08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd út af þessum tilraunum til þess að lýsa andstöðunni við þetta frv. sem einhverri umhyggju fyrir öðrum námsmönnum, sem eigi í enn þá meiri vanda. Hér er ekki um neinar andstæður að ræða, heldur hliðstæður. Í þeim löndum, þar sem ég þekki til, t.d. á Norðurlöndum, þá verða þessi mál ekki leyst á einn og sama hátt og ég held, að það sé algerlega fráleitt að halda, að bilið milli skyldunámsins og háskólastigsins verði leyst með því að breyta lögunum um Lánasjóð námsmanna. Í Danmörku og Svíþjóð gildir sú regla, að aðstoð við námsmenn undir 20 ára aldri er veitt í formi styrkja, en ekki lána og ég hygg, að þetta sé algerlega rétt stefna. Um það atriði verðum við óhjákvæmilega að setja sérstaka löggjöf og eins og ég sagði áðan, þá hafa legið fyrir þessu þingi sem þingmanna frv., drög að slíkri löggjöf. En ég hef ekki trú á því, að þetta verði allt saman leyst með einum og sama sjóðnum. Ég held, að það sé algerlega rangt og mér virðist, að menn séu að reyna að losa sig undan ámæli — mjög réttmætu ámæli — með því að blanda þessu tvennu saman á þennan hátt. Samhengið er ekki eins og hv. þm. Benedikt Gröndal taldi hér áðan.