09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni úr ræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti hér áðan, þó að þau verði ekki mörg. Hæstv. ráðh. minntist á það, að eitt af því, sem ég hefði haldið fram í mínum ræðum í sambandi við fjárlög, væri hlutfall verklegra framkvæmda, hversu mjög það hefði rýrnað á hinum síðari árum og benti ráðh. á máli sínu til stuðnings, að ekki væri hægt að gera ráð fyrir því, að alltaf væri sama hlutfall til hvers málaflokks í fjárl. frá ári til árs. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að sama hlutfall verði til hvers málaflokks frá ári til árs, en hins vegar, þegar um svo marga og stóra málaflokka er að ræða eins og verklegar framkvæmdir, þá er það áhugamál þm. yfirleitt, að þetta hlutfall haldist nokkuð. Og ég hygg, að það hafi yfirleitt gert það í íslenzkum fjárl., því að í okkar landi hefur uppbyggingin verið svo mikið atriði í þjóðfélaginu. Það hefur alltaf verið brennandi áhugi þm. fyrir því, að það hlutfall héldist. Ég vil líka benda á það í því sambandi, að einmitt núna á þessu tímabili, sem ég hef oft gert að umtalsefni, hafa sumir framkvæmdaflokkar, eins og vegirnir, alveg fengið sérstaka tekjustofna, sem ekki voru til staðar áður og einmitt hafa áhrif á það, sem við hæstv. fjmrh. erum að deila um Hins vegar er það rétt hjá hæstv. ráðh., að það hefur ekki raunhæfa þýðingu, þó að við deilum um þetta ár eftir ár, sem við gerum, en hitt held ég samt, að með því að halda þeirri gagnrýni uppi, þá hafi þó nokkuð áunnizt um þessar framkvæmdir og ég get endurtekið það, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að mér finnst, að fjvn. hafi staðið fastar í ístaðinu um framkvæmdaféð nú heldur en áður hefur verið og ég met það að verðleikum og þakka það, eins og ég sagði í ræðu minni hér í dag.

Þá vék hæstv. ráðh. að sparnaðarmálunum, sem ég ræddi að vísu lítið um og því, sem ég vék að í sparnaðarlögunum frá 1968. Ég minnist þess ekki, að það kæmi fram í minni ræðu í sambandi við tal mitt um sparnað, að ég talaði um sukk. Það er ekki við mig að sakast, þótt hæstv. ráðh. sé að gera mér upp þau orð, að ég tali um sukk, þegar ég bendi á veilur, sem eru í sambandi við fjárl. Það, sem ég fyrst og fremst var að gagnrýna í dag, var það sama og ég gagnrýndi 1968. Ég hélt því fram þá, að sparnaðarlögin frá 1968 væru óraunhæf. Sparnaðartill. mundu ekki skila sér að öðru leyti en því, er varðaði þá gjaldstofna, sem voru felldir til framkvæmda eins og menntaskólanna, sjúkrahúsanna, sem ég nefndi í dag og öðrum þeim var mætt með lánum og svo var reytt saman eins og 1 millj. í Kennaraskólann, sem voru felldar niður. Hitt hefur sýnt sig, að hin áætlunin stóðst ekki. Um það þurfum við ekkert að deila. Ég er ekki að halda því fram, að það hafi verið sukk eða þess háttar, heldur held ég hinu fram, að þessi áætlun hafi verið óraunhæf. Það lá í augum uppi, að sá sparðatíningur, sem þá var gerður, mundi ekki skila sér og það hefur sannazt. Ég get líka sagt það, að ég er nú alveg viss um það, að þegar embætti eins og smá sýslumannsembætti fara um 50% fram úr áætlun fjárlaga á einu ári, þá er eitthvað að, annaðhvort í aðhaldi eða undirbúningi. Ég tel mig þekkja til sumra þessara embætta, að það hafi ekkert komið þar upp, sem breytti þessu dæmi, svo að það þurfi að vera eins og þar sýnir sig.

