12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú til umr., felur í sér staðfestingu á nýjum samningi, sem ríkisstj. hefur gert við Swiss Aluminium, um hraðari byggingarframkvæmdir við álverksmiðjuna og um stækkun verksmiðjunnar. Þessir nýju samningar byggjast í raun og veru á nýju samkomulagi, sem gert hefur verið um raforkusölu til álfélagsins frá Búrfellsvirkjun.

Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, þá hafa að undanförnu staðið allmiklar deilur um það, hvað væri í raun og veru framleiðslukostnaðarverð raforkunnar frá Búrfellsvirkjun, og m.a. hefur komið hér fram till. um það, að skipuð yrði sérstök rannsóknarnefnd til þess að kynna sér málið og gefa Alþ. hlutlausa skýrslu um það. Það er í rauninni illt, að þessi skýrsla skuli ekki enn hafa verið gefin og hún skuli ekki liggja fyrir nú, einmitt áður en þetta mál verður afgreitt hér, því auðvitað er það grundvöllur þessa máls, hvað framleiðslukostnaðarverð raforkunnar frá Búrfellsvirkjun er hátt, þegar taka á afstöðu til þess, hvort rétt þyki að semja við álfélagið á nýjan leik um aukna raforkusölu á því verði, sem gilt hefur til félagsins hingað til.

Þegar samningarnir voru upphaflega gerðir, um raforkusölu til álfélagsins, þá var talið í upplýsingum, sem komu hér fram á Alþ., að reikna mætti með því, að framleiðslukostnaðarverð á raforku frá virkjuninni, þegar hún væri fullnýtt, yrði í kringum 21.1 eyrir á kwst. En hins vegar var söluverðið til álfélagsins ákveðið 22 aurar á kwst. En hér á Alþ. urðu um það allmiklar deilur, hvort þessi áætlun um framleiðslukostnaðarverðið fengi í rauninni staðizt eða ekki. Ég hef verið á þeirri skoðun, að það verð, sem samið var um á raforku til álfélagsins, hafi strax í upphafi verið of lágt, og mér sýnist við frekari athugun á þessum málum, að allt bendi til þess, miðað við þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, að framleiðslukostnaðarverð á orkunni frá Búrfellsvirkjun muni vera talsvert hærra en söluverðið til álfélagsins er.

Það er auðvitað ekki hægt að segja enn með neinni vissu, hver heildarstofnkostnaður Búrfellsvirkjunarinnar verður, vegna þess að enn er talsvert mikið óunnið að byggingu virkjunarinnar. En það liggja nokkrar áætlanir fyrir um kostnaðinn við það, sem enn er óunnið. Sé gengið út frá þeim áætlunum, sem stjórn Landsvirkjunar sendi frá sér nú um heildarstofnkostnað Búrfellsvirkjunar, þá gerir hún ráð fyrir því, að virkjunin muni kosta í kringum 43 millj. dollara, og auk þess komi svo til kostnaður við gasaflsstöð, sem nemi 3.18 millj. dollara. Við þessa nýjustu áætlun er það að athuga, að þar er gert ráð fyrir því, að það, sem enn er óunnið af virkjunarframkvæmdum, lækki allverulega í kostnaði frá því, sem upphaflega var áætlað. Þannig var síðari áfanginn við stækkun virkjunarinnar áætlaður kosta 5.10 millj. dollara, en er nú áætlaður 2.61 millj. dollara. Upphaflega voru miðlunarframkvæmdir við Þórisvatn áætlaðar kosta 2 millj. dollara, en eru nú áætlaðar 1.48 millj. dollara. Þegar maður hefur það einnig í huga, að það er aðeins rúmt ár liðið síðan Landsvirkjunarstjórn sendi hér inn til Alþ. skýrslu um áætlaðan framkvæmdakostnað við þessa sömu áfanga, sem ég hef hér rætt um, og óskaði eftir lántökuheimildum vegna þessara framkvæmda, sem þá var gert ráð fyrir, að mundu kosta í kringum 7.5 millj. dollara, þá getur maður auðvitað ekki varizt því að halda, að hér sé nú um heldur ógætilegar áætlanir að ræða um stofnkostnað í þessum nýjustu upplýsingum frá Landsvirkjunarstjórn. En þó að þessar nýjustu áætlanir Landsvirkjunarstjórnar séu teknar eins og þær eru og lagðar til grundvallar við útreikning á orkuverðinu, og sé gengið út frá samskonar forsendum við útreikninga á orkuverðinu og miðað var við í þeim upplýsingum, sem lágu fyrir Alþ., þegar ráðizt var í Búrfellsvirkjun og þegar samningarnir við álverksmiðjuna voru gerðir, þá kemur í ljós að raforkuverðið, miðað við þessa lágu áætlun, sem nú liggur fyrir um heildarstofnkostnaðarverð, er miðað við sömu forsendur fyrir útreikningum á reksturskostnaði virkjunarinnar. Þá mundi raforkuverðið frá virkjuninni vera 21.3 aurar á kwst. og sé við það verð bætt áætlunum Harza um hækkun á raforkuverðinu vegna rekstursins á gasaflsstöðinni, — en Harza telur, að það nemi 1.7 aurum á kwst. — þá mundi framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá Búrfellsvirkjun nema 23 aurum á kwst. eða m.ö.o., vera nokkru hærra en söluverðið er til álfélagsins. Ég tel fyrir mitt leyti, að það beri að taka þessar nýjustu áætlanir um heildarstofnkostnað Búrfellsvirkjunar með mikilli varúð. Og því þykir mér sennilegt, að framleiðslukostnaðarverð orkunnar sé nokkru hærra en sem nemur þessum 23 aurum.

