18.11.1970
Efri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 2. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í hv. d., hélt ég um það dálitla ræðu, þar sem ég lýsti afstöðu minni til einstakra gr. og ákvæða frv. Fjhn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu frv. Við, ég og hv. 3. þm. Vestf., stöndum að nál., sem prentað er á þskj. 160. Þar eða öllu heldur á sérstöku þskj. öðru leggjum við til þrjár breyt. á frv., sem eru svo mikilvægar að okkar dómi, að afstaða okkar til málsins veltur á afgreiðslu þeirra.

Í því frv., sem hér er til umr., má segja, að séu í höfuðatriðum sex atriði, þrjú gömul, þrjú ný. Í tilefni af því, að menn ætla sér að setja á verðstöðvun, sem svo er kölluð, hafa þrjú eldri lagafyrirmæli verið dregin fram og hresst upp á sum þeirra. Það eru lög nr. 54 frá 1960, sem eru notuð til þess að banna verðhækkanir að því leyti, sem verðlagsnefnd um það fjallar. Það eru lög nr. 4 frá 1960, en 28. gr. þeirra veitir ríkisstj. heimild til að verja fé úr ríkissjóði til að halda niðri verði á vöru og þjónustu. Þessi lög á að nota í ríkari mæli en gert hefur verið um skeið. Og það eru í þriðja lagi lög frá 1963 um fjölskyldubætur, sem einnig á að auka. Nýmæli frv. eru hins vegar þrjú. Það er í fyrsta lagi það ákvæði 2. gr. að leggja á til loka verðstöðvunartímabilsins launaskatt, sem á að nema 1½% og leggjast á sama stofn og lög um launaskatt, sem nú eru í gildi, taka til. Um þennan launaskatt vil ég segja það, sem ég raunar minntist á hér, að ég held við 1. umr. málsins, að andstaða okkar framsóknarmanna við hann byggist ekki á því, að við teljum ósanngjarnt, að atvinnuvegirnir taki á sig hluta af þeim byrðum, sem hér er verið að jafna á þjóðina. Við höfum fært rök að því og byggjum það á útreikningum í aths. með frv., að með samþykkt þessa frv. muni atvinnuvegirnir losna við að greiða vísitöluuppbætur, sem nema einhvers staðar á milli 1000 og 1100 millj. kr. á tímabilinu, og það er ekki hægt að segja það, að það sé of óvægilega í sakir farið, þó að þessum sömu aðilum sé gert að greiða 250 millj. af þessu á tímabilinu. Ástæðan fyrir andstöðu okkar við launaskattinn er heldur ekki þessi. Hún er sú, að við erum á móti sérstakri skattheimtu núna, meðan fjárlagadæmið fyrir árið 1971 hefur ekki verið gert upp. Við teljum launaskattinn óheppilega innheimtuaðferð, sem komi misjafnlega niður, eins og hér hefur raunar verið lýst í umr. núna og ég benti á við 1. umr. málsins. Við erum mótfallnir því, að það sé haldið áfram á þeirri braut að tiltaka ákveðna skattheimtu til tiltekinna verkefna, eins og hér hefur verið minnzt á og ég kem kannske aðeins að síðar, og fleira höfum við á móti þessum skatti. Þess vegna leggjum við það til, að ákvæði 2. gr. frv. verði fellt.

