22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að mæla með samþykkt þessarar brtt. á þskj. 321 frá hv. 5. þm. Vesturl., sem var að ljúka máli sínu. Ég álít, að eitt alvarlegasta vandamál í nútímaatvinnurekstri sé einmitt þetta, hve löng leið virðist vera á milli stjórnendanna og annarra þeirra, sem vinna við fyrirtækin. Kannske er þessi leið þó oft og tíðum ekki jafnlöng og mönnum sýnist hún vera, en hún sýnist a.m.k. mörgum, sem starfa í stórum atvinnurekstri, ákaflega löng og torsótt. Ég tel, að hér sé um geigvænlegt vandamál að ræða, sem raunar er viðurkennt ekki síður í öðrum löndum, þar sem rekstur er víða enn þá stærri en he´r. vafalaust gilda um þetta hliðstæð lögmál alls staðar.

Ég álít að það væri mjög vel viðeigandi, að ríkið riði á vaðið í þessu efni og það væri einmitt lögfest að setja samstarfsnefndir á fót stærstu ríkisfyrirtækjum, eins og hv. þm. hefur stungið upp á , og þannig væri stefnan mótuð fyrir ríkisreksturinn og fordæmi gefið. Sjá svo til, hvort aðrir sigldu ekki í kjölfarið. Svo er þá einnig tryggt, að þá er byrjað að prófa þessa aðferð hér og hægt að sjá, hvaða árangur er af því verður. Ég mæli því fyrir mitt leyti eindregið með þessari till.

Mér sýnist hér vera um mjög mikið stórmál að ræða, og ég trúi því, að þetta sé leiðin til þess að koma á betri háttum í stórrekstrinum en enn þá hefur verið mögulegt. Leiðin er sú að auka samstarf þeirra, sem vinna, og þeirra, sem stjórna. Það má vera, að það verði ekki nákvæmlega þetta fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á, sem endanlega verður við haft, en mér sýnist sjálfsagt að reyna að fara nú þessa leið. Síðan mætti svo breyta fyrirkomulaginu eftir því, sem mönnum virtist reynslan gefa tilefni til.