25.01.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum, er nú svo komið, að því sem næst allur togarafloti landsmanna hefur stöðvazt í verkfalli. Það fer ekki á milli mála, að veruleg ástæða fyrir þessu verkfalli er lagasetning héðan frá Alþ., sem sett var árið 1968, þar sem launakjörum sjómanna var raskað í grundvallaratriðum. Það liggur einnig fyrir, að deilur eru enn um launakjör sjómanna á bátaflotanum, og það er vitað, að sá ágreiningur, sem þar er uppi, er einnig vegna ákvæðanna í þessari löggjöf frá 1968. Á bátaflotanum hefur ekki verið lýst yfir verkfalli enn þá, en það er veruleg hætta á því, að til þess geti komið hvenær sem er. Eins og allir hv. alþm. muna, voru allmiklar deilur hér á Alþ. um þessa lagasetningu á sínum tíma. Við Alþb.-menn m.a. vöruðum við þessari lagasetningu, og síðan höfum við flutt till. hér á Alþ. um það, að þessi löggjöf yrði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að rétta nokkuð hlut sjómanna og til þess að koma í veg fyrir meiri háttar árekstra á vinnumarkaði vegna þessarar lagasetningar. Nú vildi ég spyrja hæstv. forsrh. um það, hvort hann teldi ekki ástæðu til þess, að þessi löggjöf yrði nú tekin til endurskoðunar hið skjótasta með það fyrir augum að aðstoða á þann hátt við það að leysa þá deilu, sem upp er komin, og til þess að koma í veg fyrir enn frekari deilur á okkar fiskiskipaflota. Ég tel nauðsynlegt að þetta verði gert sem allra fyrst og með sem mestum hraða, eftir því sem unnt er hér á Alþ., og álít, að það hafi þegar skapazt svo alvarlegt ástand í þessum efnum, að það sé ekki fært fyrir Alþ. að sitja hér og bíða, vegna þess að það er alveg vitað, að deilurnar snúast um ákveðna löggjöf að verulegu leyti og það er vitanlega hægt að breyta þeirri löggjöf á stuttum tíma. Það er öllum kunnugt, að allar aðstæður eru nú gerbreyttar frá því, sem var, þegar þessi lög voru sett, og þau rök, sem þá voru flutt fyrir þeirri lagasetningu, geta ekki gilt eins og nú orðið háttar.

Ég vil óska þess, að hæstv. forsrh. svari spurningu minni um það, hvort hann telji ekki ástæðu til að endurskoða þessa löggjöf til að reyna að greiða úr þeim vandamálum, sem hafa upp komið vegna þessarar lagasetningar.