Þegar Landsvirkjunarstjórn reiknar framleiðslukostnaðinn lægri en ég hef hér gert grein fyrir, þá byggist það á því, að hún breytir þeim útreikningsforsendum, sem hún hafði sjálf lagt hér fyrir Alþ. á sínum tíma. Nú er farið að reikna með því, að afskriftatími virkjunarinnar verði 40 ár, en í upphaflegum áætlunum, sem lagðar voru fyrir Alþ., var reiknað með 25 árum. Nú er reiknað með því, að heildarreksturskostnaður virkjunarinnar nemi 8.5% af stofnkostnaðarverði, en upphaflega var reiknað með 9.2%. Í upphaflegri skýrslu til Alþ. var talið, að beinn kostnaður við stjórnun og viðhald og annan tilfallandi reksturskostnað, næmi 1.5% af stofnverði virkjunarinnar. Nú er farið að reikna með, að þetta nemi 1%. Heildarreksturskostnaður virkjunarinnar, sem upphaflega var áætlaður 9.2%, byggðist þó á því, að vextir af lánum til virkjunarinnar væru 6% en nú er upplýst, að meðaltalsvextir séu 7%, þannig að það er í rauninni alveg augljóst, að eftir þeim forsendum, sem upphaflega voru gefnar, ætti fremur að reikna með hærri heildarreksturskostnaði en 9.2% heldur en lægri.

Í þeim tölum, sem ég nefndi, er beinlínis gengið út frá þeim útreikningsforsendum, sem voru lagðar fyrir Alþ. á sínum tíma, um reksturskostnað virkjunarinnar, en þar var reiknað með því, að rekstursútgjöldin næmu 9.2%. Þá yrði raforkuverðið tvímælalaust nokkru hærra en söluverðið er til álfélagsins. Ég tel því, að það sé óeðlilegt að semja á nýjan leik við hinn erlenda eiganda álverksmiðjunnar um aukna raforkusölu á þessu lága verði, sem ég tel, að allar líkur bendi til, að sé undir framleiðslukostnaðarverði. Það hefði a.m.k. að mínum dómi átt að liggja hér fyrir ýtarleg skýrsla um það, hver stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar væri nú þegar orðinn, hver heildarkostnaðurinn muni verða og hvað sé sennilegt framleiðslukostnaðarverð orkunnar frá virkjuninni, áður en nýr samningur yrði gerður.

