17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það málefni, sem hér er verið að fjalla um, er eitt af þeim stærri málum, sem rætt er um í heiminum. Það er æðilangt, síðan hinar betur megandi þjóðir, svokölluðu iðnvæddu þjóðir, hafa lýst því yfir, að þeim bæri siðferðileg skylda til þess að reyna að stuðla að því í verki að hjálpa þeim þjóðum, sem nefndar hafa verið þróunarlöndin, til þess að komast eitthvað áfram á þeirri braut að iðnvæðast og bæta lífskjör fólksins, sem í þessum Íöndum býr. Og þessu hefur verið fylgt eftir að nokkru leyti með því, eins og hér hefur verið getið um, að á þingum Sameinuðu þjóðanna eða undirstofnana Sameinuðu þjóðanna hafa verið samþykktar stefnuyfirlýsingar um þetta atriði m.a. um það, að skorað hefur verið á aðildarlönd Sameinuðu þjóðanna að veita aðstoð til þróunarlanda, er mundi ná 1% af þjóðartekjum. Nú þegar eru mörg lönd komin nokkuð vel áleiðis að ná þessu setta og yfirlýsta marki. Ég minnist þess ekki, að íslenzka ríkið hafi veitt fé úr ríkissjóði í þessu skyni. Hins vegar munu hafa verið hér á landi nokkrum sinnum fjársafnanir, sem einstaklingar og félög hafa beitt sér fyrir til þess að vinna að þessu verkefni, en að ríkið sjálft hafi lagt til fjármagn til þeirra, er mér ókunnugt um.

Þrátt fyrir þessa aðstoð til þróunarlandanna hefur sú þróun þó verið í gangi, að bilið í milli lífskjara fólksins, sem í þeim löndum býr og í iðnvæddu löndunum, hefur stöðugt verið að breikka. Og þetta hefur verið að gerast fyrst og fremst á þann hátt, að verðlagið á aðalútflutningsvörum þróunarlandanna, sem eru hráefni, hafa sífellt verið að lækka hlutfallslega miðað við verðlagið á iðnaðarvörunum, sem iðnvæddu löndin hafa verið að framleiða og þróunarlöndin verða að kaupa til þess að reyna að byggja upp hjá sér iðnað í eigin löndum til þess að bæta lífskjör fólksins þar. Þannig má segja, og það er ekkert leyndarmál, þó að það sé sagt, að hinar sterku iðnvæddu þjóðir hafa notað sitt mikla vald til þess að halda verðlagi á hráefnisframleiðslu þróunarlandanna niðri. Og þó að iðnvæddar þjóðir hafi veitt nokkurt fé á undanförnum árum til þess að aðstoða þróunarlöndin, þá hefur það ekki í reyndinni verið nema lítill hluti þess fjármagns, sem náð hefur verið frá þróunarlöndunum með þeirri verðlagsþróun á hráefnisvörum og iðnaðarvörum, sem ég var hér lítillega að lýsa. Við Íslendingar eða fulltrúar okkar á þingum Sameinuðu þjóðanna eða þeirra nefnda, sem rætt hafa þessi mál, hafa a.m.k. ekki mótmælt því, að Ísland mundi vilja verá með í því starfi að aðstoða þróunarlöndin með fjárframlögum. Ég veit ekki, hvort þeir hafa beint greitt slíkum till. atkv., en hvergi hef ég séð það eða heyrt um það getið, að þeir hafi mælt á móti því. En samt er það svo, að við íslendingar munum vera ein af þeim örfáu þjóðum á vesturhveli jarðar, sem ekki erum orðnir í reynd þátttakendur í þessari þróunaraðstoð.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er ekki mjög margbrotið, og það kemur e.t.v. úr nokkuð skrítinni átt, þegar ég segi, að það sé, eins og það er núna, harla lítils virði. Ég segi, að það komi úr einkennilegri átt, að ég skuli segja þetta, því að ég hef verið tvívegis á undanförnum árum flm. að frv., sem mjög líkist því frv., sem hér er flutt. En ef við meinum eitthvað Íslendingar með því, að við viljum gera eitthvað í þessum efnum, þá skulum við gera okkur það alveg fyllilega ljóst, að það að sjálfsögðu mun kosta okkur einhverja fjármuni. Við komumst ekki hjá því að verja til þess einhverju fé og það fremur fyrr en síðar, því að við erum orðnir mjög aftarlega í röð þátttökuríkja í þessari þróunarhjálp.

Hv. þm., 7. þm. Reykv., hefur lýst andstöðu við þá brtt., sem er framlögð á þskj. 345. Mér dettur í hug, hvort það er hugsanlegt — og ég vil beina þeirri fsp. til 7. þm. Reykv., sem ég vona, að hann gefi ótvírætt svar við og með hliðsjón af því, að flm. þessarar brtt. hafa lýst því báðir yfir, að þeir séu til viðtals um breytingar á 10 ára tímabilinu — að hann mundi geta staðið að flutningi brtt., sem yrði shlj. þeirri brtt., sem er á þskj. 345, að öðru leyti en því, að niður félli úr till. „eftir 10 ár“ og í stað þess kæmi „svo fljótt, er verða má“. Sumum kann að virðast, að þetta segi ekki svo mjög mikið, en það segir þó það sem aldrei hefur komið fram á Alþingi Íslendinga. Ef slík till. yrði samþ., lýsti Alþingi yfir þeirri stefnu sinni, að það vilji taka þátt í að aðstoða þróunarlöndin og vilji vinna að því, að sú hjálp komist eins fljótt og aðstæður frekast leyfa í okkar þjóðfélagi upp í það 1% mark, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gert samþykkt um, að stefna bæri að. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.