03.03.1970
Efri deild: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

11. mál, skipun prestakalla

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þó að freistandi væri að segja ýmislegt um þetta frv., ætla ég ekki að gera það, heldur aðeins minnast hér á eitt atriði, sem frsm. n. að vísu kom inn á, en sagði þó n. ekki gera neina brtt. um, en ég tel alveg nauðsynlegt, að verði breytt, þannig að það orki ekki tvímælis, og það er 6. liður 21. gr. um styrki til námsmanna. Það mundi geta valdið stórfelldum vandræðum og skapað mjög hættulegt fordæmi og haft ill áhrif á námsmenn almennt, einkanlega stúdenta, ef væri hér farið inn á þá braut að styrkja einn hóp námsmanna úr sérstökum sjóði, eins og hér er ráðgert. Svo sem orðalag þessa tölul. er úr garði gert, þá hlýtur að mega leggja í það þann skilning, að hér sé fyrst og fremst átt við stúdenta, þ.e.a.s. að þeir sem háskólanemendur geti fengið styrk úr þessum sjóði. Þetta tel ég mjög varhugavert. Prestsnám er ekki mjög langt nám í háskóla, og það er eðlilegt, að sama gildi um nemendur guðfræðideildar og um námsmenn annarra deilda. Ég tel því mikla nauðsyn bera til þess, að hv. n. taki þetta til athugunar á milli umr. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, að það væri heimilað að veita einhverja styrki til sérstakrar rannsóknarstarfsemi að kristilegum málum eða jafnvel einhverja kandidatastyrki. Það er strax allt annað mál og skapaði ekki þetta fordæmi. En ég tel, að þetta atriði sé alveg nauðsynlegt að athuga.

Ég skal svo ekki láta hjá líða að geta þess, að mér finnst það miður og í rauninni óheppilegt, að ekki skuli vera meiri afskipti stjórnardeilda af þessum sjóði, sem haldið er uppi algerlega af framlögum ríkissjóðs. Hér er ekki um sjóð að ræða, eins og er nú um flesta starfandi sjóði, sem vinna að hinum ýmsu verkefnum, að þeir eru ekki nema að hluta til byggðir upp með framlögum ríkissjóðs, heldur úr öðrum áttum. Það eru aðeins ríkistillög. Hér má gera ráð fyrir, að þessi sjóður í rauninni verði næstum að öllu leyti fjárveiting úr ríkissjóði á hverjum tíma, og síðan er falið vissum aðila, sem ég síður en svo ber neitt vantraust til, að úthluta þessu fé, en óneitanlega sýnist mér, að æskilegt hefði verið, að fjárhagsáætlun eða áætlun um ráðstöfunarfé sjóðsins fengi t.d. staðfestingu dóms- og kirkjumrh., þannig að hægt væri að fylgjast með ráðstöfun fjárins. Það er ekki ætlun mín að fara að flytja neina brtt. um það, heldur læt aðeins þetta sjónarmið koma fram. En ég mundi mjög vilja óska þess við hv. n. til þess að forðast misskilning óg vandræði, að hún taki þetta atriði, sem ég gat um áðan, til athugunar.

Varðandi þær orðræður, sem hér hafa farið fram um Þingvallaklerk, sýnist mér það einsýnt, að það komi ekki til neinna álita að setja prest á Þingvöll, sem ekki hefði neitt annað verkefni en vera þar prestur. Það yrði þá að gera þá breytingu, sem vitanlega er hugsanlegt, að flytja einhvern prest til Þingvalla, sem hefði þá aðsetur á Þingvöllum, en þjónaði fleiri sóknum, það mætti hugsa sér í Árnesprófastsdæmi, eða þá að hafa þann hátt á, sem hér er lagt til og hefur engin sérstök aukaútgjöld í för með sér, nema kannske einhvern mismun á launum prests og þjóðgarðsvarðar, sem skiptir ekki máli, að sameina þetta tvennt. Hitt er auðvitað rétt, sem getið var um áðan, að það þarf ekki að vera, að það falli alls kostar vel saman, að prestur gegni störfum þjóðgarðsvarðar. Þó hygg ég nú, að það sé ekki stórfelld hætta í því efni.

En mér sýnist sem sagt ekki vera nema um tvennt að ræða, ef menn ætla sér að hafa kirkjusetur eða prestssetur á Þingvöllum, annaðhvort að velja þá leið, sem hér er lögð til í tveimur brtt., eða þá beinlínis að flytja einhvern prest til Þingvalla og hafa prestssetur þar og láta hann þá þjóna fleiri sóknum. Ég vildi hins vegar benda á það, að mér sýnist þessar brtt. vera dálítið óljósar frá báðum aðilum, og beini því nú aðeins til þeirra, sem eru flm. að þeim, hvort ekki væri nauðsynlegt að athuga þær betur og reyna að samræma þær. Mér finnst nú ekki vera mikill meiningamunur hjá þeim sem flytja till. í raun og veru. Ég ég held, að báðar till. þurfi í rauninni dálítið nánari athugunar við, og æskilegt væri, að þær væru teknar til meðferðar betur á milli 2. og 3. umr., og skýt ég því aðeins fram til athugunar fyrir hv. flm.