Þetta eru höfuðástæðurnar fyrir því að ég tel, að Alþ. eigi ekki að staðfesta þennan nýja samning, sem ríkisstj. hefur gert við Swiss Aluminium. Auk þess kemur svo það, sem hér hefur verið minnzt á, að þegar Alþ. var upphaflega gerð grein fyrir samningunum við Swiss Aluminium, þá kom það hér mjög greinilega fram í umr., að viðurkennt var, að umsamið raforkuverð til álverksmiðjunnar væri alveg í lægsta lagi, og það var einnig viðurkennt, að það væri mun lægra en vitað væri um, að samið hefði verið við aðra þá, sem stæðu í hliðstæðum framkvæmdum, þ.e.a.s. þá, sem keyptu raforku til aluminiumbræðslu. Við vitum, að í þeirri skýrslu, sem lögð var fyrir Alþ., var gerð ýtarleg grein fyrir því, hvernig á því stæði, að raforkuverðið, sem um væri samið, væri svona lágt, og ég tel, að þær viðbótarskýringar, sem hér komu nú fram hjá hæstv. iðnmrh., á þýðingum þeirra ummæla, sem þá voru gefin í þessum efnum, fái ekki staðizt með neinu móti.

Í skýrslunni, sem hér hefur verið vitnað til, var verið að ræða þann grundvöll, sem Íslendingar höfðu í samningsaðstöðu sinni við hinn erlenda aðila, þegar um væri að ræða samninga um byggingu 30 þús. tonna álbræðslu. Og skýringarnar á hinu lága raforkuverði voru þær, að hér væri verið að semja um tiltölulega litla verksmiðju, minni verksmiðju en sama fyrirtæki hefði samið um í Noregi, og að hér væri einnig um byrjunarrekstur að ræða í þessum efnum á Íslandi, sem skapaði ýmiss konar byrjunarörðugleika og nokkra óvissu fyrir hinn erlenda aðila. En í beinu framhaldi af þessu er síðan sagt, að allt annað mál sé, þegar um framhaldsstækkun verði að ræða og menn verði komnir yfir byrjunarvandann, þá verði það sjálfsagt að krefjast hærra raforkuverðs.

Í þessum skýringum segir alveg skýrum orðum, þar sem gerð er grein fyrir þessu, m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Í fyrsta lagi hugsar Swiss Aluminium sér að byggja hér á landi minnstu stærð alúminíumverksmiðju, sem til greina er talin koma, þ.e.a.s. með 30 þús. tonna ársframleiðslu.“ Þessar skýringar voru gefnar Alþ. á þeim grundvelli, en um það var rætt í upphafi. Svo þegar samningarnir voru gerðir við Swiss Aluminium um þetta sama lága raforkuverð fyrir 60 þús. tonna verksmiðju, þá var að því fundið hér á Alþ., að þrátt fyrir það að nú væri samið við Swiss Aluminium um stærri verksmiðju, þá væri enn haldið í hið lága raforkuverð. En nú er í rauninni að mínum dómi bætt gráu ofan á svart, því að nú er hér enn einu sinni breytt fyrri samningum verulega, — eflaust til hagsbóta fyrir eigendur álverksmiðjunnar, því að annars stæðu þeir ekki í þessum samningum, — og einnig samið um nýja stækkun á verksmiðjunni umfram 60 þús. tonn, og enn er haldið í lága verðið, sem viðurkennt er, að sé mun lægra en í öðrum löndum. Það er því enginn vafi á því, að þau ummæli, sem hér hefur verið vitnað til, þar sem sagði skýrum orðum í skýrslu ríkisstj. til Alþ. á sínum tíma, að þegar kæmi til stækkunar, yrðu viðhorfin miklu hagstæðari fyrir Íslendinga og þá væri von á því, að við gætum fengið hærra verð, þau hafa engan veginn staðizt í reynd, sbr. þá samninga, sem hér liggja nú fyrir.

Þetta orðalag, sem vitnað hefur verið til, þar sem segir: „verði alúminíumbræðslan stækkuð í framtíðinni, telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafn hagkvæm kjör“, er nú reynt að túlka þannig, að „í framtíðinni“ þýði aðeins, þegar um væri að ræða stækkun eftir mörg ár. Hér er verið að semja um stækkun verksmiðjunnar, ekki aðeins úr 30 þús. tonnum upp í 60, sem búið var að gera, heldur einnig úr 60 og upp í 70 þús. tonna framleiðslu. Eins og ég sagði, voru þessar afsakanir, sem hér voru færðar fram fyrir hinu lága raforkuverði, í rauninni allar grundvallaðar á því, að þá var verið að tala um 30 þús. tonna verksmiðju. Því sagði m.a. í þessari skýrslu orðrétt á þessa leið:

