09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt að ráði, enda gaf ræða hæstv. ráðh. ekki tilefni til þess, að ég yrði margorður að þessu sinni.

Hæstv. ráðh. taldi, að ég og hv. 1. þm. Norðurl. v. hefðum verið að spyrja um hans persónulega álit, ráðh. um það, hvað hann teldi rétt að gera í sambandi við bæði hinar minni tegundir eða stærðir togskipa og úthafstogara. Það er í sjálfu sér ágætt að heyra það og fá það staðfest hér í ræðu hæstv. ráðh., að hans persónulega skoðun sé sú, að við þurfum einnig að koma okkur upp skipum af þessum stærðum. En í rauninni vorum við ekki, a.m.k. ekki ég, fyrst og fremst að spyrja um þetta. Ég var hreint og beint og ég taldi nokkuð skýrt að spyrja um það, hvaða afstöðu hæstv. ríkisstj. hefði tekið til beinna tilmæla, sem ég hygg að henni hafi borizt og sum fyrir alllöngu um stuðning við aðila, sem vilja koma sér upp skipum af þessum tveimur stærðum. Og því miður var svar hæstv. ráðh. á þann veg, að í nafni ríkisstj. gæti hann ekki gefið neinar yfirlýsingar um stuðning við skip af þessum tegundum eða stærðum. Hins vegar lýsti hann yfir því, og það þótti mér út af fyrir sig gott að heyra, að áfram mundi verða unnið að athugun og þá væntanlega lausn þeirra mála, en það gefur auga leið, að ef það á alls ekki að gera í sambandi við þetta frv., þá er nú orðið svo áliðið þinghalds, að aðgerða Alþ. er þá alls ekki, að því er virðist, að vænta fyrr en á næsta hausti eða næsta vetri, og ég tel það mjög illa farið, ef enn þarf að bíða með allar ákvarðanir í sambandi við aðrar togskipastærðir kannske hálft eða heilt ár enn.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. lagði á það áherzlu og alveg réttilega að mínum dómi, að það að gera út skip af ýmsum stærðum og sem allra nútímalegastan flota hverju sinni hefði verið og væri okkur Íslendingum lífsnauðsyn, og hitt væri, eins og hann orðaði það, meira bókhaldsatriði, hvort skipið þá og þá sýndi hugsanlegan, rekstrarlegan hagnað eða jafnvel eitthvert tap. Í flestum tilfellum væri um lífsnauðsyn að ræða að eiga sem nútímalegastan og bezt búinn flota. Þetta vil ég leggja alveg sérstaka áherzlu á og tel, að sé alveg hárrétt athugað. Og þó hagfræðingar og bankastjórar, ágætir og hálærðir menn, séu að velta fyrir sér ýmsum tölum í þessu sambandi, þá legg ég ekki allt of mikið upp úr því.

Ég fór nokkrum orðum um það í lok ræðu minnar hér í dag, að ég hefði vel getað unnt hæstv. sjútvrh. þess að koma hér með dálítið stærra og myndarlegra frv. í sambandi við endurnýjun togaraflotans en hann hefur nú gert. Ég skal þó á engan hátt vanþakka, að þetta skuli þó fram komið, og mun styðja það, svo langt sem það nær. Ég saka ekki hæstv. ráðh. um, að það standi eða hafi staðið fyrst og fremst á honum í sambandi við endurnýjun togaraflotans. Ég tel, að þar hafi önnur og neikvæðari öfl verið að verki, en hann hafi hins vegar látið þau öfl draga of mikið úr sér kjark og látið þau ráða of miklu. Og það skulu þá verða mín síðustu orð við þessa umr., að ég vil vænta þess, að hann nú á næstunni haldi það strik, sem hann virðist þó fylgja fram nú, að koma með raunhæfar till. um lausn á þeim vanda, að við getum aflað okkur togskipa, fleiri togskipa og af öðrum gerðum en hér er um að ræða samkv. þessu frv. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh., enda þótt hann hafi nú verið í ríkisstj. alllengi með flokki, sem hefur, að því er virðist, ákaflega steinrunnar hugmyndir um það, að einkaframtakið eigi að leysa atvinnumálin, þá sé hann mér enn eins og fyrr í rauninni sammála um það, að í sambandi við togaraútgerð þurfi félagsleg úrræði í mörgum greinum til að koma til þess að leysa þau mál, og hann vinni eftir þeim línum, en treysti ekki blint á einkaframtakið til að leysa málin. Það hefur sýnt sig í þessu efni, að það dugar ekki til þess. Þar verður hið opinbera til að koma, eins og gert er með þessu frv. að nokkru, þó að það hrökkvi því miður helzt til skammt.