09.11.1970
Efri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég átti þess kost að mæta á nýafstöðnum aðalfundi Sambands ísl. útvegsmanna, en hv. 2. þm. Vesturl. vitnaði til þeirra samþykktar varðandi þau mál, er hann ræddi, þ.e.a.s. rányrkju á ýmsum fisktegundum í Ísafjarðardjúpi í sambandi við rækjuveiðar þar. Ég átti þess kost á þessum fundi að ræða við tillögumann, sem skýrði mér að meginefni til frá því sama, sem hv. þm. gerði hér í sinni ræðu, og voru þá þegar gerðar ráðstafanir til þess, að skip frá Hafrannsóknastofnuninni færi þarna á staðinn og prófaði sjálft af eigin raun, hver sannindi þessa máls væru. Ég veit ekki betur en þeim leiðangri sé nú að ljúka, og vinnsla þeirra gagna, sem út úr þeirri rannsókn koma, er þegar hafin, og ég vænti þess, að sannleikurinn verði leiddur þar í ljós, hvort og þá hverra aðgerða er þörf. Það er tvímælalaust rétt, að ef þarna er nokkur alvarleg hætta á ferðum umfram það, sem áður hefur tíðkazt við þessar veiðar, þá verður umsvifalaust að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra alla áníðslu á þessu fiskungviði.

Í hádegisútvarpinu í dag var hins vegar birt yfirlýsing frá forustumönnum smábátafélagsins Hugins á Ísafirði, þar sem þeir fullyrða þvert ofan í samþykkt landssambandsfundar LÍÚ, að ekki sé um neina frábrugðna veiði að ræða umfram það, sem áður hafi skeð, að smávegis hafi slæðzt með af seiðum eins og alltaf hafi gerzt, en sé algerlega hættulaust og skaðlaust. Á þessari stundu skal ég ekkert um þetta fullyrða, en ég tek það skýrt fram hér, að ef sú rannsókn, sem Hafrannsóknastofnunin hefur nú gengizt fyrir, leiðir í ljós, að þarna sé hætta á ferðum, þá verða umsvifalaust gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra þar alla áníðslu og ofveiði á þessu ungviði.