15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 479 kemur fram, að heilbr.- og félmn. mælir með samþykkt frv. svo breytts. Meginmál 1. gr. orðist svo:

„Tóbaksauglýsingar hvers konar eru bannaðar. Þó er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins heimilt að auglýsa verð á tóbaksvörum.“

Nokkrir fundir voru haldnir um þetta mál, og bárust n. mjög margar umsagnir um frv. og allar á einn veg, sem lögðu til, að þetta skref yrði stigið. Það yrði allt of langt mál að fara að rekja þær, en ég get ekki stillt mig um að segja frá sérstakri umsögn, sem barst, en það var frá 49 aðilum, sem eru allt formenn landssamtaka og er þar efstur á blaði formaður Krabbameinsfélags Íslands, Bjarni Bjarnason, sem hefur haft ötula forgöngu í baráttunni við reykingar og krabbamein. Hefur hann verið manna ötulastur að beita sér fyrir því, að menn drægju úr sígarettureykingum. Með leyfi forseta ætla ég að lesa, hvað stendur á þessu skjali. Það er örstutt:

„Vaxandi þekking á afleiðingum tóbaksreykinga hefur víða um lönd orðið grundvöllur nýrrar baráttu gegn útbreiðslu þeirra. Öllum aðgerðum Alþingis gegn tóbaksneyzlu er fagnað. Lýst er yfir eindregnum stuðningi við frumvarp til laga um bann gegn tóbaksauglýsingum.“

Í raun og veru tel ég mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um frv. Það fékk, eins og ég sagði áður, mjög víða að stuðning, og athyglisverður stuðningur kom einnig frá iðnnemum Iðnskólans í Reykjavík og kennurum, en nærri 400 manns skrifuðu þar undir skjal og lögðu eindregið til, að frv. næði fram að ganga. Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til, að frv. verði vísað til 3. umr.