Ég skal ekki vera að þreyta menn með því að tala um sýslumannsembættið í Hafnarfirði, sem hæstv. ráðh. hélt, að ég væri búinn að fá á heilann. Ég hugga hann með því, að það hefur a.m.k. ekki verkað mikið á mitt heilabú. Ég veit, að þetta er skýranlegt, að embættiskostnaður hafi hækkað um 166% á þrem árum og hann fari nærri 2 millj. fram úr áætlun á þessu ári. Þetta er allt skýranlegt, mér dettur ekki annað í hug. En hitt er annað mál, hvort hefði verið hægt að koma þessu við á ódýrari hátt. Mér finnst, að a.m.k. hafi verið þrengt mikið að þeim, sem á undan var, fyrst breytingin þurfti að vera svona ör og mikil.

Út af þessum sparnaði talaði hæstv. ráðh. um það, að hann væri nú orðinn leiður á þessu. En áður en ég vík að því ætla ég að víkja að því, sem hann sagði um dómgæzluna, kostnaðinn við hina almennu dómgæzlu, sem fór verulega fram úr áætlun. Ég minnist þess, að einmitt í umr. um þetta mál 1968 hélt ég því fram eða dró það í efa, að það væri hægt að draga úr löggæzlunni einmitt það ár, sem hægri umferðin var upp tekin. Það voru mín orð þá, að mér sýndist, að þessi áætlun væri óraunhæf. Það, sem ég var svo að gera í dag, var að benda á það, að það hefði sýnzt vera óraunhæft. En ég get vel tekið undir það með hæstv. ráðh., að það mátti einmitt gera ráð fyrir meiri kostnaði það árið vegna breytingarinnar yfir í hægri umferð. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta tal mitt um sparnað og þess háttar, þá er ég alveg sannfærður um það og þori að ganga undir athugun á því máli, að ég hef aldrei náð því að halda hér eins mikla sparnaðarræðu og hæstv. ráðh. hefur gert. Ég hef aldrei komið með eins margar ábendingar í 10 ára stjórnarandstöðu, þar sem ég hef talað fyrir hönd minni hl. fjvn., ég hef aldrei komið með aðra eins upptalningu á sparnaðarfyrirheitum eins og hæstv. fyrirrennari hans í fjmrh.–embættinu og hæstv. ráðh. sjálfur, þá formaður fjvn., gerði í upphafi viðreisnar. Og ég minnist þess líka frá mínum fyrstu árum hér, að hæstv. núv. fjmrh. taldi, að fyrirrennara hans, sem þá var fjmrh., hv. 1. þm. Austf., skorti ekkert nema víðsýni og kjark til þess að koma sparnaði í framkvæmd, það þyrfti ekki annað. Þetta voru sterkari orð heldur en ég hef notað. Ég hef aldrei haldið fram eins miklu sparnaðartali eins og hæstv. ráðh. og hans samherjar gerðu í upphafi valdatímabilsins og áður en það byrjaði. Ég hef hins vegar haldið því fram, að til þess að það væri hægt að ná sparnaði í ríkisrekstrinum yrði að gera skipulagsbreytingar og það held ég, að sé hægt að gera, en það þarf að vinna þær skipulega upp og það yrði ekki gert nema með fækkun á stofnunum og öðru slíku.

