanir voru um orkuverðið, þegar frá álsamningnum var gengið hér á Alþ. vorið 1966. Orkusamningurinn var þá byggður á áætlun, sem var í stuttu máli á þessa leið: Það var gert ráð fyrir því, að fyrsti áfangi Búrfellsvirkjunar mundi kosta 31.5 millj. dollara miðað við þáverandi gengi. Það var gert ráð fyrir því, að lánin, sem fengjust til virkjunarinnar, yrðu með þeim kjörum, að vextirnir yrðu 6% og lánstíminn 25 ár. Og samkvæmt þessu átti kostnaðarverðið á rafmagni frá virkjuninni að vera 21.1 eyrir á kwst. Nú blasir það við, að þetta hefur hvergi nærri staðizt. Eins og komið hefur hér fram í umr., þá er kostnaður við 1. áfanga, sem nú er að verða búinn eða segja má, að sé lokið, orðinn 38–40 millj. dollara í staðinn fyrir 31.6 millj. dollara, eins og upphaflega var áætlað. Stofnkostnaðurinn er því orðinn einum 7–8 millj. dollara hærri en upphaflega var ráð fyrir gert, og það hlýtur að sjálfsögðu að hafa sín áhrif á rekstrarkostnaðinn. En meira munar þó í sambandi við þau lánskjör, sem eru á lánunum. Eins og ég sagði áðan, var gert ráð fyrir því í áætluninni, að vextir yrðu 6% og lánin yrðu greidd á 25 árum. En erlendu lánin, sem nú hvíla á Búrfellsvirkjun, eru í stuttu máli þessi: Lán frá Alþjóðabankanum upp á 18 millj. dollara, sem er með 6% vöxtum til 25 ára. Þar hefur það náðst, sem að var stefnt. En svo kemur 6 millj. dollara lán. Á því eru 7% vextir og það er aðeins til 15 ára. Þá kemur 4 millj. dollara lán. Á því eru 71/2% vextir til 10 ára. Og í fjórða lagi kemur annað 6 millj. dollara lán, og á því eru 71/2% vextir og það aðeins til 5 ára. Ég held, að það liggi í augum uppi, að lánskjörin eru þess vegna mun óhagstæðari en gert er ráð fyrir í þeirri áætlun, sem lögð var fyrir Alþ. vorið 1966 og orkusamningurinn við álbræðsluna var byggður á. Og ég held, að þegar þetta er athugað, þá sé framleiðsluverðið á kwst. frá Búrfellsvirkjun orðið miklu meira en 21.1 eyrir, sem gert var ráð fyrir, og í reynd miklu meira en þeir 22 aurar, sem við fáum fyrir kwst. af þeirri raforku, sem við seljum álbræðslunni. Við þetta er svo því að bæta, að hér er ekki reiknað með gasaflsstöðinni, en samkvæmt því, sem hæstv. raforkumrh. hefur upplýst, nemur kostnaðurinn af henni 11/2 eyrir á hverja kwst., sem Búrfellsvirkjun kemur til með að framleiða, þegar hún er fullnýtt.

Mér virðist, að samkvæmt því, sem ég nú hef rakið, hljóti kostnaðarverðið á raforkunni frá Búrfellsvirkjun að vera orðið miklu meira en þeir 22 aurar, sem við fáum fyrir orkuna, sem við seljum álbræðslunni, ef áætlun sú er lögð til grundvallar, sem var lögð fyrir Alþ. 1966 og orkusamningurinn við álbræðsluna var byggður á. En það kann að vera, að við þær tölur, sem ég hef nú nefnt, megi gera einhverjar aths., og þess vegna er það eðlilegt og óhjákvæmilegt áður en frá þessum málum verður gengið, að það fari fram ýtarleg, vönduð og hlutlaus athugun á því, hvert raunverulegt framleiðsluverð er hjá Búrfellsvirkjun. Og ég segi það hvað mig snertir, að ef það kemur í ljós, að þær tölur, sem ég hef hermt, eru ekki réttar, þá skal ég fúslega viðurkenna það, en ekki fyrr en liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um að svo sé. Ef hæstv. ríkisstj. lítur svo á málið, að þessar tölur megi vefengja, þá sé ég ekki, að hún eigi að hafa á móti því, að slík athugun fari fram. Að sjálfsögðu verður Alþ. að hafa um það fulla vitneskju, áður en endanlega er frá þessu máli gengið, hvað er hið rétta í þessum efnum. Ég trúi ekki öðru að óreyndu, en að hæstv. ríkisstj. fallist á það. Ég vænti þess að fá svar um þetta atriði hjá hæstv. iðnmrh., helzt nú við þessa umr.

