09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ein meginhagsbótin, sem Íslendingar munu væntanlega hafa af aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, er fólgin í því, að það á að vera auðveldara en ella að koma á fót á Íslandi nýjum útflutningsatvinnuvegum, sem hagnýtt gætu sér hinn tollfrjálsa markað, sem við nú þegar höfum fengið aðgang að í EFTA-löndunum. En telja má, að erfiðleikar séu á því, að koma íslenzkum iðnaðarútflutningsvörum á erlendan markað, ef flytja þarf út yfir tollmúra. En flest þau lönd, sem hugsanlegt er, að við gætum flutt iðnaðarvörur til án þess að eiga aðgang að tollfrjálsum markaði, hafa þess konar tolla á iðnaðarvörum, að a.m.k. erfiðleikar væru á útflutningi þangað, þó að ég vilji ekki segja, að það væri ókleift í einstökum greinum, þar sem Íslendingar hafa sérstaklega góða aðstöðu til framleiðslu iðnaðarvöru. En hitt ætti að vera alveg óumdeilt, að ef við njótum tollfrelsis á tilteknum markaði fyrir íslenzkar iðnaðarvörur, þá er útflutningur þangað auðveldari en ella. Og með aðild Íslands að EFTA hafa Íslendingar einmitt fengið tollfrjálsan aðgang að um 100 millj. manna markaði, og skapar þetta vonandi skilyrði til aukins útflutnings þangað af hálfu ýmissa iðngreina, sem nú eru stundaðar í landinu, og þá ekki síður von um, að hægt yrði að koma hér á fót nýjum greinum útflutningsiðnaðar, sem hagnýttu sér þennan nýja tollfrjálsa markað.

Aðstaða Íslendinga til útflutnings iðnaðarvöru á alla aðra markaði er í sjálfu sér nákvæmlega hin sama, hvort sem við erum aðilar að EFTA eða stæðum utan EFTA. Hið sama á að sjálfsögðu við um þann útflutning, sem nú er fyrst og fremst stundaður á Íslandi, þ.e.a.s. útflutning sjávarvöru. Aðstaða okkar á öllum öðrum mörkuðum en EFTA-markaðinum er hin sama, hvort sem við erum meðlimir í EFTA eða stöndum utan EFTA, en EFTA-aðildin hefur einnig bætt aðstöðu íslenzks sjávarútvegs á EFTA-markaðinum að ýmsu og mjög verulegu leyti.

Uppbygging íslenzks útflutningsiðnaðar kallar á lausn ýmissa vandamála hér innanlands. Ég skal ekki gera þau almennt að umtalsefni í þessu sambandi, enda ekki nein ástæða til þess. Hins vegar er þetta frv. flutt til þess að stuðla að lausn alveg tiltekins vandamáls í þessu sambandi. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að útflutningur ýmiss konar framleiðslu, sem flokkast undir fjárfestingarvöru, er þess eðlis, að framleiðendur vörunnar í heimalandinu hafa selt vöruna með þeim hætti að veita greiðslufrest. Íslendingar, sem keypt hafa ýmsa fjárfestingarvöru, svo sem báta og skip frá öðrum löndum, hafa í ríkum mæli notið góðs af þessum útflutningsháttum, þ.e.a.s. þeir hafa átt kost á ríflegum greiðslufresti á þessum vörum í þeim löndum, sem þeir hafa keypt t.d. báta sína og skip frá. Og þetta á ekki aðeins við um báta og skip, þó að þar sé um að ræða kunnasta dæmið fyrir atvinnuvegi okkar Íslendinga. Þetta á einnig við um t.d. vélar hvers konar og fjárfestingarvörur yfirleitt.

Það gefur því auga leið, að ef hér á að koma á fót útflutningsiðnaði til framleiðslu á fjárfestingarvörum, þá verður sá útflutningsiðnaður að geta gefið væntanlegum kaupendum sínum í öðrum löndum kost á hliðstæðum greiðslukjörum, þ.e.a.s. hliðstæðum greiðslufresti og vaxtakjörum, og framleiðendur sams konar fjárfestingarvara í öðrum löndum bjóða sínum viðskiptamönnum. En hér er um að ræða svo stórt vandamál, að það mundi verða ofviða íslenzka bankakerfinu án sérstakra ráðstafana að gera framleiðendur íslenzkrar fjárfestingarvöru, sem ætla að flytja út, t.d. til EFTA- landanna eða raunar hvert sem er, kleift að bjóða sams konar kjör og nú eru í boði af hálfu framleiðenda sams konar vörutegunda í öðrum löndum. Þess vegna hefur verið talin nauðsyn á að gera sérstakar ráðstafanir í þessu sambandi.

Hér hefur verið talið rétt að fylgja fordæmi nágrannaþjóða um þetta efni, sem er í því fólgið að koma hér á fót útflutningslánasjóði, sem skuli hafa það hlutverk að veita lán vegna útflutnings meiri háttar véla og tækja, t.d. skipa og annarrar fjárfestingarvöru, sem framleidd er innanlands, en jafnframt að veita svonefnd samkeppnislán, en með samkeppnislánum er átt við lán til innlendra aðila til að kaupa vélar og tæki, þar með talin skip, sem framleidd eru innanlands, gegn bankaábyrgð eða annarri fullgildri ábyrgð. En þar er um að ræða alveg hliðstætt vandamál því, sem ég lýsti áðan. Ef innlendar skipasmíðastöðvar t.d. eða innlendir framleiðendur fjárfestingarvöru eiga að vera samkeppnisfærir við erlenda aðila í þessum efnum á innlenda markaðinum, þá þarf að vera hægt að bjóða þeim úr innlendum sjóðum sams konar fyrirgreiðslu hjá innlendu framleiðendunum, þ. á m. skipasmíðastöðvunum, og innlendir kaupendur þessara vörutegunda eiga kost á hjá erlendum framleiðendum þeirra. Vandinn er því í raun og veru tvíþættur, þ.e.a.s. annars vegar að gera íslenzkum útflutningsfyrirtækjum kleift að veita erlendum kaupendum hliðstæða fyrirgreiðslu og þeir eiga kost á hjá erlendum framleiðendum, og svo hins vegar að gera innlendum framleiðendum, sem framleiða fyrir innlendan markað, kleift að gefa innlendum kaupendum kost á sams konar hlunnindum í sambandi við greiðsluskilmála og vexti og þeir eiga kost á hjá erlendum seljendum.