Skv. 4. gr., það er annað nýmælið, er ákveðið, að við útreikning kaupgreiðsluvísitölu skuli ekki taka tillit til verðhækkana á tveimur liðum, sem nú eru í vísitölugrundvellinum, þ. e. iðgjaldi til almannatrygginga og útsöluverði á áfengi og tóbaki. Ennfremur er í þessari gr. ráðgert að fresta útreikningi kaupgjaldsvísitölu um einn mánuð frá því, sem nú er ákveðið, og taka við þann útreikning tillit til niðurgreiðslna eða verðbreytinga, sem verða eftir á. Um þessar breyt. 4. gr. hafa talsverðar umr. þegar orðið. Ég skal engu við þær bæta. Ég undirstrika það, sem ég sagði hér við 1. umr. um þetta. Ég tel það fráleitt, að annar aðilinn, hvort sem hann heitir ríkisstj. eða eitthvað annað, geti tekið það upp á sitt eindæmi að breyta þeirri viðmiðun sem samið hefur verið um fram að þessu og það skiptir engu máli, hvað þeir liðir vísitölunnar heita, sem þannig eru teknir. Grundvellinum er raskað, og það er rangt. Vísitölugrundvöllurinn er hugsaður sem mælitæki, sem á að tryggja launþegum það, að verðlagsuppbótin samsvari framfærslukostnaðinum á hverjum tíma, og kjarasamningarnir frá 19. júní og síðar voru gerðir í trausti þess, að fyrir hverja verðhækkun, sem grundvöllurinn tók til, kæmi full verðlagsuppbót. Þessu hefur verið margsinnis yfirlýst hér á hv. Alþ. af þeim mönnum, sem fremstir stóðu við samningsgerðina og ég segi fyrir mitt leyti, að ég rengi ekki vitnisburð þeirra. Ég hef heldur ekki heyrt honum mótmælt. Þess vegna leggjum við til, að 4. gr. frv. verði felld.

Þriðja nýmælið í þessum lögum og það lakasta líklega, þó að þetta sé nú nokkuð slæmt, sem ég var að gera hér grein fyrir, lýtur að því, að ekki skuli kom til útborgunar 2 vísitölustig, þ. e. a. s. launþegar skuli taka á sig skerðingu frá samningunum í vor, sem 2 vísitölustigum nemur, án þess nokkuð komi í staðinn. Þetta ákvæði er litið svo alvarlegum augum af t. d. miðstjórn A. S. Í. og fleiri launþegasamtökum, að þeirri skoðun er lýst, að grundvelli kjarasamninganna sé kippt brott og þeir úr gildi fallnir, hvað öll kaupgjaldsákvæði áhrærir, ef þessi ákvæði frv., sem hér um ræðir, verða lögfest. Það er skylt að geta þess, að við meðferð málsins, eða síðan málið kom hér til meðferðar í hv. Ed., hefur nokkurt undanhald átt sér stað hjá hæstv. ríkisstj. Það er ráðgert nú, að þessi skerðing komi ekki til framkvæmda, a. m. k. ekki fyrir 1. marz 1971. Engu að síður eru fyrirmæli l. ótvíræð. Ríkisstj. hefur þessa heimild, og það er ekki breytt ákvæðum frv. Það er talið, að þess þurfi ekki, ég skal ekki leggja dóm á það, hvort þess þarf eða ekki. En þetta byggist þó allt saman á því, að niðurgreiðslurnar, sem raunar eru þó ekki lögfestar með þessu frv., verði framkvæmdar. Ég er ekki að hafa uppi neinar getsakir í garð hæstv. ríkisstj., að þessu verði ekki framfylgt. En mér finnst þessi ákvæði nokkuð einkennileg, ég verð að segja það. Ég hefði fellt mig miklu betur við það, að frv. væri breytt í þá átt, sem til stendur að framkvæma, t. d. að segja hér, að heimild væri fyrir ríkisstj. til þess að skipa svo málum, að tvö vísitölustig kæmu ekki til útborgunar eftir 1. marz n. k. En ég skal ekki gera þetta að neinu sáluhjálparatriði, enda leggjum við til hvort eð er, að gr. falli að öllu leyti niður. Og það er það, sem við leggjum áherzlu á.

