05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þá brtt., sem ég hef flutt ásamt 2 öðrum hv. þm., hv. 4. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir henni. En út af þeim umr., sem hér hafa farið fram um lánamál landbúnaðarins, þá langar mig til þess að segja örfá orð. Það hefur verið rætt um veðdeildina og það er viðurkennt, að það er fyrirsjáanleg vöntun á fjármagni þar. Ég vil mjög taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að það er alveg óviðunandi að þurfa ár eftir ár að binda sig við sömu lánsupphæð í veðdeildarlánunum, 200 þús. kr. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi. Þessi lán eru veitt til þess að greiða fyrir eigendaskiptum á jörðum, og ef maður ber þetta saman við þá fyrirgreiðslu, sem innt er af höndum, t.d. þegar bátar ganga kaupum og sölum, þá er þar ólíku saman að jafna. Þetta er vitanlega alveg óviðunandi og verður með einhverjum hætti að ráða bót á þessu. Hér hefur líka verið rætt um aðstöðu stofnlánadeildarinnar, og það hefur verið skýrt frá því, að það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að útvega henni svona og svona mikið fé. En það kemur hins vegar ekkert fram af hálfu ræðumanna um það, að fyrirhugaðar séu breytingar á útlánaháttum stofnlánadeildarinnar, en þeir eru einnig að ýmsu leyti algerlega óviðunandi. Í sumum tilfellum má lána allt að 66% al stofnkostnaði. En ég hygg, að mötin, sem bankinn lætur framkvæma, að þeim sé oft hagrætt þannig, að það sé ekki raunverulega lánaður þessi hundraðshluti af raunverulegum stofnkostnaði. Það má þó kannske deila um það. En hvað sem því líður þá er það annað atriði, sem ég vil alveg sérstaklega víkja að og átelja, en það er skipting lánanna eins og hún hefur verið framkvæmd. Það hefur verið tekin upp sú regla í seinni tíð að lána aðeins út á eina framkvæmd. Það þýðir, að maður, sem byggir fjós og hlöðu, fær lánað aðeins út á annað af þessu tvennu og ég held jafnvel, að það sé lánað út á fjós en ekki áburðarkjallarann undir fjósinu, — ég held að það sé jafnvel líka til í dæminu. Þetta er náttúrlega algerlega óviðunandi og það er alveg fráleitt að hugsa sér það, að bóndi geti byggt fjós og haft not af því, án þess að tengja það hlöðunni, og í mörgum tilfellum er ekki um annað að ræða heldur en að byggja þetta hvort tveggja í einu af hagkvæmnisástæðum. Og ef þetta er borið saman við þá fyrirgreiðslu, sem t.d. sjávarútvegurinn nýtur í sambandi við nýbyggingu fiskiskipa, þá er þar mjög ólíku saman að jafna. Það hefur til margra ára verið lánað 75% úr Fiskveiðasjóði til nýbyggingar fiskiskipa og síðan hafa komið til ýmsir aðrir opinberir sjóðir, þannig að þessi lán, sem þannig er hægt að fá, hafa komizt upp í 90%. Og í sambandi við vissa hluti í endurnýjun veiðiskipanna, þá er veitt 80 og upp í 90% ríkisábyrgð í sumum tilfellum. Hér er gerólíku saman að jafna, þessu og þeirri fyrirgreiðslu, sem veitt er í stofnlánadeildinni til „nýbygginga“ í sveitum landsins. Hvað ætli útgerðarmenn og sjómenn segðu um það að fá lán til bátsins eitt árið og svo vélina á næsta ári? Ég held, að það þætti eitthvað skrýtið og kæmi auðvitað ekki til greina að afgreiða þau mál þannig. En þetta er nánast hliðstætt því að ætlast til þess, að bóndi byggi hlöðu eitt árið og svo grípahúsið á næsta ári eða öfugt, því að hvort fyrir sig er ónothæft, án þess að hitt fylgi með. Ég vil þess vegna mjög taka undir það, sem hér hefur komið fram frá hv. 5. þm. Norðurl. e., að þessi aðstaða, sem landbúnaðinum er búin í gegnum stofnlánin, er alveg óviðunandi að þessu leyti. Þá er það lánstíminn, það er alveg fráleitt að hugsa sér, að í atvinnuvegi eins og landbúnaði, þar sem aldrei er um skyndigróða að ræða, sé hægt að ætlast til þess, að mannvirki, sem geta staðið í áratugi, greiðist á 15–20 árum. Þetta er alveg fráleitt og bætir ekki úr skák, þegar lánin eru þar að auki með háum vöxtum. Ég vildi ekki láta hjá líða að taka undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram á þessum þáttum, þó ég að öðru leyti blandi mér ekki inn í þær umr., sem hér hafa farið fram.