Þetta er leiðin, sem farin hefur verið í nálægum löndum, og þetta frv., sem hér er nú til 1. umr., gerir ráð fyrir því, að hliðstæð leið verði farin hér til þess að vinna bug á þeim vanda, sem augljóslega fylgir aukinni samkeppni. Annars vegar er stuðlað að bættum skilyrðum innlendra framleiðenda á innlenda markaðinum í samkeppni við erlenda framleiðendur og hins vegar bættum skilyrðum innlendra framleiðenda til þess að keppa við erlenda framleiðendur á erlendum mörkuðum.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að stofnaðilar sjóðsins skuli vera Seðlabanki Íslands, Landsbanki Íslands og iðnlánasjóður og stofnfé sjóðsins skuli vera 150 millj. kr. Hver um sig af þessum þremur banka- eða lánastofnunum leggur 50 millj. kr. til sjóðsins. En þess má geta, að fyrir fáeinum dögum tók stjórn norræna iðnþróunarsjóðsins ákvörðun um, að af fé iðnþróunarsjóðsins skuli ganga 50 millj. kr. til iðnlánasjóðs í því skyni að gera honum kleift að leggja fram stofnfé sitt til þessa fyrirtækis, þannig að sú kvöð, sem hér er lögð á iðnlánasjóð um að leggja fram 50 millj. kr., mun í engu rýra aðstöðu iðnlánasjóðsins til þess að sinna þörfum iðnaðarins hér innanlands. En Seðlabankinn og Landsbanki Íslands munu geta lagt fram sínar 50 millj. kr. hvor, án þess að þær stofnanir þurfi í nokkru að draga úr sínu þjónustuhlutverki við íslenzkt atvinnulíf vegna þeirrar kvaðar, sem í þessum I. er og á þessar stóru bankastofnanir er lögð. Það er gert ráð fyrir því, að aðrir viðskiptabankar geti orðið aðilar að sjóðnum, og þá fari um fjárframlag þeirra, ábyrgð og aðild að stjórn sjóðsins eftir því, sem um semst á milli þeirra og sjóðsstjórnarinnar. Þá er gert ráð fyrir því, að sjóðnum sé heimilt að afla sér fjár til starfsemi sinnar með lántökum hjá innlendum bönkum og sjóðum til viðbótar stofnfénu. Honum er einnig heimilt að taka lán erlendis.

Stjórn sjóðsins er heimilt að fela Landsbanka Íslands eða annarri lánastofnun, og skal Landsbanki Íslands eða sú stofnun, sem stjórn sjóðsins ákveður að fela stjórnina og afgreiðsluna, annast afgreiðslu lána og innheimtu þeirra. En lausafé sjóðsins skal geymast á reikningi í Seðlabanka Íslands.

Þetta eru meginatriði þess frv., sem hér er um að ræða. Samtímis þessu frv. er lagt fram frv. til l. um tryggingadeild útflutningslána við ríkisábyrgðasjóð, og mun hæstv. fjmrh. mæla fyrir því hér á eftir, enda heyrir framkvæmd þess máls undir fjmrn. með sama hætti og framkvæmd þessa máls heyrir undir viðskmrn., sem fer með bankamál.

Herra forseti. Ég vona, að með þessum fáu orðum hafi mér tekizt að skýra meginatriði þess máls, sem hér er um að ræða. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál fyrir framtíð íslenzks iðnaðar, bæði að því er snertir möguleika hans á innlendum markaði og einnig skilyrði hans til heilbrigðrar samkeppni, til góðrar samkeppni við erlenda aðila á erlendum mörkuðum. Ég vona, að allir hv. þm., hvaða afstöðu sem þeir annars kunna að hafa haft til aðildar að EFTA í sjálfu sér, geti orðið sammála um, að fyrst aðild að EFTA er orðin staðreynd í íslenzku atvinnulífi, í íslenzkum þjóðmálum, þá sé nauðsynlegt að gera sem fyrst og með sem skynsamlegustum hætti þær ráðstafanir, sem eðlilegar og nauðsynlegar eru til þess að gera íslenzkum atvinnuvegum og þá sérstaklega íslenzkum iðnaði kleift að hagnýta sér þá möguleika, sem aðild að EFTA hlýtur að skapa. Þess vegna vildi ég mega vænta þess, hvað sem líður öllum liðnum ágreiningi um aðild að EFTA, að hv. þm. geti sameinazt um, að mál eins og þetta og fleiri slík, sem munu verða lögð fyrir þetta Alþ. og hið næsta, séu í sjálfu sér nauðsynlegur stuðningur við íslenzka atvinnuvegi og þau hljóti því almennan stuðning hér á hinu háa Alþ.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.