16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég ætla að segja hér. Ég hef enga ástæðu til þess að gera sérstakar aths. við þá mjög hógværu ræðu, sem hv. frsm. minni hl. fjvn. flutti hér áðan. Hann ræddi þær till., sem þeir flytja og eðli málsins samkv. gerði hann grein fyrir þeim. Ég vil nota tækifærið fyrst til þess að endurtaka þær þakkir, sem ég flutti við 2. umr. til fjvn. fyrir ágæta samvinnu um framgang og frágang þessa fjárlagafrv. Það skal játað, að það hefur hækkað allverulega í meðförum n., en það hefur verið gert í fullu samráði við mig, þannig að ég ber þá á því jafnmikla ábyrgð og hv. fjvn., að slíkt hefur gerzt og tel fullkomlega vera hægt að gera grein fyrir þeirri nauðsyn, sem lá að baki flestum eða öllum þeim breytingum. Frekar sé ég ekki ástæðu til þess að gera að umtalsefni einstök atriði í þessum till.

Hv. þm. vék hér að till. um 10 millj. kr. framlag til þess að jafna aðstöðu nemenda úr strjálbýli og það er rétt, sem hann sagði, að endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar um það, með hvaða hætti þetta verður gert og þess vegna er fjárveitingin höfð með þessum óvenjulega hætti og gengið út frá því, að henni verði ekki ráðstafað fyrr en niðurstöður hafa fengizt um það, hvaða reglur verði um það settar, hversu haga skuli þessari aðstoð, en að sjálfsögðu var nauðsynlegt að gera ráð fyrir einhverri fjárveitingu í þessu skyni og fjárveitingin þarna fyrst og fremst sett til þess að marka afstöðu Alþ. til málsins í heild.

Hv. þm. vék sérstaklega að till. um heimild ríkisstj. til handa til þess að gera makaskipti við Reykjavíkurborg í sambandi við lóðamál Landsspítalans. Varðandi það atriði, sem hann minntist á, að það hefði verið óviðkunnanlegt, að ríkisstj. eða fulltrúar hennar hefðu undirritað samning við Reykjavíkurborg, áður en þetta mál var endanlega afgert hér, þá vil ég láta það skýrt koma fram, að sú undirskrift var gerð með fyrirvara um síðara samþykki Alþ., þannig að það var á engan hátt gert með þeim hætti, að það væri verið að óvirða Alþ. Það er ekkert óvenjulegt, að undirskriftir slíkar eigi sér stað með þessum hætti og það var, eins og ég segi, beinlínis tekið fram í því skjali, sem við undirrituðum, að undirskriftir okkar væru háðar því, að Alþ. endanlega staðfesti þennan samning með samþykki sínu við afgreiðslu fjárlaga.

