11.03.1971
Neðri deild: 60. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

247. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langar einnig að beina fsp. til hæstv. bankamálaráðh. í tilefni af flutningi þessa frv. Það er ekki ýkja langt síðan Seðlabankinn gerði opinberlega grein fyrir þeirri skoðun sinni, að það væri orðið nauðsynlegt að fækka bönkum á Íslandi. Þetta kom fram í grein, sem Jóhannes Nordal seðlabankastjóri skrifaði og þessar hugmyndir voru þær, að ég hygg, að Útvegsbanki og Búnaðarbanki gætu runnið saman og hins vegar Verzlunarbanki og Iðnaðarbanki. Á þetta var lögð æði rík áherla af hálfu Seðlabankans og ég vildi í tilefni af flutningi þessa frv., sem gengur raunar í þveröfuga átt, spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort Seðlabankinn sé fallinn frá þessari stefnu eða hvort hæstv. ríkisstj. sé andvíg þeirri stefnu, sem fólst í þessari tilkynningu Seðlabankans á sínum tíma?

Ég held, að það sé alveg augljóst mál, að bankar eru orðnir furðulega margir á Íslandi, í okkar litla þjóðfélagi og það væri brýn nauðsyn að skipuleggja þau mál betur. Þar með er ég ekki að leggja til, að það verði tekin upp neins konar einokun. Ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt, að þarna séu fleiri en ein stofnun, sem geti haft eftirlit hver með annarri og keppt innbyrðis. Engu að síður tel ég, að það væri hægt að skipa þessum málum miklu haganlegar, en gert hefur verið og þess vegna tel ég, að þessi hugmynd Seðlabankans á sínum tíma hafi verið mjög eðlileg og núna, þegar á að dreifa þessum gjaldeyris réttindum á þennan hátt, þá væri eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. gerði grein fyrir afstöðu sinni einmitt til þessa vandamáls.

Í sambandi við þessa dreifingu á gjaldeyrisréttindum er um það talað, að þeir nýju bankar, sem fái þessi réttindi, verði að taka upp nýja stefnu í lánamálum, þeir verði að lána aukið fé til útflutningsatvinnuveganna og þeirra atvinnuvega, sem afla gjaldeyris. Raunar var þetta röksemdin á sínum tíma fyrir því, að þessi gjaldeyrisviðskipti voru bundin við tiltekna banka. Það var talið, að það ætti að binda þau við þá banka, sem hefðu það að sérgrein sinni að lána fé til sjávarútvegsins og þess atvinnureksturs, sem aflaði gjaldeyris. Ef þessi skipan verður tekin upp, þá langar mig að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvernig ætlunin er að tryggja það, að þessi stefna verði framkvæmd, því að reynslan hefur verið sú á undan förnum árum, að ýmsir aðrir atvinnuvegir hafa dregið til sín æði miklu meiri aukningu fjár úr bönkunum heldur en sjávarútvegurinn. Um þetta duga náttúrlega ekki fögur orð sögð hér í ræðustóli, heldur þarf að gera þarna einhverjar ráðstafanir, sem duga. En sem sagt: Mig langaði til þess að spyrja hæstv. ráðh. um þetta, en tek ekki afstöðu til frv. sem slíks á þessu stigi.