03.03.1970
Efri deild: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

11. mál, skipun prestakalla

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég átti sæti í þeirri n., sem um þetta mál hefur fjallað, og stend ég að því ásamt öðrum nm. að mæla með frv. og einnig að þeim brtt., sem n. flytur sameiginlega. Hins vegar hef ég ekki tekið afstöðu til þeirra brtt., sem fluttar eru af einstökum nm. á þskj. 310 og 311, og vildi ég því í örstuttu máli gera hér grein fyrir afstöðu minni til þeirra.

Hv. flm. þessara brtt. eru sammála um það, að Þingvallasókn skuli teljast til Árnesprófastsdæmis, enda mun það vera í samræmi við óskir íbúa þar, og fellst ég á það. Hins vegar kemur hér fram ágreiningur í fyrsta lagi um það, hvort Þingvelli beri að gera að sérstöku prestakalli og að hve miklu leyti skuli tengja saman þjóðgarðsvarðarstarf og prestsstarf á Þingvöllum. Ég er andvígur þeirri skipan mála, sem fram kemur í brtt. þeirra hv. þriggja nm. á þskj. 310, þar sem það er gerð beinlínis lagaleg skylda að stofna sérstakt prestakall á Þingvöllum og tengja saman prestsstarf þar og þjóðgarðsvarðarstarf. Þetta tel ég óeðlilegt, og er ástæðan sú, að ég tel það tilviljun háð, hvort hæfir menn muni ávallt fást til þess að gegna bæði prestsstarfi og þjóðgarðsvarðarstarfi, vegna þess að hér er að mínu áliti um töluvert óskyld störf að ræða; skal þó fyllilega viðurkennd hæfni þeirra tveggja prestvígðu manna, sem gegnt hafa þjóðgarðsvarðarstörfum þar að undanförnu. Þeir hafa reynzt ágætlega í sínum störfum, en það tel ég þó meira tilviljun háð, að svo vill til, að báðir þessir menn eru prestar, og tel því óeðlilegt að tengja þetta þannig saman samkv. l., að þjóðgarðsvörður eigi jafnframt að gegna prestsstarfi.

Varðandi hins vegar seinni brtt., sem flutt er af hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 311, vil ég taka fram, að ég mundi fylgja henni, ef skýrt kæmi fram, að Þingvallanefnd hefði úrslitaáhrif á ráðningu þjóðgarðsvarðar. En mér skilst, að svo sé í þeim l., sem nú gilda um ráðningu þjóðgarðsvarðar. Væri þessi brtt. samþ. óbreytt, gæti komið þarna í fyrsta lagi vafaatriði að mínu áliti, og í öðru lagi teldi ég ekki rétt að heimila ráðh. að gera slíka skipan mála í trássi við Þingvallanefnd, ef til þess kæmi. Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að flytja brtt. við umrædda brtt. á þskj. 311, og er hún — með leyfi hæstv. forseta — svo hljóðandi:

„Í stað orðanna „að fengnum till. biskups og Þingvallanefndar“ komi: að fengnum till. biskups og í samráði við Þingvallanefnd.“

Nú kann sú mótbára að koma fram gegn þessu, að þetta sé að því leyti óheppilegt, að biskupi sé gert hér lægra undir höfði en Þingvallanefnd. Nú er það fjarri mér að vilja styðja að nokkru, sem dregur úr áhrifavaldi biskups á kirkju og kristindómsmál. En það er nú einu sinni þannig, að því er ég bezt veit, að það er svo um veitingu annarra prestakalla, að biskup hefur þar aðeins tillögurétt, og væri því óeðlilegt, að hann hefði annað og meira vald, hvað snertir þetta einstaka prestakall. En af því að þess ber að gæta, að hér er í rauninni um óskyld störf að ræða, þar sem er prestsstarf á Þingvöllum annars vegar og hins vegar þjóðgarðsvarðarstarf, þá tel ég ekki rétt að breyta þeirri skipan, sem nú er, að Þingvallanefnd geti haft úrslitaáhrif á val þjóðgarðsvarðar. Að minni brtt. samþykktri mundi ég styðja 2. brtt. á þskj. 311. Ég sé þá ekkert athugavert við þá skipan, ef það er með samþykki Þingvallanefndar, og við fyrri brtt. á þskj. 311 hef ég þegar lýst fylgi mínu.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja fram þessa skrifl. brtt. mína.