Hv. frsm. meiri hl., 10. þm. Reykv., sagði það um þessar till. okkar, að þær þýddu enga verðstöðvun. Hann sagði, að það væri óraunhæft að lögfesta ekki launaskatt, að lögfesta ekki vísitöluskerðingu, og hann minntist á einhvern fóðurbætisskatt svona í framhjáhlaupi, en ég hef nú ekki fundið ákvæðin um hann í frv. enn. Hitt er rétt, að það er getið um fóðurbætisskatt, sem bændur eiga að bera bótalaust, í aths. frv., en þær eru nú víst ekki hér til atkvgr. eða afgreiðslu. Ég segi, að það sé rangt, að við séum með þessu að leggjast gegn verðstöðvun, og ég held, að það sé ómögulegt að fá það út úr till. okkar hér. Við segjum, að við viljum fallast á með hæstv. ríkisstj., að fjölskyldubætur verði hækkaðar og að niðurgreiðslur verði auknar og að til þess sé varið því fjármagni, sem samkv. upplýsingum í aths. með frv. er handbært hjá ríkissjóði, annars vegar vegna útgjaldaliða, sem sparast vegna þessara framkvæmda, hins vegar vegna þess, að fundizt hafa auknar tekjur frá því að fjárlagafrv. var lagt fram. Jafnframt segjum við, að þau vísitölustig, sem tekin eru af launþegum, skuli atvinnureksturinn greiða. Ég get ekki séð annað en þetta sé fullkomlega skýrt. Atvinnureksturinn á að greiða samkv. vísitölu þau stig, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að falli niður, bæði með beinni niðurfellingu og með reikningskúnstum. Við segjum, að það sé skrípaleikur, að atvinnurekendur greiði ríkissjóði launaskatt til þess að ríkissjóður greiði launþegum verðlagsuppbót eða niðurgreiðslur, sem eigi að koma í stað verðlagsuppbóta. Og við viljum losna við þessa milligöngu ríkissjóðs út úr þessu dæmi. Hæstv. ríkisstj. vill endilega hafa þetta fyrirkomulag. Ég skal ekki segja hvers vegna. Þó gæti verið, að það væri vegna þess, að það er ódýrara, eins og hér hefur verið lýst. Það er nefnilega ódýrara að eyða vísitölustigunum heldur en að greiða verðlagsuppbótina á laun

Hv. 10. þm. Reykv. flutti hér mjög sanngjarna ræðu, og hann féllst á margt af því, sem við höfum verið að segja hér um þetta mál, eins og t. d. það, að það væri ekki rétt að taka út úr vísitölugrundvellinum liði eins og almannatryggingar og áfengi og tóbak í þessu sambandi, þ. e. þá hækkun, sem verður á því. Við höfum heyrt áður aðra skýringu á þessu. Við heyrðum hana t. d. hér við 1. umr. málsins. Þá var þetta talinn sjálfsagður hlutur og einskis metinn til kauprýrnunar launþeganna. En ég virði það við hv. 10. þm. Reykv., að hann fór rétt með þessar staðreyndir. Hann sagði það, að vegna hækkunar á áfengi og tóbaki fengju launþegar ekki uppi borin 0.7 %-stig, og vegna hækkunar á iðgjaldi til almannatrygginga fengju launþegar ekki uppi borin 0.4%-stig, þegar sú hækkun kemur til framkvæmda í jan. n. k. Þetta er það rétta og það er bezt að hafa það, sem réttara reynist. Hann talaði um það, að launþegar fórnuðu þessu. Það er vissulega rétt. Launþegar fórna þessu. Til viðbótar eiga launþegar að fórna því, að tvö vísitölustig komi ekki til útborgunar 1. marz og það, sem eftir er af tímabilinu. Annað verður nú ekki lesið út úr þessu, þar sem hæstv. ríkisstj. vill umfram allt halda þeim ákvæðum frv., sem heimila henni þetta. Hv. 10. þm. Reykv. vildi svo aftur tína það til, sem launþegar græddu á þessum ráðstöfunum, og vék að því vísitölutapi, sem launþegar verða fyrir vegna útreikningsins eftir á, en verðhækkanirnar koma fyrr til. Það tap er vafalaust eitthvert. Ég neita því ekki. En í fyrsta lagi hygg ég, að það minnki eftir því, sem lengra liður frá kauphækkunarstökkunum. Sú hefur reynslan verið, og í öðru lagi er þess að gæta, að verðhækkanir stöðvast ekki, þó að þetta frv. verði lögfest. Það verða margs konar verðhækkanir á þessu tímabili þrátt fyrir ákvæði 1. gr. Það verða þær verðhækkanir til að mynda, sem hæstv. fjmrh. minnti okkur á, að hlytu að verða á næstu mánuðum vegna fyrirsjáanlegrar verðhækkunar á erlendri vöru, vegna aukinna álaga til að standa undir vegaframkvæmdum, ef ég man rétt, og eitthvað var það fleira, sem hann minntist á í þessu sambandi, sem vissulega er alveg ástæðulaust að loka augunum fyrir. Það verða verðhækkanir á tímabilinu, og þær koma vafalaust ekki síður til óhagræðis fyrir launþegana en þær verðhækkanir, sem hingað til hafa verið, vegna þess að nú eiga launþegar það undir því, hvenær ríkisstj. lækkar vöruverðið, hversu mikið biðtapið verður. Og ég hef ekki trú á því, að það verði minna með því fyrirkomulagi en miðað við það fyrirkomulag, sem nú er, að verðhækkanirnar koma án opinberra afskipta að miklu leyti.

