18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

250. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um stimpilgjald er flutt vegna gildistöku nýs fasteignamats. Það er að vísu meginregla í stimpilgjaldslögum varðandi stimpilgjald af afsölum fyrir fasteignum, að greiða skuli af því hinu raunverulega söluverði, þannig að segja má, að af þeirri ástæðu væri ekki grundvöllur fyrir því eða nauðsyn til þess að breyta þessu lagaákvæði, en hins vegar mun reyndin hafa verið sú í nær öllum tilfellum, að notað hefur verið annað ákvæði í stimpilgjaldslögunum, þar sem svo segir, að ef kaupverð eða söluverð er ekki tilgreint, þá skuli miðað við fimmfalt fasteignamat, og var það þá að sjálfsögðu það lága fasteignamat, sem miðað var við. Gengið var út frá því í þessari breyt., sem nú er lagt til að gera á stimpilgjaldslögunum, að í langflestum tilfellum hafi þetta verið gert, og því er lagt til, að gerð verði mjög veruleg lækkun á stimpilgjaldinu, eða úr 2% af fasteignamati niður í 0.5%, og er það næstum nákvæmlega sú upphæð, sem stimpilgjaldið hefur gefið af sér undanfarið í sambandi við stimplun á afsölum fyrir fasteignum. Hins vegar er hér um að ræða mjög mikla lækkun á stimpilgjaldi á skipum. Skjöl vegna eignayfirfærslu á skipum hafa verið stimpluð eftir hljóðan þeirra, þ. e. a. s. miðað við hið raunverulega söluverð, og til skamms tíma var þetta stimpilgjald einnig með sérstöku álagi. Það var afnumið fyrir einu ári síðan. Eigi að síður hefur stimpilgjaldið reynzt það hátt miðað við hið háa verð skipa, að í fjölmörgum tilfellum hefur eignayfirfærslu á skipi ekki verið þinglýst með eðlilegum hætti, og hefur það valdið miklum vandræðum. Það er lagt til í frv. að stórlækka þetta gjald, eða úr 1% niður í 0.25%.

Þá er það einnig nýmæli í þessu frv., sem m. a. er gert til þess að auðvelda eignayfirfærslu frá einstaklingi til hlutafélags eða milli hlutafélaga í sambandi við samruna félaga, sem mikið hefur verið talað um, og til að auðvelda það, að menn gætu komið atvinnurekstri sínum í hagkvæmara form, að þá er heimild til þess, að ekki skuli reiknað sérstakt stimpilgjald af þeim eignarhluta, sem viðkomandi aðili leggur til hins nýja félags, ef eignarhlutur hans í félaginu er jafnstór því verðmæti, sem hann leggur af mörkum. Og það er gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði gildi um eignayfirfærslu, sem átti sér stað eftir 1. jan. 1970.

Þá er einnig í frv. að finna sérstakt ákvæði þess eðlis, að framsal á skuld, þó um nafnbréf sé að ræða, verði ekki stimpilgjaldsskylt. Það hefur ekki verið með handhafabréf, og eru þessir bréfaflokkar settir jafnfætis að þessu leyti.

Þá er einnig nokkur breyting varðandi viðurlög, sem hafa verið mjög þung við því, ef stimplun er látin farast fyrir. Það er ástæðulaust að hafa það ákvæði eins og það er núna, þ. e. um fimmfalda upphæðina, sem er þó heimild til að lækka og hefur yfirleitt alltaf verið lækkuð í 100%. Í stað þess að fara þá leið, hvað sem líður því, hve langur tími það er, sem menn vanrækja stimplun skjals, þá er lagt til, sem er mun eðlilegra, að sektin vaxi eftir því sem tíminn lengist, sem menn vanrækja að stimpla skjalið.

Þetta eru þau atriði, sem felast í umræddu frv. Í hv. Ed. var frv. samþ. shlj., og vildi ég leyfa mér að vænta þess, að samstaða gæti einnig orðið um það í þessari hv. d. Þar sem hér er eingöngu um mjög eðlilegar breyt. að ræða, að svo miklu leyti sem það eru breyt., þá eru þær beinlínis til lækkunar og sparnaðar fyrir gjaldendur, þá vonast ég til, að það takist að fá samkomulag um að afgreiða það í tæka tíð. Þetta er frv., sem nauðsynlegt er að fái afgreiðslu hér á þinginu áður en því lýkur, vegna þess að það verður að vera orðið að lögum, áður en nýja fasteignamatið tekur gildi.

Ég legg því til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.