16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til þess að sameina í ein lög ákvæði um verzlun með og innflutning á áburði. L. um áburðarverksmiðju var breytt á s.l. ári, og er nú Áburðarverksmiðjan orðin ríkisfyrirtæki. Eigi að síður eru til lög um áburðareinkasölu ríkisins, og koma þar tveir aðilar við sögu hvor með sitt reikningshald, Áburðarsala ríkisins og Áburðarverksmiðja ríkisins. Áburðarverksmiðjan hefur hins vegar annazt rekstur Áburðarsölu ríkisins. Það þykir því eðlilegt að leggja lög um áburðareinkasölu ríkisins niður og fela Áburðarverksmiðjunni með lögum að sjá um allan innflutning og verzlun með áburð. Enda þótt nú sé verið að breyta Áburðarverksmiðju ríkisins þannig, að hún geti eftirleiðis framleitt tilbúinn áburð með ýmsu móti og miklu fjölbreyttari en hefur verið fram að þessu, þá verður ekki hjá því komizt að flytja inn áburðartegundir, sem ekki verða framleiddar hér, og efni í ýmsar áburðarblöndur. Efni frv. er eingöngu þetta að leggja niður þessi lög, sem eru frá 1935, um áburðareinkasöluna og fela Áburðarverksmiðjunni að annast það, sem Áburðarsölunni var ætlað að gera.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.