15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

17. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. minni hl. (Sigurgeir Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram hjá hv. frsm. meiri hl. heilbr.– og félmn., þá var ekki samstaða í n. um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. vill vísa frv. til ríkisstj., en við, sem stöndum hér að nál. minni hl., leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Rök fyrir þessu frv. eru í grg., og þarf ekki að endurtaka þau. Þó má benda á, að þar sem talað er um hagnað af Áfengisverzluninni árið 1969, 730 millj., þá mun hann hafa verið á s.l. ári rúmlega 850 millj. En það ár mun áfengissalan hafa verið 856 millj. eða 2:3 millj. á dag. Maður skyldi ætla, að sá aðili, sem stendur að þeirri sölu, mundi einnig verða að bera ábyrgð á afleiðingunum og í því skyni er hér í þessu frv. lagt til, að gæzluvistarsjóði sé áætlaður ákveðinn hundraðshluti, eða 2.5% af nettóhagnaði Áfengis– og tóbaks einkasölu ríkisins. Þá mundu tekjur gæzluvistarsjóðsins fara hækkandi í hlutfalli við hagnaðinn og söluna.

Ég ætla ekki að lýsa þeim erfiðleikum og vandræðum, sem fylgja áfengisneyzlu, drykkjusýki. Ég hygg, að flestir Íslendingar þekki það af eigin raun og viti, að þar er mikil þjáning og miklir erfiðleikar á ferðinni og það eru líkur til þess, að þetta vandamál fari heldur vaxandi en hitt, þó að maður tali nú ekki um önnur eiturlyf, sem eru á ferðinni og væntanleg hingað næstu árin. Því held ég, að þetta mál sé stærra, en mætti ætla í upphafi, því að það stefnir að því að skapa þessu fólki aðstöðu til hjúkrunar og að byggja upp sjúkrahús, sem sinna þessum verkefnum. Hv. frsm. gat þess áðan, að á Litla-Hrauni væri mikið af föngunum þangað komnir vegna áfengisneyzlu og ég ætla, að á Kleppi og raunar víðar sé mikill hluti af sjúklingum einmitt þar vegna áfengisneyzlu. Ég hygg, að ég fari rétt með, að um helmingur þeirra, sem þar eru skrifaðir inn og út, séu áfengissjúklingar.

Í l. um meðferð ölvaðra og drykkjusjúkra kemur það fram, að gæzluvistarsjóði er fyrst og fremst ætlað að byggja upp hjúkrunarheimili og sjúkrahús fyrir þetta fólk. En í framkvæmdinni hygg ég, að það hafi orðið þannig, að það fé, sem gæzluvistarsjóður hefur haft til afnota, hefur verið notað til reksturs sérstaklega á Akurhóli eða Gunnarsholti fyrir drykkjumannahælið, sem þar er rekið. Auk þess mun Bláa bandið hafa fengið einhvern stuðning og einnig Vernd, eftir því sem ég bezt veit. Hins vegar segir í l., að kostnaður drykkjumanna skuli greiðast á sama hátt og annar sjúkrahúskostnaður, svoleiðis að þarna virðist manni, að framkvæmdin hafi verið nokkuð á annan veg en í l. segir og mér skilst, að lítið muni vera í sjóði til að byggja upp. En þörfin er fyrir hendi, því það er víða erfitt að koma drykkjusjúklingum inn á sjúkrahús. Kannske eru sömu mennirnir oft á ári á sjúkrahúsunum. Þeir eru þar á meðan þeir eru að ná einhverri heilsu, en svo fara þeir aftur að drekka og eru aftur settir á sjúkrahúsin, en þeir eiga alls ekki heima á sjúkrahúsunum innan um annað fólk, sem er sjúkt af öðrum ástæðum. Þessir menn þurfa að vera sér og þurfa sérhjúkrun. Þess vegna hygg ég, eins og ég sagði áðan, að þetta mál sé tímabært og stærra en maður skyldi halda við fyrstu sýn. Og það getur verið betra að búa sig undir það að gera átak í þessum málum, áður en vandamálið verður stærra.

Að svo mæltu legg ég til eins og ég sagði áðan, að frv. verði samþ. óbreytt.