24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð, sem ég vil nú segja um þetta mál. Eg beindi fyrirspurn minni áðan til hv. frsm. sjútvn., og má vera, að það sé rétt, sem hann segir, að hann sé ekki sá rétti aðili til að fella úrskurð um það mál, sem ég ræddi hér. Hér á Alþ. væri það e.t.v. hæstv. forsrh. eða hæstv. dómsmrh., en ella að sjálfsögðu dómstólar landsins, ef þeirra úrskurðar verður leitað.

Ég vil leyfa mér að rifja upp aftur í stuttu máli það, sem virðist hafa gerzt í þessu máli, varðandi framlag til Fiskveiðasjóðs fyrir árið 1969. Það virðist hafa verið ætlan þeirra, sem stóðu fyrir afgreiðslu fjárlaganna fyrir það ár, að framlagið yrði fellt niður í l. Þeir virðast hafa verið þeirrar skoðunar, að svo mundi verða, og þess vegna virðist þessi upphæð ekki hafa verið tekin inn í fjárlögin. Hins vegar fór það svo, þegar niðurfelling framlagsins fyrir árið 1969 var borin undir Alþ., sem hefur löggjafarvaldið, að þá felldi Alþ. niðurfellingartillöguna. Ég hygg, að fjárlög geti ekki breytt ákvæðum almennra laga, að það sé almenn regla, að þau breyti ekki ákvæðum almennra laga, og að þar sem þetta framlag var ákveðið áfram með gildandi lögum, þá hafi framlagið fallið í gjalddaga á árinu 1969. Úr því það var ekki tekið upp í fjárlögin fyrir 1969, þá hefði það átt að koma í fjárlögum þessa árs. Þannig kemur málið mér fyrir sjónir.

En ég vil í öðru lagi vekja athygli á því, að ef það telst rétt, að Alþ. geti þannig eftir á tekið aftur ákvæði l. um fjárframlög, sem fallin eru í gjalddaga, þá getur hér verið um mjög afdrifaríkt fordæmi að ræða, ef ekki má treysta því, að slík framlög verði greidd úr ríkissjóði, sem ótvíræð ákvæði laga mæla fyrir um, að eigi að greiða. Ég hygg, að menn verði þá að fara að athuga það, hvenær slíkum lagaákvæðum megi treysta og hvenær ekki. Ég hef haldið, að þeim mætti yfirleitt treysta.

Hitt er svo annað mál, að það kann að vera, að stjórn stofnunarinnar kjósi ekki að óska eftir því, að þetta framlag verði greitt, að hún telji sig ekki þurfa á því að halda til lánveitinga úr Fiskveiðasjóði. Það þykir mér nú reyndar fremur ólíklegt. Hvað sem þessu líður, þá mun ég greiða atkvæði á móti þessu bráðabirgðaákvæði um niðurfellingu framlaga að því er varðar árið 1969, sérstaklega af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt.