23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. hefur iðnn. þessarar hv. d. haft þetta frv. til athugunar. Jafnframt frv. sem er á þskj. 10 og komið frá hv. Ed., þá hefur n. haft til athugunar brtt. á þskj. 285, sem flutt var á sínum tíma af tveimur hv. þm., og brtt. á þskj. 323, sem flutt var af þrem þm. Það kom ekki glögglega fram í n., hver afstaða nm. var til þessara brtt., og hafa tveir nm., hv. 2. landsk. og hv. 4. þm. Reykv., áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Minni hl. leggur til, að brtt. á þskj. 323 verði samþ. og þar sem hér er um mjög verulegar breytingar að ræða og að nokkru leyti nýja stefnumörkun í raforkumálum, þá telur minni hl. rétt að gera grein fyrir þeim og þar með afstöðu sinni í sérstöku nál. og þetta nál., sem ég hef undirritað, er á þskj. 499. Ég tel rétt að geta þess, sem reyndar þskj.-númerin bera með sér, að brtt. á þskj. 285 var flutt fyrr á þinginu heldur en brtt. á þskj. 323, en inn í brtt. á þskj. 323 hefur af flm. þeirra, þegar þær voru fluttar, verið tekið meginefni brtt. á þskj. 285 varðandi húsahitun með raforku og varaleið í virkjunarframkvæmdunum, ef svo kynni að takast til, að ekki reyndist vera markaður fyrir orku frá stórvirkjun. Að þessu leyti, sem ég nú hef nefnt, þ.e.a.s. varðandi húsahitunina og varaleiðina, fjalla því brtt. á þskj. 285 og 323 að mestu leyti um sama efni. Hins vegar er á þskj. 323 um mun viðtækara efni að ræða en á þskj. 285 og mun ég víkja að því. Eins og áður hefur verið sagt, hafa 2 nm. af þeim, sem skrifað hafa undir nál. meiri hl., áskilið sér rétt til að greiða atkv. með brtt. og geri ég ráð fyrir, að þar sé átt við brtt., sem ég hef nefnt, því að aðrar brtt. eru ekki fram komnar í málinu.

Ég vil segja það í upphafi, að það kom mér nokkuð á óvart, þegar mér barst til eyrna í haust, að þá stæði til að flytja frv. um tvær nýjar stórvirkjanir á Þjórsársvæðinu, eftir að lokið væri Búrfellsvirkjun, en unnið er nú að síðari áfanga hennar. Þetta kom mér á óvart al tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég ætla, að það hafi verið á næsta þingi á undan þessu, sem málaleitan kom frá Landsvirkjun til Alþ., um að séð yrði fyrir markaði fyrir afgangsorku, sem hún taldi sig hafa á næstu árum og ekki geta gert verð úr. Það var orðið við þessari málaleitan og samþ. nokkur viðbót við álverksmiðjuna í Straumsvík og sú viðbót tekur til sín 20 þús. kw af framleiðslu Landsvirkjunar. Í öðru lagi kom mér þetta á óvart vegna þess, að þegar á sínum tíma voru sett lög um Búrfellsvirkjun og um álverksmiðju í Straumsvík, þá var það gefið í skyn af ráðamönnum hér á Alþ., að unnið myndi verða að því að næsta stórvirkjun, sem lagt yrði í, yrði á Norðurlandi, og á s.l. ári — ef ég man rétt — þá hafa einnig verið látin orð falla um það, að ég ætla af hálfu hæstv. raforkumálaráðh., að unnið væri að könnun möguleika á slíkri stórvirkjun fyrir norðan, og hefur, þegar rætt hefur verið um stórvirkjun á Norðurlandi, aðallega verið átt við Dettifossvirkjun.