Ég tek svo undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel eðlilegt, að áður en þetta mál verður afgr. liggi fyrir upplýsingar um það frá hæstv. ríkisstj., hvort hún fyrirhugar einhverjar hækkanir á raforkuverðinu innanlands. Ef sá samningur, sem hér liggur fyrir, er jafnhagstæður og iðnmrh. vill vera láta, þá finnst mér ólíklegt, að það þurfi að eiga sér stað nokkur hækkun á innanlandsverðinu.

Mér finnst rétt að vekja athygli á einu atriði í sambandi við framleiðslugjaldið. Í grg. frv. er að finna marga útreikninga á því, hve miklar tekjur verði af framleiðslugjaldinu, langt fram í tímann. En í því sambandi vil ég vekja athygli á þeim fyrirvara, sem er í grg. á bls. 15–16. En hann er á þessa leið:

„Á samanburðinn verður og að líta með þeim fyrirvara um endanlega fjárhæð gjaldsins, sem leiðir af ákvæðum málsgr. 27.05. í aðalsamningnum um endurgreiðslu þess að því leyti, sem það kann að fara fram úr 50% af nettótekjum ÍSALs á einhverju ári. Sá fyrirvari mundi þó aðeins hafa áhrif á gjaldtekjur áranna 1984–1994, ef á hann reynir á annað borð.“

Eins og hér kemur fram, þá er það ákvæði í samningnum, að álbræðslan þarf aldrei að greiða meira framleiðslugjald heldur en sem nemur 50% af nettótekjum ÍSALs. Nú var það á sínum tíma haft sem aðalröksemd gegn því að álbræðslan væri undir íslenzkum skattalögum, að það væri mjög erfitt að hafa eftirlit með framtali hennar, hún hefði það í hendi sinni að sýna mjög lítinn tekjuafgang og þar af leiðandi gæti hún að mestu komizt hjá sköttum. Mér sýnist, að samkvæmt þessu ákvæði hafi álbræðslan þennan möguleika eftir sem áður, og ef hún aðeins hagar framtölum sínum á þann veg að sýna mjög litinn tekjuafgang, þá getur hún fengið framleiðslugjaldið verulega lækkað. Það er vert að hafa þetta atriði einnig í huga. En það getur einnig átt sér stað, að nettótekjur álbræðslunnar blekki af eðlilegum ástæðum, og þá hefur það sín áhrif á hvert framleiðslugjaldið verður.

Ég vil svo að lokum víkja að því, sem snertir næstu framkvæmdir í virkjunarmálum, en sá orkusamningur, sem hér liggur fyrir, hefur talsverð áhrif á þær. Ef þessi aukna orkusala ætti sér ekki stað, þá mundi raforkan frá Búrfellsvirkjun nægja til innanlandsnota fram til ársloka 1976, samkvæmt þeim síðustu útreikningum, sem hafa verið gerðir um þetta efni. En verði af þessari orkusölu, þá er gert ráð fyrir því, að orkan frá Búrfelli verði fullnýtt í árslok 1974. Þetta þýðir það, að við þurfum að vera fyrri til með nýjar virkjunarframkvæmdir, a.m.k. tveimur árum fyrr en ella. Ég sé í grg., að gert er ráð fyrir því, að til þess að brúa þetta bil verði ráðizt í 20 MW virkjun, er verði tilbúin fyrir árslok 1977. Ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., við hvaða virkjun er hér átt, hvar ráðgert er að þessi 20 MW virkjun verði og hvað er svo ráðgert í framhaldi af henni? En það gefur auga leið, að ekki er hér langur tími til stefnu, því hér er ekki nema um 4 ár að ræða eða 6 ár, ef maður reiknar með þessari 20 MW virkjun til viðbótar, og þess vegna þarf að undirbúa alveg ákveðnar áætlanir um það, hvernig virkjunarframkvæmdir verða hér næsta áratug, ef ekki á að koma til raforkuskorts hér innanlands á þessu tímabili. Ég hygg, að það hljóti að vera svo, að Landsvirkjun hafi undirbúið einhverjar áætlanir í þessu sambandi, og þá væri fróðlegt að fá upplýsingar hæstv. ráðh. um, hverjar þær séu og hvort eitthvað sé farið að undirbúa fjáröflunarmöguleika í því sambandi og hvenær megi vænta þess, að framkvæmdir við þessar virkjanir hefjist.

Það, sem ég vil að lokum leggja áherzlu á, er það, sem ég hef raunar áður tekið fram, að mér finnst nauðsynlegt, að áður en endanlega verður gengið frá afgreiðslu málsins hér á Alþ., þá liggi fyrir eins glöggar og óhlutdrægar upplýsingar og verða má um það, hvert sé hið raunverulega framleiðsluverð á orkunni frá Búrfellsvirkjun, því að á þeim upplýsingum hljóta menn að byggja að mjög verulegu leyti þá afstöðu, sem þeir taka til þessa frv.