20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

11. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð var lagt fyrir Alþ. 1966, en varð þá ekki útrætt. Frv. var flutt í Ed. á þessu þingi í byrjun þings og nú breytt frá því, sem áður var, og hafði þá verið höfð hliðsjón af ýmsum aths., sem fram höfðu komið við frv. Það hafði einnig verið unnið verulega að því í rn. að gera breytingar á frv. í samráði við biskup, og var mér í huga að flytja frv. á þingi í þingbyrjun 1968 og hafði það nokkuð tilbúið þá, en þó varð ekki af því, og héldu áfram viðræður við biskup og aðra menn kirkjunnar um málið. Niðurstaðan varð sú að flytja málið í því formi, sem það nú liggur fyrir, en það hefur farið í gegnum Ed. og hefur hún afgr. málið með nokkrum breyt., og skal ég ekki víkja neitt sérstaklega að þeim.

Ég hygg, að það hafi verið nokkuð gott samkomulag um flestar þær breyt. eða allar, sem samþ. voru. Ég vil segja það um eina brtt., sem flutt var af Steinþóri Gestssyni alþm. og fleirum varðandi Þingvelli, að þar er bætt inn, að þar komi, að það verði sérstök Þingvallasókn með prestssetri á Þingvöllum, en um þetta gildi þau sérstöku ákvæði, að ráðh. skipi prest til að sitja á Þingvöllum og gegna Þingvallasókn samkv. 1. gr., að fengnum till. biskups og Þingvallanefndar, enda gegni hann þá jafnframt starfi þjóðgarðsvarðar. Er í þessari till. reynt að sameina þjóðgarðsvarðarstarfið og prestssetrið, eftir því sem verða mætti, með góðu samkomulagi þeirra aðila, sem hlut eiga að máli. Ég vona, að vel takist til um það. Það er svo nú í framkvæmd og mörgum var eðlilega viðkvæmt mál, að prestur væri á Þingvöllum vegna helgi staðarins, og um þessa brtt. var haft fullt samráð við mig, og var ég henni að öllu leyti samþykkur.

Með frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að prófastsdæmunum verði fækkað úr 21 í 15, en prestaköllum utan Reykjavíkur úr 109 í 92, en nokkur breyting hefur orðið á þessari tölu við meðferðina í Ed. Menn verða að hafa það í huga, að mörg þeirra prestakalla, sem nú er lagt til að sameina öðrum prestaköllum, hafa verið prestslaus árum eða jafnvel áratugum saman, og að því leyti má segja, að verið sé að viðurkenna staðreyndir, sem þegar liggja fyrir, og samræma skipulag þjóðkirkjunnar í verulegum atriðum því þjóðfélagsástandi, sem nú er fyrir hendi. Fyrir þessu er gerð nánari grein í grg. frv., sem ég sé ekki ástæðu til að tíunda hér sérstaklega. Þar er einnig rakið skilmerkilega, hverjar eru helztu breytingarnar, sem er að finna í þessu frv. frá frv. frá 1966, og er það talið í 13 liðum á bls. 9-10 í athugasemdunum, og vil ég leyfa mér að vitna til þeirra.

Ég hef lagt á það megináherzlu og gerði það, þegar frv. var lagt fram í Ed., að þetta frv. hlyti afgreiðslu þingsins. Mér var alveg ljóst, að hér var ekki um flokkspólitískt mál að ræða. Það geta verið um það nokkuð skiptar skoðanir, en hins vegar var ég ánægður yfir því, að góð samstaða varð um málið í Ed., og ég vil mega vænta þess, að svo geti einnig orðið hér í Nd. En ég lagði fyrst og fremst áherzlu á afgreiðslu málsins þar sem kunnugt er, að þetta mál hafði verið flutt áður, og nokkur önnur mál kirkjunnar, sem hún hefur óskað eftir, eftir samþykkt á kirkjuþingi, við rn., að flutt væru, hafa hlotið þá meðferð að daga hér uppi í þinginu, sem ég tel ekki vansalaust, og við þm. sameiginlega verðum að temja okkur í ríkara mæli en áður að afgreiða mál, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, með eða á móti, og sérstaklega þegar stofnun eins og þjóðkirkjan á í hlut.

Ég vil svo vænta þess, eins og ég sagði áðan, að um þetta mál geti orðið samstaða og það fái jákvæða afgreiðslu hér, áður en þingi lýkur, og leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.