Skömmu eftir þingbyrjun var þetta frv. lagt fram um breyt. á landsvirkjunarl., sem felur í sér heimild til þessara tveggja stórvirkjana á Þjórsársvæðinu, og er það þetta frv. á þskj. 10, sem er nú að vísu búið að vera nokkuð lengi á leiðinni í gegnum þ. og nú hér til 2. umr. Í þessu frv., sem fyrir liggur á þskj. 10, er lagt til, að Landsvirkjun verði veitt heimild til að reisa, að fengnu ráðherraleyfi, tvær stórvirkjanir í Tungnaá, aðra við Hrauneyjafoss, hina við Sigöldu, og að vatnsréttindi ríkisins á þessum stöðum verði afhent Landsvirkjun. Ennfremur er í frv. gert ráð fyrir nýrri ríkisábyrgð og nýjum ríkisframlögum til Landsvirkjunar til viðbótar þeirri fjárhagsaðstoð, sem þegar hefur verið veitt þessu fyrirtæki vegna Búrfellsvirkjunar.

Afl þessara tveggja stórvirkjana, sem hér er um að ræða, yrði samtals um 340 þús. kw og skal þess getið til samanburðar, að samanlagt afl virkjananna þriggja í Soginu og Búrfellsvirkjunar, þegar hún verður fullgerð, er rúmlega 300 þús. kw. Hinar áformuðu Tungnaárvirkjanir eru því mun stærri en Sogsvirkjun og Búrfellsvirkjun samtals verða.

Ekki er enn nein vissa fyrir því, að hægt sé að afla markaðar nema fyrir lítið brot af þeirri orku, sem hér er um að ræða, en gert er ráð fyrir því, að unnið verði að því, þegar heimild er fengin.

Ég er þeirrar skoðunar, að við þá markaðsathugun eigi það að sitja í fyrirrúmi að gera sér grein fyrir möguleikum til að nota raforku til húsahitunar, bæði í þéttbýli og strjálbýli, og stuðla að því, að húsahitun með raforku verði tekin upp sem víðast, ef hagkvæmt reynist. Þetta er annað atriðið, sem fólst í till. á þskj. 285 og hefur verið tekið inn í brtt. á þskj. 323. En takist ekki að finna leið til að nýta orku frá slíkri stórvirkjun á viðunandi hátt, þá tel ég að gera eigi ráð fyrir minni virkjunum til að fullnægja hinni almennu eftirspurn, þegar þess gerist þörf, en hin almenna notkunaraukning hér á Suðvesturlandi mun hafa verið um 4% á árunum 1969 og 1970, eftir því sem upplýst var í n., sem fjallaði um þetta mál og þar sem þeir komu til viðtals formaður og framkvæmdastjóri Landsvirkjunar. Þetta atriði, varaleið í virkjunarmálinu, ef ekki væri nægur markaður fyrir orku frá stórvirkjun, var einnig í till. á þskj. 285 og síðar tekið upp í till. á þskj. 323.

Verði að því ráði hnigið að veita virkjunarfyrirtækinu Landsvirkjun heimild til að halda áfram stórvirkjun fallvatna, eftir að Búrfellsvirkjun er lokið, er það mín skoðun sem minni hl., að slíkar heimildir eigi ekki að binda við einn landshluta, heldur eigi að framkvæma virkjanir með tilliti til jafnvægis milli landshlutanna og annarra ástæðna, sem ég kem að nú á eftir. Þess vegna er ég því fylgjandi, að sunnan fjalla verði heimilað að virkja Tungnaá við Hrauneyjafoss eða Sigöldu, þ.e.a.s. eina virkjun þar, og að norðan fjalla verði heimilað að virkja Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss eða Skjálfandafljót við Íshólsvatn og það sé svo á valdi virkjunaraðila og ráðh. að velja á milli þessara heimilda í hvorum landshluta að nánar athuguðu máli, en virkjunarheimildin í heild mundi litið breytast frá því sem er í frv. við samþykkt þessara breytinga.