Þá vék hæstv. ráðh. að störfum okkar í undirnefnd fjvn. Um þau störf verð ég að segja það, að ég held, að við í stjórnarandstöðunni höfum gert lítið af því að reyna að hagnýta þau nokkuð til pólitísks framdráttar. Og ég veit ekki annað en að ég hafi lagt það af mörkum til starfa í þeirri n., sem ætlazt hefur verið til af mér og hafi ekki hikað neitt við að taka ákvörðun með meiri hl. um breytingar, sem mér var fullkomlega ljóst, að áttu óvinsældum að fagna og ég hef orðið fyrir og er einnig ljóst, að hæstv. ríkisstj. reyndi að hagnýta sér sem sitt mál. Þetta vildi ég segja um þetta og ég hef orðið dálítið hissa á því, að hæstv. fjmrh. hefur verið að nota þessi störf til þess að vera með hnútukast eins og þetta. Svo var einnig með grein, er birtist í Morgunblaðinu í sumar, sem ég sá ekki nokkurt tilefni til. Í sambandi við þetta mál vil ég minna hv. alþm. á það, að hér í fyrra haust, það mun hafa verið í nóvember, var hér til umr. fsp. til hæstv. fjmrh. frá hv. þm. Jóni Ármanni Héðinssyni, hv. 5. landsk. þm., þar sem hann spurði, hvernig liði málinu um bílarekstur ríkisins, þ.e. forstjórabílana. Þið munið það allir, hv. þm., að þetta mál kom hér inn á dagskrá út af fsp., sem við fulltrúar Framsfl. í fjvn. fluttum og hv. þm. Ingvar Gíslason var 1. flm. að. Það er ekki fyrr en eftir að þeirri fsp. var svarað og þær umr., sem þá fóru fram hér á hv. Alþ., sem fór að ganga í því máli. Það er staðreynd. Það er alveg sama, þótt hæstv. fjmrh. hristi höfuðið, þetta er staðreynd. Og þegar hæstv. fjmrh. talaði hér í fyrra og svaraði hv. þm. Jóni Ármanni Héðinssyni, þá hafði hann ekki tilbúnar till. og þá talaði hann ekki um það, sem síðar hefur svo orðið, að taka bílana af forstjórunum. Í nál. okkar í fjvn. fyrir jólin í fyrra haust lýstum við því afdráttarlaust yfir, að við mundum vilja standa að því. Síðan hefur málið náð fram að ganga.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara að gera að umræðuefni störf okkar í undirnefnd, þó að hæstv. ráðh. hafi hvað eftir annað gefið tilefni til þess. En ég lít svo á, að við þurfum að starfa að þessum málum, ná samstöðu um þau og í málum jafn viðkvæmum og þessum erum við í stjórnarandstöðunni ekki að hika við að taka á okkur vandann. En ég kann ekki almennilega við það, að svo sé hæstv. fjmrh. alltaf með þetta: Þið eruð ekki með púðrið. Ég lít svo á störf okkar í undirnefnd fjvn., að forystan hljóti að vera þar frá ríkisstj. og hennar mönnum. Og frá þeim hefur verið lagt fyrir okkur verkefni, sem við höfum unnið að, s.s. lögreglumálin. Við unnum að þeim í sumar og það er sem sé meginþáttur þess starfs að fá samstöðu um þau verkefni, sem ríkisstj. m.a. er að vinna að til lausnar á betra skipulagi og sparnaði. Þannig hef ég litið á þetta. Ég vil endurtaka það, að ég kann ekki við annað, ég lít ekki þannig á það, að það eigi að vera okkar hlutverk í þeirri nefnd að hafa þar forystu. Við höfum ekki hagað þannig vinnubrögðum og ég tel ekki, að við eigum að gera það. Við eigum hins vegar að starfa að þessum málum eins og fyrir okkur er lagt og ég tel, að við höfum gert það.

Svo vék hæstv. ráðh. að atvinnumálunum og till. okkar þar um. Hann taldi, að þær væru ekki tímabærar og ekki þörf á þeim. Var ekki það sama sagt í fyrra? Þær voru ekki tímabærar eða þörf á þeim þá. En hver var reyndin? Staðreyndin er þessi, að það er enn þá atvinnuleysi í landinu. Og staðreyndin er sú, að það er vaxandi. Staðreyndin er líka sú, að það hljóta að verða gerðar ráðstafanir til þess að draga úr atvinnuleysinu og losna við það. Allt annað er svo fjarlægt, að það getur ekki verið, að hæstv. ríkisstj. láti sér detta í hug, að öðru vísi verði að málinu unnið. Þess vegna er það, að það vantar enn þá fjármagn. Það vantar fjármagn til þess að leysa úr atvinnumálum. Það vitum við hæstv. ráðh. Hitt er svo annað mál, að það hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. að vinna ekki að lausn þessa máls þannig að afgreiða það hér í þinginu. Hún hefur verið vön að semja um þetta úti í bæ og koma svo með það í þingið á eftir. Og auðvitað gerir hún það alveg eins nú, en þörfin fyrir þessa fjármuni er til staðar og auðvitað verður á vegum ríkisins leitað eftir því að ná til þeirra.