„Hins vegar er byrjunin alltaf langerfiðust, en eftir að 30 þús. tonna verksmiðja hefur verið byggð af Swiss Aluminium hér á landi, hlýtur samningsaðstaða Íslendinga varðandi frekari stækkun að verða miklu betri en ella.“

Þetta hefur í rauninni allt brugðizt. Og þá er aðeins spurningin þessi: Var samningsaðstaða okkar nú svo miklu óhagstæðari en gert hafði verið ráð fyrir, að við þyrftum að semja áfram um hið lága verð, sem mörgum sýndist, að væri of lágt þegar í upphafi? Þurftum við enn að semja um þessa stækkun á þessu lága verði?

Ástæðurnar fyrir því, að ég vil ekki fyrir mitt leyti samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, eru fyrst og fremst þessar:

Ég tel, að hér sé samið um of lágt verð á orkunni, hér sé samið um lægra verð en sem nemur beinum framleiðslukostnaði orkunnar, þegar um fullnýtingu virkjunarinnar verður að ræða, og ég tel einnig, að samningsaðstaða okkar við hinn erlenda aðila hafi ekki verið nýtt sem skyldi.

Um þær upplýsingar, sem hæstv. iðnmrh. gaf hér um samanburð á gjöldum Swiss Aluminium í Noregi og hér, skal ég vera fáorður. En mér sýndist þar vera bornir saman algerlega ósambærilegir hlutir. Þar var rætt um skattgreiðslu Husnesverksmiðjunnar í Noregi og skattgreiðslu álfélagsins hér, og einnig um raforkuverð beggja aðila, en það, sem hér skiptir auðvitað höfuðmáli, er það, að framleiðslugjaldið, sem hér var samið um við álfélagið, var ákveðið hér til þess að koma í staðinn fyrir alla skatta og öll gjöld, sem innlendir aðilar verða að borga. Þetta var innifalið hér í einu gjaldi, og þarna var auðvitað að nokkru leyti tekið tillit til þeirra stórfelldu fríðinda, sem fyrirtækið samdi um varðandi tollagreiðslur og tollaundanþágur í mörgum greinum. Hinn erlendi aðili býr hins vegar í Noregi við allt aðrar kringumstæður. Þar verður hann að sæta sömu greiðslukjörum og önnur innlend fyrirtæki þar í einu og öllu, verður að borga tolla og þá skatta og gjöld, sem þar er um að ræða, alveg á sama hátt og hliðstæð framleiðsla í Noregi verður að gera. En þessi sami aðili nýtur hins vegar hér ýmiss konar sérstakra fríðinda, svo að samanburður á þessum grundvelli er ekki marktækur. Hér yrði þá að taka með ýmiss konar gjöld, sem falla eðlilega til, t.d. í sambandi við stofnkostnað, sem auðvitað hafa verið allt önnur hér heldur en gagnvart verksmiðjunni í Noregi, sem verður að lúta öllum þeim sömu reglum þar í landi og önnur norsk fyrirtæki verða að gera. En það var nú ekki meiningin að fara hér út í sérstakar umr. um það atriði, enda hef ég í rauninni ekki aðstöð til þess að átta mig til hlítar á þessum samanburði.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ástæðurnar fyrir því, að ég get ekki fallizt á þetta frv., eru þær, að ég tel, að hér hafi verið samið um lægra verð en sem nemur beinum framleiðslukostnaði orkunnar frá Búrfellsvirkjun, og ég tel, að við höfum ekki nýtt samningsaðstöðu okkar við hinn erlenda aðila sem skyldi, því það þarf ekki að segja mér það, að hann hafi staðið í þessum samningum að þessu sinni eingöngu til þess að bjarga Búrfellsvirkjun og okkur. Hann hefur vitanlega haft sína miklu hagsmuni, og það er hagstætt fyrir hann að koma fram þessari stækkun. Hann þurfti á orkunni að halda, ekki síður en við þurftum að selja þá orku, sem við erum búnir að virkja eða leggja í kostnað vegna.