Minni hl. telur það einnig mikilsvert, bæði af öryggisástæðum og til þess að orkan nýtist sem bezt, að tengja saman með aðalorkuveitu, ef fært reynist, raforkukerfin á Suðurlandi og austanverðu Norðurlandi, en sennilega yrði linan, sem hér er um að ræða, rúml. 200 km löng og lögð um hálendið milli landshlutanna. Og þar sem talað er um öryggisástæður, að þetta sé æskilegt af öryggisástæðum, þá liggur það að sjálfsögðu ljóst fyrir, að vegna ýmsra atburða, sem orðið geta í náttúrunni, þá er það öruggara, að nokkur hluti hinna stóru virkjana sé hér sunnanlands, en einnig fyrir norðan, og þarf ég ekki að fara nánar út í það. Mér þykir eðlilegt, og það felst í brtt. á þskj. 323 í 4. tölulið, að til þess verði ætlazt af Landsvirkjun, um leið og hún fær heimildir til nýrra stórframkvæmda og fjárhagslega fyrirgreiðslu, sem því svarar, að hún annist á sinn kostnað þessa samtengingu raforkukerfanna, þegar stjórnvöld telja það heppilegt, og þá jafnframt að selja orku frá aðalorkuveitum sínum á sama verði norðanlands og sunnan, yfirleitt hvar sem þessar aðalraforkuveitur Landsvirkjunar kunna að verða, enda skiptir það miklu máli, að tryggt sé að svo verði. Ef þessi kvöð yrði lögð á Landsvirkjun eða Landsvirkjun með ráðherraákvörðun gert að tengja þannig saman raforkukerfin norðanlands og sunnan, þá yrði sjálfsagt að auka fyrirgreiðslu í þágu Landsvirkjunar sem þessu nemur, og er hér lagt til, að svo verði gert. En það er ágizkun fróðra manna, — og á ég þá við þá, sem komu til viðtals við iðnn., — að 200 km lína eða rúml. það yfir hálendið kosti ca. 250 millj. kr. með 50 þús. kw flutningsgetu og með 100 kw flutningsgetu ca. 50% meira. Ég segi ágizkun, því að þessir menn létu það í ljós, að þeim þætti þetta líklegt, en áætlun mun ekki hafa verið gerð um þetta efni enn þá, þó að vissulega hafi oft verið um þetta rætt, og var m.a. nokkuð um það rætt í sambandi við umr. um álverksmiðjuna á sínum tíma 1966 og raunar einnig á árinu 1965. Þá var töluvert rætt um þessa hugmynd að leggja línu yfir hálendið, og var þá haft í huga að leggja hana að sunnan frá Búrfellsvirkjun, því ýmsum sýndist að þá kæmi til greina, að álverksmiðjan, sem þá var fyrirhuguð, yrði á Norðurlandi, og þá lina lögð norður, en auðvitað er það svo, að sé hægt að flytja orkuna að sunnan og norður um háspennulinu yfir hálendið, þá er eins hægt að flytja hana að norðan og suður, t.d. frá Dettifossvirkjun, ef þannig stæði á, að þörf væri fyrir rafmagn á Suðurlandi, en meiri raforkuframleiðsla fyrir norðan en markaður væri fyrir þar. Það er að vísu hugsanlegt, að hentugra þyki fyrir norðlenzka virkjun, að annar virkjunaraðili hefði með höndum stórvirkjun þar, þegar þar að kemur, og er í till. á þskj. 323 tekið tillit til þess.

