19.03.1971
Efri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

283. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta mál nú að sinni, enda hef ég áður flutt ræðu hér í d., þegar ég mælti fyrir frv., sem ég flutti um þetta mál. En ég stend aðeins upp til þess að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli vera fram komið, og vil þakka hæstv. heilbr.og félmrh. fyrir það, hversu skjótt hann hefur brugðið við að hlutast til um, að þessi lög yrðu endurskoðuð, því að eins og ég sagði hér áður í d., þegar þessi mál voru til umr. í sambandi við mitt frv., þá taldi ég þörf á ýmsum fleiri breytingum en þar voru lagðar til, þó að þær væru einna mikilvægastar. Og þessi endurskoðun hefur sem sé nú farið fram fyrir forgöngu rn., en með fullu samstarfi við fulltrúa Alþýðusambands Íslands, eins og skýrt er frá í grg., og sömuleiðis Vinnuveitendasambands Íslands, þannig að fullt samkomulag er á milli hæstv. ráðh. og Alþýðusambandsins um afgreiðslu málsins.

Í þessu frv., sem nú hefur verið lagt fram og ráðh. hefur rakið aðalatriðin úr, þá koma fullkomlega til skila tvö af þeim þremur atriðum, sem í mínu frv. voru, þ. e. í fyrsta lagi, að það væri ekki algert skilyrði, að menn hefðu unnið þangað til í desember 1967, heldur dygði 10 ára réttindatími, þannig að — eins og kom fram hjá ráðh. — þetta eykur verulega tölu þeirra, sem bætur geta öðlazt. Enn fremur er rýmkað öllu meira en ég hafði gert ráð fyrir um það skilyrði, sem áður var í l. um, að menn hefðu verið tilskilinn tíma í stéttarfélagi, en það hafði valdið miklum erfiðleikum, m. a. vegna þess að stéttarfélög voru ekki til alls staðar í öllum greinum á því tímabili, sem menn höfðu átt að vinna sér réttinn. Og í þriðja lagi er svo um sjálfa hækkun bótanna að ræða. Þar hefur verið farin að vísu talsvert önnur leið en lagt var til í mínu frv. og í frv. hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar í Nd., en það er leið, sem ég tel eftir atvikum, að hægt sé að sætta sig við, þó að bætur geti að vísu orðið með þessum nýja hætti nokkru lægri eða kannske allt að því helmingi lægri en lægstu bætur, sem gert er ráð fyrir í okkar frv. En að öðru leyti er þar líka um meiri hækkanir að ræða í ýmsum tilvikum en orðið hefðu, ef okkar frv. hefði verið samþ., og bæturnar hygg ég, að geti nú numið rúmlega 40 þús. kr. mest, en þó aldrei minna en líklega 10–12 þús. kr. á ári eða 11–12 þús. kr. á ári, en þó líklega öllu meira.

Ég tel, að að ýmsu leyti hafi þessi háttur, sem tekinn var upp til þess að hækka bæturnar nokkuð, verið eðlilegri en sá, sem við lögðum til, við Eðvarð Sigurðsson og hv. þm. Jón Þorsteinsson, vegna þess að með þessu er fyrir því séð, að ekki myndist stallur, sem menn hrapi ofan af, þegar lífeyrissjóðirnir sjálfir verða að taka við sínum skyldum, þannig að það falli saman með eðlilegri hætti en orðið hefði, ef farið hefði verið að okkar till. Það er auðvitað auðsætt, að hér er um enga ofrausn að ræða og bæturnar hefðu gjarnan mátt verða meiri. Hitt er á að líta, að lífeyrissjóðirnir eiga að taka við þessum bótum að öllu leyti árið 1985, og það er ekki eðlilegt, að þeir, sem áður hafa haft bætur án þess að hafa þó greitt til sjóðanna, standi þá í hærri bótum en þeir, sem hafa unnið sér réttinn með því að greiða til sjóðanna tilskilinn réttindatíma.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég mun fyrir mitt leyti greiða fyrir því, að þetta frv. fái skjóta og góða afgreiðslu, og vænti þess sama af hv. þd.

Hitt er svo annað mál, sem ég get ekki alveg stillt mig um að minnast á einnig í lokin, að ég hefði unað því betur, að þarna hefði ekki aðeins verið um heimild til handa ráðh. að ræða til að hækka bæturnar, ef kaup hækkar, heldur hefði það verið skylda, en við það verður að sitja. En annars mun ég kannske minnast aðeins á þetta mál í samhengi við frv. til l. um almannatryggingar, því að mér sýnist, að með þeim l. sé að nokkru leyti verið að taka með annarri hendinni það, sem látið er með hinni. En það er önnur saga, sem ég ræði betur, þegar þar að kemur.