Hv. 10. þm. Reykv. taldi ennfremur, að með þessum ráðstöfunum væru auknar líkur til þess, að atvinnureksturinn í landinu gæti haldið áfram að starfa. Það er augljóst mál, að þegar laun eru lækkuð með valdboði, hjálpar það atvinnurekstrinum. Það er ennfremur augljóst mál, að þegar tekið er af almannafé til þess að spara atvinnurekstrinum vísitölugreiðslur, þá náttúrlega hjálpar það honum. En ég held þó, að við megum ekki setja dæmið þannig upp, að eina von íslenzkra atvinnuvega sé lágt kaupgjald. Ég held, að við verðum að hugsa örlítið hærra en það og verðum að reyna að gera ráðstafanir, sem mættu duga til þess að atvinnureksturinn gæti starfað, þó að kaupmáttur launanna héldist frá því, sem hann var ákveðinn við kjarasamningana í vor. Og skoðun mín er sú, að við verðum að leggja höfuðáherzlu á að fara í þann enda þess dæmis, en ekki bara alltaf að segja: „Það er kaupið, sem er of hátt. Atvinnureksturinn getur fyrirsjáanlega ekki greitt það“, og segja svo: „Eina lausnin er að lækka kaupið.“

Þá vil ég víkja örlítið að þeirri Pílatusargöngu minni, sem hv. 10. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni og sem vissulega verður ekki gefið annað nafn, sem lýsir henni betur. Ég gekk raunverulega frá Heródesi til Pílatusar, en ég gerði það nú ekki til þess að hafa eitthvað upp úr krafsinu, þó að hv. 10. þm. Reykv. vilji bera mér það á brýn. Mér fannst, þegar þetta atriði bar á góma, t. d. í hv. Nd. í umr. um þetta frv. þar, að þá vildu talsmenn hæstv. ríkisstj. halda því mjög eindregið fram, að kaupmáttur launanna lækkaði ekki. Ég get ekki hér og nú vitnað í tiltekinn ræðumann og tiltekna ræðu, en ég hygg, að það muni nú sannast, að málflutningurinn hafi hnigið mjög á þessa lund. Og ég gat ekki skilið það, hvernig það mátti verða, að 2 vísitölustig, sem eiga að falla niður, og l.1 stig, sem á að fresta, og reikna vísitöluna mánuði síðar en áður hafði verið gert, en þó átti það að geta haldið kaupmættinum óbreyttum, skulum við segja, þegar frá því er skýrt í aths. frv., að niðurgreiðslurnar eru nákvæmlega útreiknaðar til þess að eyða tilteknum vísitölustigum. Og ég hygg, að fólk hafi almennt ekki skilið þetta, hvernig á því gæti staðið, að kaupmátturinn héldist þrátt fyrir þessa skerðingu. Þess vegna fannst mér það vera nauðsynlegt, ekki bara fyrir mig, heldur fyrir alla hv. þm. hér í Ed. a. m. k., sem áttu eftir að fjalla um frv., að það lægi fyrir opinber útreikningur á því, hvort þetta væri rétt, hvort þessar ráðstafanir væru virkilega svona snjallar, að það væri hægt að taka burt 3.1 vísitölustig af kaupinu og samt gætu menn haldið fullum kaupmætti, þegar niðurgreiðslur eiga rétt að vera til að mæta öðrum vísitölustigum. Og þess vegna tók ég mig fram um það að skrifa bréf til Hagstofunnar, sem ég hélt, að gæti reiknað þetta eins og svo margt annað. Og ég greindi frá þessu bréfi hér á mánudaginn við 1. umr. Hagstofustjóri talaði við mig, þegar hann fékk þetta bréf, og hann taldi þá eða mér fannst það, að hann gæti reiknað þetta, þegar vísitala 1. nóv. lægi fyrir, sem mundi verða strax eftir helgina. Þegar við komum svo á fund í fjhn. á mánudagsmorgun, þá liggur það fyrir, að hagstofustjóri