Ég vil þessu næst fara nokkrum orðum um virkjunarfyrirtækið Landsvirkjun og þær till., sem varða þetta fyrirtæki og uppbyggingu þess, og um söluverð raforku í landinu. Eins og nú standa sakir framleiðir virkjunarfyrirtækið Landsvirkjun raforku, sem eingöngu er notuð á Suður- og Suðvesturlandi. Ríkið á helming í fyrirtækinu og Reykjavíkurborg hinn helminginn, eins og áður í Sogsvirkjun, — þ.e.a.s. í Sogsvirkjun voru líka helmingaskipti, þannig að Reykjavíkurborg átti helminginn og ríkið hinn helminginn, en í öndverðu var fyrsta virkjun Sogsins eign Reykjavíkur. Þetta fyrirkomulag á Sogsvirkjun að því er eignarhald varðar var svo yfirfært á Landsvirkjun, þegar l. um hana voru sett. Og hingað til hefur það verið svo, eins og ég sagði, að raforkan frá Landsvirkjun hefur eingöngu verið notuð hér á Suður- og Suðvesturlandi. En ef þetta fyrirtæki — Landsvirkjun — á að bera nafn með réttu, verður að steina að því, að allt landið geti notið góðs af starfsemi þess, eftir því sem henta þykir og þörf er á, og að það verði þá annaðhvort ríkiseign eða sameign ríkisins og þeirra sveitar- og sýslufélaga, sem kunna að vilja gerast aðilar að því á sínum tíma. Í brtt. á þskj. 323 er þó ekki gert ráð fyrir, að slík skipulagsbreyting verði leidd í l. að svo stöddu, enda skortir undirbúning til þess, en lagt er til, að Alþ. það, er nú situr, ef það samþ. þetta frv. sem l., kjósi mþn. til að endurskoða gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu raforku hér á landi, sér í lagi landsvirkjunarlögin, með það sjónarmið fyrir augum, sem ég hef hér nú nefnt. Jafnframt er í þessari till., sem er í 4. tölul. á þskj. 323, b-lið hennar, gert ráð fyrir því, að mþn. sem hér er gerð till. um, geri till. um þá leið, er hún telur heppilegasta, til að koma því í kring, að raforka til sams konar nota verði seld á sama verði um land allt. En það verður að teljast réttlætismál og til þess fallið að stuðla að jákvæðri þróun landsbyggðar, að þjóðin öll sitji við sama borð í þessum efnum, eftir því sem við verður komið, þegar rafvæðingu landsins er lokið. En því meiri, sem framtíðarnotkun á raforku verður, meiri virkjanir og meiri notkun, því hagkvæmari, sem virkjanirnar verða og rekstur rafveitanna, því auðveldara á að vera að ná þessu marki. Ég man eftir því, að ég átti tal um þessi mál, líklega fyrir 20 árum, við einn af leiðandi mönnum í raforkumálum Reykjavíkur. Ég var að leita hjá honum upplýsinga varðandi mál, sem ég hafði til meðferðar, og þá sagði hann einmitt þetta: Jöfnun raforkuverðs er ekki möguleg eins og nú standa sakir, en að þessu tel ég að eigi að stefna, og þetta er tiltölulega auðvelt, þegar búið er að virkja verulegan hluta af fallvötnum landsins. Og það er þetta, sem ég var í raun og veru að endurtaka. En það að selja raforku til sömu nota á sama verði um allt land, væri ekki neitt einsdæmi í veröldinni. Aðrar þjóðir hafa þegar farið inn á þessa leið, t.d. er það svo í Bretlandi, eftir því sem mér er tjáð af sérfróðum mönnum hér, að þar er raforka til sömu nota alls staðar seld á sama verði, og svo mun vera í fleiri löndum. Það verður líka að segja, að þar sem mestum hluta allra raforkuvera hér á landi hefur verið og er komið upp með atbeina þjóðfélagsins í heild og á ábyrgð þess, og að því ógleymdu, að strjálbýlissvæðin, sem nú kaupa raforkuna á dýrustu verði, leggja til fallvötnin, sem eru undirstaða raforkuframleiðslunnar, þá verður það að teljast sanngjarnt, að allir njóti hér á komandi tímum góðs af, án þess að um mismun verði þá að ræða eftir búsetu.

