18.03.1971
Efri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. til l. um utanríkisþjónustu Íslands, sem hér er til umr., er ætlað að leysa af hólmi gildandi l. um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis, sem sett voru á árunum 1940–1941, fyrst sem brbl. og síðan sem almenn l., eftir að Íslendingar þurftu með óvæntum hætti, vegna styrjaldaraðgerða í Evrópu, að taka meðferð utanríkismála í sínar hendur nokkru fyrr en stefnt var að. Það gefur augaleið, að þessi 30 ára gamla löggjöf um utanríkismálefni hentar okkur ekki lengur, svo mjög sem alþjóðleg samskipti hafa aukizt og breytzt á árunum eftir heimsstyrjöldina síðari, enda hefur utanríkisþjónusta okkar nú miklu fleiri verkefnum að sinna heldur en í upphafi.

Breytingarnar, sem í frv. þessu felast miðað við lögin frá 1941, eru einkum þessar: Hlutverk utanríkisþjónustunnar er skilgreint og taldar upp stofnanir, sem undir utanríkisþjónustuna heyra. Settar eru reglur um forstöðumenn fastanefnda hjá alþjóðastofnunum, fastir starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru greindir í flokka. Heimilt er að ráða menn í utanríkisþjónustuna til að gegna sérstökum fulltrúastörfum tiltekinn tíma, svo sem blaðafulltrúa og menningarfulltrúa, svo og viðskiptafulltrúa, sem vinna skulu að markaðsleit fyrir íslenzkar afurðir og auknum viðskiptum við aðrar þjóðir.

Þá eru í frv. reglur um sérstakt eftirlit með sendiráðum og ræðisskrifstofum og ákvæði um aðkallandi hlunnindi fyrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar. Sum þessara laganýmæla eru í rauninni ekki ný af nálinni, heldur hefur þeim verið beitt í framkvæmd um alllangt skeið, en nú er meiningin að lögfesta þau.

Undanfari þessa frv. er frv. svipað að efni til, er lagt var fyrir Nd. á síðasta þ., en dagaði þá uppi. Fyrir þeim breytingum, er gerðar voru á fyrra frv. og felast í þessu nýja frv., gerði hæstv. utanrrh. grein við 1. umr. málsins. En fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka hafa á undirbúningsstigi fjallað um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og haft áhrif á endanlega gerð þess.

Þó þetta frv. verði samþykkt, sem vonir standa til, er ljóst, að áfram standa í gildi önnur lagaákvæði, er varða utanríkismál og utanríkisþjónustu. Þar má einkum til nefna annars vegar ákvæði l. um þingsköp Alþ. um utanrmn., en þar segir, að til utanrmn. skuli visað utanríkismálum. Segir þar enn fremur, að utanrmn. starfi milli þinga og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga. Þá má nefna lög um Stjórnarráð Íslands, þar er svo kveðið á, að hvert rn. skuli óskipt lagt til eins og sama ráðh. og gildir það sjálfsagt um utanrrn. eins og önnur rn. Ennfremur segir í l. um Stjórnarráð Íslands, að stjórnarmálefni heyri undir rn. eftir ákvæðum reglugerðar, sem forseti Íslands setur samkvæmt tillögu forsrh. Nú fara utanrrn. og viðskmrn. með nokkuð skylda málaflokka, eins og fram hefur komið, og ber þá að kveða á um það með reglugerðarákvæði, hvað undir hvort rn. heyrir.

Þessu frv. var vísað til allshn. N. kvaddi á sinn fund ráðuneytisstjórann í utanrrn., ræddi ýtarlega við hann um ákvæði frv. og fékk hjá honum ýmiss konar skýringar og upplýsingar. N. litur svo á, að frv. þetta fjalli fyrst og fremst um stofnanir, hlutverk og skipulag utanríkisþjónustunnar og embættismenn hennar, eða m.ö.o. um framkvæmdahlið utanríkismálanna. Um mörkun stefnu í utanríkismálum fjallar þetta frv. hins vegar ekki, enda verður utanríkismálastefna okkar að öðru jöfnu ekki ákveðin með lagasetningu. Þeir aðilar, sem marka stefnuna, eru að sjálfsögðu Alþ., utanrmn., ríkisstj. og utanrrh. Með þetta í huga þá varð allshn. sammála um það að flytja eina brtt. við frv., og er það breyting við 1. málsgr. 3. gr., en í þeirri málsgr. segir, að yfirstjórn utanríkismálanna sé í höndum utanrrn. Þarna leggur n. til, að í staðinn komi yfirstjórn utanríkisþjónustunnar. N. leit svo á, að orðið „utanríkismál“ væri of víðtækt og mætti í raun og veru skilja það í aðra röndina þannig, að það gæti heyrt undir mörkun stefnunnar í utanríkismálum, en að sjálfsögðu koma þar aðrir og fleiri aðilar til heldur en rn., þ.e.a.s. Alþ., utanrmn. og ríkisstj. Nefndin leggur því til, að í stað „utanríkismálanna“ komi: utanríkisþjónustunnar og telur nefndin það orðalag vera í öllu betra samræmi við efni og anda frv. eins og það liggur fyrir hv. Alþ.

Um þetta var n. sammála og hún var jafnframt sammála um það að mæla með því, að frv. verði samþ. með þessari tilteknu breytingu, en einstakir nefndarmenn áskilja sér þó rétt til þess að flytja brtt. við frv. og að styðja aðrar brtt., ef fram kynnu að koma.