Þá er það um togarakaupin. Mér er það vel ljóst, að þetta með togarana er vandamál. Ef togaraútgerð hefði gengið vel hér á Íslandi og það hefði verið mikill hagur af því að reka togara, þá hefði einkafjármagn ekki látið standa á sér. Þetta vitum við báðir, hæstv. ráðh. og ég. Og vandamálið væri ekki til staðar, ef togaraútgerðin hefði gengið svo vel, að það væri verulegur hagnaður af því að reka þessa togara. En vandamálið er vegna þess, að það hefur ekki gengið þannig, að það hafi verið verulegur hagnaður af því. Hitt er annað mál, að íslenzka þjóðin að minni hyggju getur ekki látið sér til hugar koma að hætta við togaraútgerð. M.a. er ástæðan til þess, hvað þetta gengur illa, sú, að við höfum ekki endurnýjað flotann. Hann er orðinn gamall og úreltur. Aðrar þjóðir hafa byggt sína togara og miða þá við nútímakröfur og nútímatækni. Það gæti orðið til þess, að það væri hægt að reka þá. Við vitum það líka, að vegna stórfelldra gengisbreytinga, sem hafa gengið hér yfir ár eftir ár, er stofnkostnaðurinn við togarakaup geysilegar fjárhæðir. Þetta gerir það að verkum, að hér er um vandamál að ræða og ég trúi því ekki, að hæstv. fjmrh. telji, að það eigi að hætta við togaraútgerð á Íslandi. Eins og nú er, virðist ekki vera áhugi fyrir því, ekki til fjármagn hjá einkaframtakinu eða félögunum í landinu, sem að atvinnurekstri standa og þess vegna er það okkar skoðun og okkar till., að ríkisvaldið verði að koma til, til þess að fjarlægja þetta vandamál og komast yfir þá erfiðleika, sem nú eru, aðstoða við að komast yfir þá erfiðleika, sem nú eru til staðar með þessi miklu atvinnutæki okkar sem togararnir eru.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þessi gagnrýni okkar væri þreytandi og leiðinleg, og því getur maður nú gert ráð fyrir, að svo sé. Hitt er annað mál, að það er nú svo með þátttökuna í stjórnmálunum, að þingræðið byggist á því, að stjórnarandstaðan haldi uppi gagnrýni og við verðum líka að sætta okkur við það í stjórnarandstöðu, að það sé ekki alltaf gert mikið með það, sem við

leggjum til. Það er kallað óraunhæft ábyrgðarleysi og annað því um líkt. Þetta heyrum við svo af hendi þeirra, sem ráða í landinu og þeir verða því að sætta sig við það, að við höfum ýmislegt við þeirra störf að athuga. Nú skal ég ekki fara að þreyta þm. miklu lengur eða halda þessari ræðu miklu lengur áfram en orðið er. En vegna þess að hæstv. ráðh. talar um leiðinlega gagnrýni, þá vil ég samt bæta því við, hvað sem menn kunna um það að segja, að staðreyndin er sú, að fjárlög hafa hækkað á þessu tímabili með miklu meiri hraða og stórfelldari en nokkru sinni fyrr. Þetta tímabil hefur gefið miklu meiri umframtekjur heldur en nokkur önnur ríkisstj. hefur búið við. Verklegar framkvæmdir, sem áður voru fjármagnaðar með samtímatekjum, hafa nú að verulegu leyti verið gerðar með lánsfé. Framtíðin verður að borga bæði framkvæmdina og gengistöpin á lánunum. Ofan á þetta bætist svo það, að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla ár eftir ár, og hann er nú í verulegum fjárhagsþrengingum. Þetta er staðreynd. Svo geta menn haldið því fram, ef þá langar til, að það sé ekki ástæða fyrir stjórnarandstöðu að gagnrýna það, að svona hafi farið um fjármál ríkisins á mestu góðærum, sem yfir íslenzkt þjóðfélag hafa gengið.