10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

128. mál, eyðing refa og minka

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Mér virðist, að hv. frsm. minni hl. hafi ekki skilið alveg rétt það, sem ég sagði hér áðan, þar sem ég talaði um það, að ég væri efins í því, að það væri ráðlegt að breyta um skipan þessara mála í flýti lítið undirbúið. Ég sagði, að þetta væri ekki verulegt fjárhagslegt atriði, en hitt er aftur skipulagsatriði á þessum málum, ef minkaveiðarnar verða aðgreindar frá refaveiðunum, teknar úr höndum sveitarstjórnanna og settar að öllu leyti yfir á ríkið. Ég sagði einnig, að sú skipan gæti vel verið réttlætanleg, en það yrði bara að undirbúa það mál betur en enn hefði verið gert. Það er þannig, að allar sveitarstjórnir eru í vandræðum með að fá menn til þess að vinna að þessum verkefnum og mundu að sjálfsögðu verða lifandi fegnar, ef þær gætu losnað frá þeim — meira fyrir það en það, hvað þetta eru mikil útgjöld fyrir þau. Og ég hef verið að velta þessum málum fyrir mér og lit svo á, að það gæti vel verið skynsamlegt að taka minkamálin alveg sérstaklega fyrir og skipta landinu niður í svæði, setja t.d. einn mann á hvert svæði undir yfirstjórn veiðistjóra með það fyrir augum, að unnið verði betur að þessum málum en hingað til hefur verið gert.

Hins vegar vil ég segja það, að margar sveitarstjórnir hafa unnið mjög vel að þessum málum og lagt sig allar fram til þess að sinna þessu sem allra bezt, en því miður er það ekki alls staðar. Og það eina, sem ég átti við, þegar ég sagði, að það gæti e.t.v. sett afgreiðslu þessa máls í tvísýnu, var það, að farið yrði að samþykkja hér till., sem gengur í þá átt að breyta þessu með eins litlum undirbúningi og enn hefur átt sér stað. Það hefur ekki farið fram undirbúningur á skipulagsbreytingu á þessu, og það frv., sem hér hefur verið kastað fram, er aðeins til þess að færa tölur nokkuð til samræmis við það, sem áður var, þegar lögin voru upphaflega sett. Þau eru orðin um 13 ára gömul og hafa eftir atvikum reynzt heldur vel, og ef á að gera verulegar breytingar, held ég, að væri réttara að undirbúa þær betur og taka þá kannske minkaveiðarnar algerlega út úr — ekki sízt, ef svo skyldi nú fara, eins og raunar virðist ætla að verða, að vel geti komið fyrir, að minkar sleppi aftur úr haldi, þegar farið er að rækta þá hér í landi. Við höfum þegar eitt dæmi hér heima fyrir, og vel gæti það komið fyrir, að einhver minkabúin hér á Íslandi fykju á haf út, eins og gerðist í Noregi núna fyrir fáum dögum, og heilir hópar af þessum kvikindum slyppu út. Ég hef svo ekki meira um þetta að segja.

Ég geri það ekki að neinu aðalatriði, hvort þær tölur, sem ég og þeir, sem með mér fluttu þetta frv., lögðu til, að lögfestar yrðu, eða hinar tölurnar verða samþ. Það skiptir engu höfuðmáli, að því er kostnað snertir, hvorki fyrir sveitarfélögin né ríkissjóð, og það, sem fyrir mér vakir fyrst og fremst, er það að koma fram breytingum á þessum tölum nú á þessu þingi og láta þetta frv. ekki stranda í meðförum þingsins, áður en því lýkur nú eftir stuttan tíma. g legg ekki svo ýkja mikið upp úr því, hvorar tölurnar verða staðfestar. Veiðistjóri hefur hallazt að því, að við hæfi væru þær 700 kr., sem lagt er til að greiða í því frv., sem ég stend að, en ekki 800 kr. eins og í hinu frv. Þetta eru ekki aðalatriðin og skiptir miklu minna máli um það, sem viðkemur hlauparefunum, en umfram allt verðum við að hækka tölur á þessu stigi málsins til þess, að ekki verði brögð að því, að undan dragist að vinna að eyðingu minkanna nú á þessu ári.