getur ekki reiknað þetta og segir, að það sé mál Efnahagsstofnunarinnar að reikna út kaupmátt launa, það hafi alltaf verið það og það verði að vera það, eftir því sem mér skildist. Þar með fór ég þá frá Heródesi, skulum við segja, og til Pílatusar með aðstoð vinar míns og formanns fjhn., hv. 10. þm. Reykv. Þar fengum við að því leyti til miklu betri viðtökur, að forstöðumaður þeirrar stofnunar taldi sér ekkert að vanbúnaði að reikna þetta og hann skilaði okkur útreikningi, sem hv. 10. þm. Reykv. vitnaði nú í og ég ætla að leyfa mér að vitna ofurlítið í líka. (Forseti: Ég vildi leyfa mér að biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni núna. Það er meiningin að fresta fundi til kl. 6.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar fundinum var frestað áðan, held ég, að ég hafi verið að ræða um upplýsingar, sem seint og um síðir tókst að fá hjá Efnahagsstofnuninni um kaupmátt launa, þ. e. a. s. hvernig hann breyttist við þær aðgerðir, sem fyrirhugaðar eru, frá því, sem hann mundi hafa verið, ef þær hefðu ekki verið gerðar. Ég hygg, að mönnum, sem ekki eru hagfræðilærðir og þeim mun meira hagfræðilærðir, hafi þótt það eðlilegt, að kaupmáttur hefði lækkað við þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, og þeirri lækkun hefði valdið breyting á reikningi vegna vinnulaunaliðar bónda um 1.4% og það, að hækkun á áfengi og tóbaki var sleppt úr vísitölureikningi, sem gerir 0.7%-stig, þannig að lækkun hefði þá átt að vera 2.l%-stig miðað við það, sem áður hefði verið. En í bréfi frá Efnahagsstofnuninni er greint frá því, að kaupmáttur án aðgerða verði aðeins metinn eftir fyrirframáætlun, þ. e. a. s. það sé ekki hægt að meta kaupmátt launanna, eins og hann hefði orðið 1. des. Á þetta get ég ekki fallizt. Skýring forstöðumanns Efnahagsstofnunarinnar á þessu er sú, að afgreiðsla umsókna, væntanlega hjá verðlagsnefnd, þó að það komi nú ekki fram hér, tímasetning og þess háttar, hafi að undanförnu mótazt af fyrirhuguðum aðgerðum. Þróunin hefur þá þrátt fyrir allt og þrátt fyrir allar þær yfirlýsingar, sem hér er búið að gefa um það, að tilkynning um verðstöðvun hafi engin áhrif, þá hefur hún þó þrátt fyrir allt haft þessi áhrif, að hún hefur flýtt fyrir verðhækkunum. Það er vegna þess að yfirlýsingin um verðstöðvun hefur, hvað sem menn segja, flýtt fyrir verðhækkunum, sem forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar treystir sér ekki til að reikna. Þetta tel ég alveg fráleitt, alveg út í loftið. Auðvitað er hægt að reikna kaupmátt launa miðað við 1. des. eftir eldri aðferðinni. Það segir sig sjálft. Það er svo sérmál, sem e. t. v. væri ástæða til að . . . (Fjmrh.: Það er Pílatus, sem segir þetta.) Það er Pílatus, sem segir þetta. Það er sérmál, sem e. t. v. væri ástæða til þess að athuga, hve mikið af þeim verðhækkunum, sem gengu í gildi fyrir 1. nóv., hefðu beðið og kannske aldrei komið, ef ekki hefði verið búið að tilkynna verðstöðvun. Það er auðvitað rannsóknarefni. En það hefur ekki áhrif á þennan útreikning, ég get ekki séð það. En með því að gefa sér tilteknar forsendur, eins og hér er gert, þá er þó látin í té spá um það, hver kaupmáttur launanna hefði orðið