Ég skal alveg játa það með hv. þm., að við fyrstu sýn vafðist einnig nokkuð fyrir mér, hvort hér væri um hagkvæman samning að ræða eða ekki. Að vísu mun það nú hafa verið svo, að af hálfu borgarinnar er því haldið fram, að ríkið hafi hlunnfarið borgina, en við getum látið það liggja á milli hluta. Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er sú upphæð, sem hv. þm. gat um, að það mundi kosta ríkið að færa Hringbrautina og þetta var sérstaklega athugað í rn. og hafði ég aðstöðu til þess af hálfu fjmrn. að setja menn til athugunar á þessu máli. Það eru allmargir mánuðir síðan endanlega var frá þessu gengið, en hins vegar var talið rétt að kanna einmitt þessi fjárhagslegu atriði og skoða teikningar og skipulagsuppdrætti, sem þarna höfðu verið gerðir. Það var hins vegar sammæli allra þeirra, sem um þetta höfðu fjallað, bæði af hálfu háskólans, Landsspítalans og rn., að eftir atvikum væri hér um skynsamlega ráðstöfun að ræða og í rauninni ekki verið að eyða hér neinu fé í óþarfa vegna þess einfaldlega, að það var að sjálfsögðu óumflýjanlegt að tengja saman núverandi Landsspítalalóð og athafnasvæði það, sem verður sunnan Hringbrautar, hvort sem hún liggur á þeim stað, sem hún er, eða verður færð. Og það varð ljóst , miðað við það, hvernig Hringbrautin liggur nú, að það yrði mjög kostnaðarsamt að gera þær breytingar, þá undirganga og aðrar breytingar, sem gera þyrfti á Hringbrautinni, þannig að það mundi undir öllum kringumstæðum, þegar allt væri samanlagt, verða sízt óhagkvæmara eða dýrara að ráðast í þá færslu Hringbrautarinnar, sem gert er ráð fyrir samkvæmt samningnum. Þetta var ástæðan til þess, að á það var fallizt, að ríkið tæki á sig þarna kostnað, sem er dálitið erfitt að segja um, hversu mikill verður; en vel getur orðið allt að þeim fjárhæðum, sem hv. þm. hér nefndi. Það skal hins vegar skýrt tekið fram, að það er ekki gert ráð fyrir því, að þetta greiðist nú að sinni. Það tekur lengri tíma að greiða þetta og þessi tilfærsla Hringbrautarinnar þarf ekki að gerast í skyndingu, þannig að ekki þarf að nota það fjármagn, sem er nauðsynlegt til uppbyggingar, til þess að greiða þennan kostnað fyrr en að því kemur, að þessi framkvæmd á sér stað. En kjarni málsins er sem sagt sá, að það þurfti alla vega að tengja þessi athafnasvæði Landsspítalans saman beggja vegna Hringbrautar og það hefði kostað það mikið fé að breyta Hringbrautinni eins og hún er og að gera þau tengigöng, sem þar hefði þurft að gera, miðað við allar aðstæður, að hitt var að öllu athuguðu talið hagkvæmara. Þetta er kjarni málsins. Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að lengja þessar umr. að sinni og ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega aðrar till., sem fram hafa komið, en vildi aðeins varðandi till. þær, sem endurteknar eru í nokkuð öðru formi frá hv. minni hl., segja það, sem ég raunar sagði við 1. umr. fjárl., að við 2. umr. fjárlfrv., þar sem gert var ráð fyrir beinu framlagi ríkissjóðs til atvinnuveganna, – það var í nokkuð öðru formi eftir ráðstöfun fjvn. að það kæmi að sjálfsögðu til álita, hvort þyrfti að afla einhvers fjár í þessu sambandi eða ekki, en væri ekki á þessu stigi á þann rekspöl komið, að hægt væri að gera það dæmi upp. Og ég er enn þeirrar skoðunar, að það sé ekki rétt við afgreiðslu fjárl. nú að slá þessu máli föstu, hvorki til né frá. Eins og ég hef áður skýrt frá, þá munu hér koma til meðferðar eftir áramótin frv. í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisins á árinu 1970, svo sem venja hefur verið og þá munu liggja fyrir upplýsingar um það, hvaða fjárþörf annars vegar er fyrir hendi í sambandi við ýmsar framkvæmdir ríkisins. Það er minnzt á allmargar þeirra í drögum að framkvæmdaáætlun, sem fylgir fjárlagafrv. nú í upplýsingarskyni. Vel getur þar fleira komið til mála og jafnvel einhverjar lántökur í því sambandi, sem hér er af hálfu minni hl. orðað og skal ég ekkert um segja. En það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að þetta mál verði þá allt skoðað í heild, fjáröflunin fyrir árið 1970 og hvaða möguleikar eru fyrir hendi til þess að afla fjár til þessara ýmsu framkvæmda, þannig að ég hefði talið það æskilegast, að hv. minni hl. hefði ekki haldið þessu máli svo ákveðið fram nú, heldur látið það bíða til meðferðar þess frv., þegar það kemur, en a.m.k. þá tel ég ekki vera möguleika til þess að samþ. þetta í því formi, sem það nú er og að eðlilegt svigrúm fáist til þess að kanna málið einmitt þangað til það frv., sem ég gat um, kemur til meðferðar hér á Alþ. varðandi lánamál ríkisins almennt á næsta ári. Og á að sjálfsögðu alveg sama við varðandi þá till. um 90 millj. kr. lán vegna Byggingarsjóðs ríkisins. Það er aðeins ein fjárveitingartill. í þessu og það má segja, að það sé hógværlega að verið, en það er framlag til rafvæðingar í sveitum. Svo sem hv. þm. var kunnugt, þá var það framlag hækkað um 5 millj. kr. nú í fjárlagafrv. og miðað við allar aðstæður og atvik öll. Það er auðvitað um margt, að þó að það hafi hækkað, eru frammi óskir hjá mönnum um, að hefði verið hækkað meira til ýmiss konar framkvæmda og ég vil síður en svo gera lítið úr þörfinni, sem hér er um að ræða, en þá engu að síður tel ég ekki mögulegt að hækka það framlag meira heldur en gert er ráð fyrir í frv. eins og það liggur fyrir.