27.04.1970
Neðri deild: 86. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft frv. þetta til athugunar. Mælir n. með því, að frv. verði samþ., en leggur til, að gerð verði á því ein breyt., sem er prentuð á þskj. 720, þ.e.a.s. ásamt nál.

Breyt. sú, sem n. leggur til að gerð verði, er, að við 2. gr. frv., þar sem fjallað er um hlutverk útflutningslánasjóðs og talið upp í tveimur liðum, a- og b-lið, hverjir það eru, sem hægt sé að veita lán úr útflutningslánasjóði, bætist:

„Heimilt er stjórn sjóðsins að veita útflutningslán eða samkeppnislán fleiri iðngreinum en þeim, sem a- og b-liðir ná til, ef hún metur það nauðsynlegt til að tryggja þeim sambærilega aðstöðu við erlenda samkeppnisaðila.“

Hér er átt við það tilfelli, sem gæti komið upp, að iðnfyrirtæki, sem ekki framleiddi fjárfestingarvöru, þyrfti á aðstoð að halda til þess að standast samkeppni erlendra aðila, en þá hafi sjóðurinn heimild til þess að veita slíku fyrirtæki lán.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fjölyrða meir um mál þetta. N. leggur til, að það verði samþ. með þeirri brtt., sem hún flytur á þskj. 720.