27.10.1970
Efri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. gat þess, að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefði eflzt mjög, síðan hún var styrkt með því að leggja skatt á bændur og mótframlag úr ríkissjóði. Ég held, að þær tölur séu réttar, að á þessu árabili hafi stofnlánadeildin fengið 258 368 822 kr. í gegnum þessa nýju tekjuöflun, sem deildin fékk við stofnun 1962. Og deildin átti við síðustu áramót 124 835 735 kr., þannig að gengisbreytingarnar, sem hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum, hafa étið upp meira en helming af öllum tekjum deildarinnar. Svo vel hefur verið stjórnað þessum málum, að þeir sjóðir, sem áttu að myndast, hafa fljótlega étið sig upp sjálfir. Þetta er lítið dæmi um þá hluti.

Þá vil ég á það minna, að hæstv. ráðh. sagði það, að efnahagur bænda hefði aldrei verið blómlegri og landbúnaðurinn aldrei blómgazt meira en á þessu tímabili. Ég skal ekkert um það dæma. Að sjálfsögðu er margt, sem kemur þar til greina. En ég vil líka minna hann á annað, sem hefur aldrei skeð fyrr í sögu íslenzkrar bændastéttar, að efnahagurinn hefur verið það erfiður og slæmur, að það hefur tvívegis með örstuttu millibili orðið að grípa til þess að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, vegna þess að þeir voru fjárhagslega komnir í strand með þá lausaskuldabyrði, sem þeir höfðu á sínum herðum, og það enda þótt stofnlánadeildin ætti að þjóna þeim miklu betur í öllum fjárfestingarmálum en dæmi voru til um áður, að því er hæstv. ráðh. vildi vera láta á sínum tíma. Ég vil líka á það minna, að þó að það sé búið að breyta lausaskuldunum í föst lán tvívegis, þá er fjöldi bænda, sem ekki hefur fengið neina úrlausn samkv. þeim lagabreytingum og bíður þess að fá úrbætur nú. Ég skal játa það, að ég er ekki svo framsýnn, að ég geti sagt til um það, hvernig afkoma bænda verður eftir þau áföll, sem bændur hafa orðið fyrir af hálfu náttúruaflanna á undanförnum árum, en hæstv. ráðh. vildi vera láta, að afkoman væri mjög góð, en ég ætla, að það sé sannast í þessum málum, að það sé ekkert um það vitað. Við vitum það, að erfiðleikarnir eru miklir, og við vitum það, að skuldirnar hafa stóraukizt á þessu tímabili.

Ég ætla ekki að fara að ræða við hæstv. ráðh. um efnahag bænda nú og á árum vinstri stjórnarinnar, því að þar er að mörgu leyti ólíku saman að jafna, en hitt vil ég fullyrða, að þeir hafi þá jafnan borið meira úr býtum af því, sem vonir stóðu til, að þeir gætu fengið, heldur en þeir hafa fengið nú hin síðari ár. Það liggur alveg ljóst fyrir. Og það er síður en svo, að ég blygðist mín fyrir það að hafa stutt vinstri stjórnina, og ég hygg, að það geri enginn, sem hana hefur stutt. Og ég býst við, að hæstv. ráðh. eigi eftir að þreifa á því, að mikill hluti þjóðarinnar hugsi nú sem svo, að það væri til mikilla bóta að fá vinstri stjórnina á ný til að stjórna hjá því að sitja uppi áfram með þá óstjórn, sem hefur eyðilagt alla sjóði, sem fyrir voru í landinu og reynt hefur verið að mynda á undanförnum árum.