Ég nefndi áðan till. um varaleiðir í þessu máli. Í till. þeim á þskj. 323, sem minni hl. mælir með, þ.e.a.s. í 4. tölulið 2. málsgr., er gert ráð fyrir, að svo geti farið, að ekki lánist í tæka tíð, eins og það er orðað í brtt., „að tryggja eðlilegt samhengi milli orkuframleiðslu frá stórvirkjunum og orkunotkunar,“ þ.e.a.s. að ekki verði til staðar nægilegur markaður fyrir raforku frá stórvirkjunum. En fari svo, þá er minni hl. því meðmæltur, eins og lagt er til í hvorum tveggja brtt. á þskj. 285 og 323, að heimilað verði að reisa vegna Suðvesturlands allt að 30 þús. kw orkuver í Brúará við Efstadal. Þessir virkjunarmöguleikar í Brúará við Efstadal voru á sínum tíma allmikið athugaðir og þá voru gerðar skýrslur um þá, og hér er átt við það, að það kæmi þá til greina að fullnægja til bráðabirgða hinni almennu raforkuþörf á Suðvesturlandi með þessari 30 MW virkjun í Brúará. En jafnframt mælir minni hl. með því til samræmis, af því við höfum huga á virkjunum jöfnum höndum norðanlands og sunnan, að tilsvarandi heimild verði veitt á Norðurlandi austanverðu, en þó því aðeins, að bæjarstjórnir og sýslunefndir á orkuveitusvæði Laxár óski þess, það er að segja, að það fari ekki í bága við þeirra fyrirætlanir eða framkvæmdir, þannig að reist verði allt að 10 MW jarðgufuorkuver í Mývatnssveit, ef þess væri þörf. Í Mývatnssveit hefur þegar verið reist tiltölulega lítið jarðgufuorkuver við borholu, þ.e. 21/2 MW eða 2500 kw eða því sem næst, sem komið var upp af vanefnum og nýtir tiltölulega lítinn hluta jarðgufunnar. Vélarnar til að framleiða raforkuna þarna voru keyptar notaðar frá Bretlandi, að ég ætla, og við orkuframleiðsluna er ekki notuð hagstæð aðferð. Til munu vera aðrar og betri aðferðir til að nýta jarðgufuna til raforkuframleiðslu, og væri út af fyrir sig æskilegt, að orkuframleiðsla með þeim aðferðum yrði hafin í tilraunaskyni, ef um semst nú eða síðar, þó engu skuli hér um það spáð, hve hagkvæm hún reynist samanborið við vatnsaflsvirkjanir, en vitað er, að í sumum löndum, t.d. á Ítalíu, hafa verið reist allstór jarðgufuorkuver með góðum árangrí, eftir því sem sérfróðir menn í raforkumálum hafa tjáð mér. Ég vil taka það fram, að með þessum till. um minni orkuver á Suðurlandi og Norðurlandi, þá er ekki verið að bregða fæti fyrir það, að heimild fáist til nánar tilgreindra stórvirkjana, en það verður að vera nokkurt samræmi milli virkjunarframkvæmda annars vegar og orkumarkaðarins hins vegar. Eins og sakir standa og ég gat um í upphafi, þá liggur ekki neitt fyrir um það nú á þessu stigi, að markaður sé í landinu fyrir svo mikla orku, sem hér er um að ræða að framleiða. Þess vegna eru þessar till. fram settar og af minni hálfu sem minni hl. mælt með þeim, af því að það er að sjálfsögðu svo, að þannig getur farið áður en langt liður, að einhverju þurfi að auka við þá raforkuframleiðslu, sem nú er, vegna hins almenna markaðar.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum brtt. við frv. á þskj. 323, sem að nokkru leyti, eins og ég sagði, eru um sama efni og á þskj. 285. Með afstöðu minni hl. til þessara tillagna er með því mælt, að stefnt sé að frambúðarlausn virkjunarmála norðan lands og sunnan og raunar landsins í heild og jafnrétti landsmanna á sviði raforkumála. Og verði þessar till. samþ. vil ég sem minni hl. n. mæla með því, að frv. nái fram að ganga.