17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég mótmæli því algerlega að hafa gefið rangar upplýsingar um þetta mál eða einhverjum staðreyndum leynt í því.

Það er eitt atriði, sem ég gleymdi í ræðu minni áðan að geta um, sem er að sjálfsögðu grundvallaratriði og skýringin á því, sem hv. þm. las hér upp varðandi stofnun þessa hlutafélags, að lögum samkvæmt geta hlutafélög eða fyrirtæki sem slík ekki verið stofnendur hlutafélags, heldur aðeins einstaklingar. Ég man t.d. eftir því á sínum tíma, að þegar Áburðarverksmiðjan var stofnuð, þá urðu starfsmenn rn. að vera hluthafar og stofnendur hlutafélagsins, vegna þess að það var skráð sem almennt hlutafélag, og ríkið gat ekki verið þar aðili að með þessum hætti. Þannig er hér um formsatriði að ræða, og þess vegna er það meðal annars, geri ég ráð fyrir, að þessi hlutafjárupphæð eigi sína skýringu.

Að sjálfsögðu er það ætlunin, að þessir stofnaðilar eða fyrirtæki, sem ég nefndi, komi sér inn í kornhlöðuna. Hvort það heitir hlutafélag, man ég ekki, eftir að það hefur verið stofnað með þessu viðbótarhlutafé, en um það hefur verið sett skilyrði, og aðilar hafa lofað því, að það yrðu 6 millj. Kjarni málsins er sá, að stofnendur hlutafélagsins verða að vera einstaklingar. (BJ: Ef ég má grípa fram í fyrir ráðh., þá getur það varla verið krafa af hálfu ríkisstj. að binda ákvæðið við rekstrarform.) Nei, en það var ætlun aðilanna. Það var ekki krafa ríkisstj., að þeir ættu að stofna hlutafélag. Það var alltaf þannig gerð grein fyrir málinu af hálfu þessara aðila, að stofnað yrði hlutafélag um þetta fyrirtæki. Það er ekki krafa ríkisstj., en það var í sjálfsvald sett þessum aðilum, að þeir hefðu það með þessum hætti. Enda veit ég ekki, hvernig þeir hefðu átt að hafa það með öðrum hætti.