16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður minntist lítillega á brtt., sem minni hl. í fjhn. leggur fram, og taldi þetta vera gamlan húsgang hér frá liðnum árum. Sú till. er ekki lakari fyrir það, þótt hún hafi verið borin fram hér áður. En ég get ekki talið það nein rök í þessu sambandi, þó að það væru ýmsar leiðir til fyrir skattsvikara að koma undan fé, óteljandi að mati síðasta ræðumanns, þótt þeir keyptu ekki þessi bréf, en eyddu þeim tekjum, sem þeir teldu ekki fram. En hitt er svo aftur á móti rök okkar, að það sé óþarfi, að ríkisstj. opni leiðir fyrir þá, sem svíkja undan skatti, til þess ár eftir ár að kaupa svona bréf. Það er ábyggilega ein af þeim óteljandi leiðum, sem síðasti ræðumaður hafði í huga.

Þau verkefni, sem framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að unnið verði að fyrir það lánsfé, sem gert er ráð fyrir árið 1970, eru að sjálfsögðu hin þörfustu og nauðsynleg, og mun ég ekki hafa neinar sérstakar aðfinnslur uppi í því sambandi, enda tæplega haft aðstöðu til þess að kynna mér það nægilega. Um einstaka liði framkvæmdaáætlunarinnar, sem taldir eru upp í síðustu gr. frv., er það að segja, að þeir eru hinir þörfustu og sjálfsagt að hraða ýmsum þeim verkefnum, sem þar eru tilgreind sérstaklega, svo sem vegagerð, raforkuframkvæmdum, hafnarmannvirkjum og öðru. Ég hygg, að það sé sameiginlegt áhugamál allra, að vatnsorku- og jarðhitarannsóknir verði auknar, kannað verði, hvað nauðsynlegt og hagkvæmast verði að ráðast í nú á þessu ári, enn fremur að það sé kannað eftir föngum, hver jarðefni finnist hér á landi.

Um byggingar skv. framkvæmdaáætluninni er lítið að segja. Hér er um að ræða byggingar, sem verið er að vinna að á ýmsum byggingarstigum. Það verður að útvega fé, svo að byggingarhraðinn geti verið eðlilegur. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að byggt verði á vegum Háskólans fyrir um 30 millj. kr. af lánsfé.

Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, fyrst og fremst með það í huga að koma hér fram með 2 brtt., sem raunar er lítillega búið að minnast á af frsm. n. Ég get vel fallizt á það, að til þess að örva sölu þessara bréfa, þá verði þau skattfrjáls eins og annað sparifé, en ég sé enga nauðsyn á því að hafa þau einnig undanþegin framtalsskyldu. Bréfin verða að mínu viti alveg jafnt seljanleg, þó að þau verði framtalsskyld. Þau hafa að bjóða ýmislegt það, sem gerir sölumöguleika þeirra mikla. Hins vegar hlýtur framtalsskylda að auðvelda mjög eftirlit með skattgreiðslum.

Ég vil skjóta því hér inn í, að ég man ekki betur en að í umr. um síðustu framkvæmdaáætlun hafi fjmrh. lýst yfir því, að gefnu tilefni, er hann var að því spurður, hvað ríkisskattstjóri segði um framtalsskyldu spariskírteina, ef ég man svarið rétt, að að sjálfsögðu væri ríkisskattstjóri hlynntur því, að þetta væri talið fram, þó að það væri skattfrjálst. Það hlýtur að vera af þeirri einföldu ástæðu, að hann teldi, að það væri frekar hægt að girða fyrir skattsvik, ef þessar eignir væru taldar fram á framtalsskýrslum. Það virðist beinlínis opnast leið fyrir þá, sem það vilja, að stinga undan fjármunum, og það er fáránlegt, að ríkið sjálft skuli gefa út spariskírteini, sem ekki þarf að telja fram.

Yfirleitt held ég, að framtalsskyldufrelsið leiði til vandræða, hvort sem um er að ræða spariskírteini eða sparifé. Ég tel það mjög nauðsynlegt, að haldið sé uppi eðlilegu og réttmætu eftirliti varðandi skattframtöl, og því ætti ekki að vera heimilt að fella niður úr framtali eignir ár eftir ár, og það er því óeðlilegra sem mönnum er oftar gefið færi á í vaxandi mæli að fella niður eignir sínar af framtölum.

Á þskj. 582 höfum við lagt fram brtt. um hækkun á fjárframlagi til rafvæðingar í sveitum. Í árslok 1968 voru um 447 býli án rafmagns á landinu. Þá höfðu verið tengd 3429 býli við samveitur, en 948 býli voru þá talin tengd við einkarafstöðvar. Dreifing raforkunnar hafði þá verið mest í þéttbýlustu héruðunum, en þegar út i dreifbýlið kom, varð annað uppi á teningnum. Þannig munu 70% býla í 2 sýslum landsins utan samveitusvæða hafa verið án rafmagns, þ.e. í Barðastrandarsýslu og í N.- Múlasýslu. Á árinu 1969 munu hafa verið tengd við samveitur 70–80 býli, en árið 1968 voru þau 130. Fyrir 1968 munu að meðaltali hafa verið tengd um 200 býli árlega. Þessi þróun, þessi fækkun á þeim sveitabýlum, sem fá rafmagn, er mjög ískyggileg og hefur valdið mönnum mjög miklum áhyggjum. Með þeirri upphæð, sem tekin er inn í framkvæmdaáætlun ársins 1970, er þó að nokkru komið til móts við óskir manna um hraðari framkvæmdir.

Raforkan er undirstaða þæginda, bæði í þéttbýli og dreifbýli, og óhugsandi, að nokkur hluti þjóðarinnar geti til langframa unað því að búa við ófullnægjandi rafmagn. Fólkið, sem enn hefur ekki fengið rafmagn og enn ekki notið rafljósa, sjónvarps, útvarps eða annarra þæginda, sem rafmagnið hefur að bjóða, á kröfu til þess, að rafvæðingunni sé flýtt sem allra mest og að rafvæðingu allra landshluta sé lokið hið fyrsta. Það er skoðun okkar, sem að þessari brtt. stöndum, að með því að hækka framkvæmdaféð upp í 30 millj. megi ljúka rafvæðingu alls landsins á árinu 1973. Hjá Orkustofnun munu vera til yfirgripsmiklar upplýsingar í þessu efni, og skv. þeim ætti þessu takmarki að vera náð á árinu 1973.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessi atriði, en vænti þess, að hv. þdm. ljái þessum brtt. lið, svo sanngjarnar sem þær eru.