09.11.1970
Efri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Hann hefur vakið nokkra athygli, sá tillöguflutningur, sem átti sér stað á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna, og ég stend hér ekki upp til þess að andmæla þeim tillöguflutningi út af fyrir sig. En það er vel, að að hefur verið vakin athygli á rækjuveiðunum í Ísafjarðardjúpi, því að sannleikurinn er sá, að þær hafa um mörg ár verið í ófremdarástandi, og þetta er í rauninni ekkert nýtt fyrirbæri, sem hér er að eiga sér stað. Skal ég drepa með örfáum orðum á nokkrar staðreyndir í því sambandi.

Á árinu 1969 voru 34 bátar, sem höfðu leyfi til að veiða rækju í Ísafjarðardjúpi, en á árinu 1970 er 52 bátum leyft að veiða á þessum sömu slóðum. Á árinu 1969 var talið, að mánaðarskammturinn væri um 90 tonn, en nú á árinu 1970 er ekkert talið því til fyrirstöðu að skófla upp úr Djúpinu 160 tonnum á mánuði. Slík þróun sem þessi í þessum veiðum þarna á grunnslóð, sem er víðast hvar þarna, —rækjan veiðist yfirleitt þarna inni í fjörðum og á grunnsævi, þó að það komi fyrir á dýpri svæðum líka, — þetta hlýtur að valda því, að ef þarna er á ferð sterk ganga, eins og nú er talið að sé, af þorsk og ýsuseiðum, þá hlýtur að veiðast mikið af þessum ungfiski jafnframt því, sem rækjan er veidd svona gegndarlaust. Það hefur verið í langan tíma mikil óánægja með það, hvernig þessum leyfaúthlutunum í Ísafjarðardjúpi hefur verið ráðstafað, en út í það viðkvæma mál skal ég ekki fara hér. Það er sjálfsagt hægara um að tala en í að komast. En það sjá allir, að slík aukning á þessum veiðum hlýtur að hafa í för með sér, ja, mér liggur við að segja rányrkju, því að það er ekkert, sem ég hef séð, sem liggur því til grundvallar, að óhætt sé að nærri því tvöfalda það veiðimagn, sem hægt er að taka upp úr Djúpinu á árinu 1970 umfram það, sem var á árinu 1969.

Ég skal ekki leggja neinn dóm á þær deilur, sem kunna að vera milli þeirra manna, sem fluttu þessa till. á LÍÚ-fundinum, og hinna, sem heima eru og stunda þessar veiðar. En ég vil þó aðeins benda á, að hinn 20. okt. s.l. rannsakaði Hafþór eftir ákveðinni beiðni seiðamagn í skammti, sem hann fiskaði upp úr Djúpinu, og eftir því, sem ég veit bezt, — það verður þá leiðrétt, ef ég fer þar með rangt mál, — þá fékk hann 10.5 kg af ýsu- og þorskseiðum á móti 126 kg af rækju, svoleiðis að það kemur ekki alveg heim við þetta, en ég skal ekki leggja neinn dóm á þetta að öðru leyti. En ég vil undirstrika það, að það er mjög kærkomið einmitt, að þessi veiðiskapur þarna í Ísafjarðardjúpi verði rannsakaður mjög nákvæmlega og verðskuldaður gaumur verði gefinn því, sem þarna er að eiga sér stað, því að rækjuveiðarnar í Ísafjarðardjúpi eru mjög þýðingarmikill atvinnuvegur fyrir öll sjávarplássin við Djúp. En eins og nú horfir, ef svona fer fram, þá sé ég ekki annað en þetta verði til mjög skamms tíma og þarna verði veiðisvæðin svo rányrkt, að það sé ekki aflavon þar innan nokkurra ára.

Hv. 2. þm. Vesturl. minntist á það hér, að það væri víða við Vestfirði, sem rækjan veiddist svona, en mér er nú ekki kunnugt um það sérstaklega. Hins vegar veiðist rækja á Húnaflóa. Aðallega er það í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirði, en þar hefur ekki borið svo á þessu mikla magni af ýsu- og þorskseiðum eins og getið er um í Ísafjarðardjúpi, eftir því, sem ég bezt veit. Þó kann það að vera eitthvað meira heldur en hefur verið áður, en sjómenn telja, að þetta stafi m.a. af því, að þarna sé um óvenjusterkar göngur af þorsk- og ýsuseiðum að ræða. En það er jafnframt bent á það og því var haldið fram í sambandi við landhelgismálin, þegar þau voru til umr. hér, að hætta væri á því, að þarna yrði um ofveiði að ræða á smáfiski á Vestfjarðamiðum. Ég er hræddur um, að sú skoðun, sem þá var látin í ljós um, að þetta mundi hafa skaðvænleg áhrif, sé nú m.a. að koma í ljós, og það væri vel, ef Hafrannsóknastofnunin eða þeir aðilar, sem um þetta mál eiga að fjalla, sýndu þessu tilhlýðilega athygli. Ég get ekki látið hjá líða, án þess þó að verða orðmargur, að minna á, að við höfum flutt hér tveir þm. Framsfl. þáltill. um heildarendurskoðun á fyrirkomulagi stjórnkerfis sjávarútvegsins. Einmitt þar kemur fram, hve sjútvrn. er fámennt og lítt megnugt að sinna þeim störfum, sem þar þarf að inna af hendi. Það er lífsspursmál að gera þessar stofnanir þannig úr garði, að þær geti sinnt þeim verkefnum, sem þær þurfa að framkvæma. Þá ætti sennilega ekki að þurfa að koma til slíkra atburða, sem hér eiga sér stað.