30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa frv. og sömuleiðis í sambandi við frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda gat ég þess, að þau útgjöld, sem bændastéttin tekur á sig með greiðslu í Lífeyrissjóðinn, mundu nokkuð erfið bændum, nema því aðeins að hægt væri um leið að létta af þeim öðrum gjöldum samhliða því, sem þeir taka að fullu þátt í lífeyrissjóðsgreiðslunum. Hv. 5. þm. Sunnl. hefur gert grein fyrir því frv., sem hér liggur fyrir, og vil ég aðeins gera grein fyrir þeim brtt., sem liggja fyrir á þskj. 197 og fluttar eru af hv. 2. þm. Austf. ásamt mér.

Það er gert ráð fyrir því í frv. um Lífeyrissjóð bænda, að bændur greiði 4% af grundvallarlaunum í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara haustið á undan strax í ársbyrjun 1974. En í frv. þessu um breyting á stofnlánadeildarlögum með meira er svo ráð fyrir gert að fella stofnlánadeildargjaldið niður í fjórum áföngum og aðeins að 1/4 hluta til í hvert sinn, þ. e. á 5 árum. Brtt., sem eru á þskj. 197, eru í aðalatriðum þær, sem mþn. Búnaðarþings lagði til, að yrðu gerðar samhliða því, sem lífeyrissjóðsfrv. öðlaðist gildi. Og þær eru um það að fella niður strax og bændur greiða fullt í Lífeyrissjóðinn að hálfu leyti það gjald, sem þeir borga í Stofnlánadeild landbúnaðarins, og síðan verði það, sem eftir stendur, fellt niður í tveimur áföngum, þ. e. árið 1980, og svo að lokum 1986, þannig að gjaldið fellur allt niður samtímis því, sem skylda stofnlánadeildarinnar fellur niður til að inna af hendi ásamt ríkissjóði vissar greiðslur, sem ákveðnar eru í 17. og 18. gr. frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda, en þar fá þeir bændur, sem nú eru orðnir sjötugir og verða það á næstu árum, sinn lífeyri greiddan. Þessi skylda fellur algerlega niður 1986, og mér sýnist því, að það sé fullt samræmi á milli þess að fella niður það gjald, sem bændur greiða til stofnlánadeildarinnar, um leið og stofnlánadeildin hefur engum skyldum að sinna lengur við Lífeyrissjóð bænda.

Ef brtt. á þskj. 197 verða samþykktar, þá efast ég ekki um það, að bændum veitist miklu léttara en ella að efla Lífeyrissjóðinn og það kemur miklu minna við þá fjárhagslega á næstu árum, því að næstu 2–3 árin, eftir að bændur greiða fullt í Lífeyrissjóð, verða þeim mjög erfið, ef frv. verður samþ. óbreytt, eins og hv. 5. þm. Sunnl. lagði mikla áherzlu á. En til þess að Stofnlánadeild landbúnaðarins hafi ekki minni tekjur en frv. gerir ráð fyrir, þá leggjum við hv. 2. þm. Austf. til, að framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins haldist óbreytt, eins og verið hefur, þ. e. 1% af brúttóverðmæti landbúnaðarvara á ári hverju. Og þessar till., sem við flytjum hér, eru til samræmis við það, sem mþn. Búnaðarþings lagði til, er hún samdi þessi frv., sem við höfum fjallað um, þ. e. um Lífeyrissjóðinn og breytingar á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, þannig að ég held, að takist að halda framlagi ríkissjóðs, þurfi engu að kvíða varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins, þ. e. að hún hefur jafntryggan fjárhag eftir sem áður. Og ég sé heldur ekki, að það sé nein sérstök ástæða til þess fyrir ríkissjóð að draga sínar greiðslur til baka nú vegna stofnlánadeildarinnar frekar en verið hefur, af því að mér skilst, að hans fjárhagur sé ekkert lakari en oft áður og þar af leiðandi ætti hann ekki að þurfa neitt að sjá eftir því að styrkja stofnlánadeildina nokkuð a. m. k. næstu árin.

Og ég legg á það ríka áherzlu af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt, bæði vegna fjárhags bænda og þess samræmis, sem er á milli stofnlánadeildarfrv. og frv. til l. um Lífeyrissjóð, að till. á þskj. 197 verði samþykktar, því að á þann hátt tel ég, að við getum með góðri samvizku staðið að myndun Lífeyrissjóðs fyrir bændur og gert það á þann hátt, að það komi minna fjárhagslega við bændastéttina en annars mundi verða, og á hinn bóginn, að því er varðar framlag ríkissjóðs til stofnlánadeildarinnar, þá skiptir það litlu fyrir ríkið, því að hér er ekki um ný útgjöld að ræða. En till. okkar hv. 2. þm. Austf. og mín miðar í þá átt að hver haldi sínu fyrst í stað og ég vænti því, að hv. þm. samþykki þær brtt. Eins og hv. 5. þm. Sunnl. gat um, þá eru nm. óbundnir af því að flytja og fylgja brtt., og ég vænti því, að þeir sjái sér fært að fylgja þeim brtt., sem fyrir liggja, til þess að aðlögunartíminn, fyrir bændur og stofnlánadeildina, verði í samræmi hvort við annað.