Í. des., og það er 18.7%. En nú er sagt, að kaupmáttur samkv. verðstöðvunarfrv. verði 19% allt tímabilið, og það get ég heldur ekki með nokkru móti skilið. Hvernig getur kaupmátturinn haldizt í 19%, þegar yfirlýst er, að það eigi ekki að taka til greina hækkun á almannatryggingagjöldum? (Gripið fram í.) Það stendur hér: „Með áorðinni breytingu“, hæstv. ráðh. hefur kannske ekki þetta eintak undir höndum, en það stendur í þessu: „Með áorðinni breytingu, þ. e. auknum niðurgreiðslum, er kaupmátturinn 19% allt tímabilið.“ Ég lýsi algeru vantrausti á svona útreikning. Og ég skil ekki, hvaða tilgangi það á að þjóna að fá nm. á Alþ. svona plögg í hendur. Ég vil miklu heldur fá þá ekki neitt en fá plögg, sem meira að segja leikmaður eins og ég get fyrirvaralaust, athugunarlaust bent á, að geta ekki staðizt. Það er svo mál út af fyrir sig, að til grundvallar þessari speki er birt spá. Þar er borin saman vísitala framfærslukostnaðar við kaupgreiðsluvísitölu. Það er ný aðferð. Það hefur aldrei verið gert fyrr í tilkynningum Efnahagsstofnunarinnar að bera saman framfærslukostnað vísitölu og kaupgreiðsluvísitölu. Það hefur ævinlega verið miðað við vísitölu vöru og þjónustu. Af hverju skyldi því vera breytt? Ég veit það ekki. Í þeirri skýrslu, sem ég vitnaði í hér um daginn, er annars vegar vísitala tímakaups og hins vegar vísitala neyzluvöruverðs, og það er auðvitað það rétta, vegna þess að í vísitölu framfærslukostnaðar eru ekki teknir til greina ýmsir liðir, sem veruleg áhrif hafa í þessu skyni, eins og allir hv. alþm. auðvitað þekkja, og ég skal ekki tefja tímann með því að vera að rökstyðja það. Það er augljóst mál. En ég á ákaflega erfitt með að sætta mig við það, að beiðnum, sem eru settar fram í góðum tilgangi til þess að fá úr því skorið, hvað verið er raunverulega að gera með tiltekinni lagasetningu, sé svarað með plaggi eins og þessu. Og ég held, að hæstv. ráðh., sem hér eru viðstaddir, ættu að taka það til athugunar framvegis, ég segi það í fullri vinsemd, að vera ekki að láta á þrykk út ganga sem opinber skjöl svona útreikninga.

Ég skal nú ekki vera að orðlengja um þetta frv. frekar að marki. Það er bágt til þess að vita, að svo skuli vera komið í röðum stjórnarliða, að þar eru öll úrræði gengin sér til húðar, eins og hér var lýst. Höft getum við ekki notað, vegna þess að EFTA-þjóðirnar meina okkur það. Gengisfellingu getum við aldrei gert framar, vegna þess að trú manna á verðgildi peninganna er þegar orðin svo rýrð, að sú leið hefur verið farin til hins ýtrasta og hætta á því, að öngþveiti taki við, eins og hér var áðan lýst, og ég held, að þetta sé bara ekkert ofmælt, þetta sé bara alveg rétt hjá hv. 10. þm. Reykv., að þessar leiðir séu ekki lengur færar. Þær eru allar að lokast, og þar með eru þá leiðir hæstv. ríkisstj., sem búið er að notast við í undanfarin 11–12 ár, gengnar sér til húðar. (Fjmrh.: Þá er líklega bara hin leiðin eftir.) Þá er líklega bara hin leiðin eftir já, og ég fagna því, að augu hæstv. ráðh. hafa loksins opnazt fyrir því, að hin leiðin sé þó eftir, og ég held, að það væri þá rétt fyrir hæstv. ríkisstj. að byrja að fikra sig eftir henni með því að hætta við að lögfesta þetta frv.