31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. svaraði ræðu minni á þá lund, að sú ræða, sem ég hefði flutt, væri sú aumasta kosningaræða, sem hann hefði heyrt. Nú vil ég upplýsa hæstv. forsrh., að ég er ekki í kjöri til alþingiskosninga næsta vor. (Gripið fram í.) Ég er ekki farinn úr Framsfl., en það er ekki þar með sagt, að allir framsóknarmenn séu í kjöri. Ég tel, að ræða mín hafi ekki verið neinn kosninga áróður. Það sem ég sagði í þessari ræðu minni, var sannfæring mín. Það er grundvallar skoðanamismunur á milli hæstv. forsrh. og mín. Ég tel, að ríkissjóður eða ríkið hafi vissar skyldur við Siglfirðinga og verkafólk þar, með tilvísun til sögunnar og það sé engin goðgá að fara fram á það, að ríkissjóður Íslands reki þessa verksmiðju áfram.

Ég skammast mín ekkert fyrir mína ræðu, sem ég flutti hér áðan, — ekki neitt. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði verið skammaræða. Það var svo langt frá því. Ég efa það ekki, að frv. var samið af hans rn. skv. því, sem hann telur rétt. Sem formaður Sjálfstfl. hefur hann sagt sínum kjósendum, að það eigi að fækka ríkisfyrirtækjum. Ég er ekki að álasa honum fyrir það, en það er ekki þar með sagt, að aðrir þm. séu á sama máli. Nei það er, eins og ég sagði áðan, grundvallar skoðanamunur hjá okkur í þessu efni.

Ég rakti það, hvað Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu fengið í sinn hlut, þegar bezt gekk á síldarárunum, allt frá 1930 til 1943 og það er rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, er hann komst svo að orði, að Siglfirðingar ættu þetta inni hjá ríkisvaldinu og það finnst mér líka og ég held, að það sé ekki verið að binda neina hræðilega bagga upp á ríkishestinn og þó að hæstv. ráðh. segði réttilega, að féð, sem borgað er í útflutningssjóð, færi ekki til ríkisins, fer það samt til þarfa Íslendinga og þegar allt er tekið með í uppgjörið, bæði tollar og útflutningsgjöld, þá held ég, að sé ekki um stórkostlegan halla á þessu fyrirtæki að ræða og það sé engin þörf á því að fara að breyta því í hlutafélag. Ég veit ekki betur en það hafi verið búið að semja annað frv. um niðurlagningarverksmiðjuna. Og það eru fleiri, en framsóknarmenn eða fleiri en ég, sem eru á móti þessu frv. Ég veit ekki betur, — það getur verið, að ég fari ekki alveg rétt með, en aðalforingi Sjálfstfl. á Siglufirði, bæjarstjórinn, sé á móti þessu. Ekki er það af kosningaástæðum. Og ég veit ekki betur en fjöldi Siglfirðinga sé á móti því að breyta þessu úr ríkisrekstri. Þó ekki hafi vel gengið, þá óttast þeir um framtíð þessa fyrirtækis við breytinguna og það muni ganga verr.

Ég er ofurlítið kunnugur hjá norsku útgerðarfyrirtæki — eða var það, sem rak verksmiðju í Noregi. Það var fyrirtæki B. Johannessens. Það komu síldarleysisár í Larvík. Hundruð manna höfðu flutzt þangað til að vinna í verksmiðjum B. Johannessens, síðan kom síldarleysið og hvað sagði forsvarsmaður einkaframtaksins í Noregi? „Við verðum að gera eitthvað fyrir þetta fólk. Við auglýstum eftir vinnuafli. Það fluttist til í Noregi og byggði upp sín hús hér. Sparibækurnar þess eru þessi heimili hér í Larvík.“ Og B. Johannessen byggði upp skipasmíðastöð fyrst í smáum stíl og síðan stærri, sem hefur tryggt stöðuga atvinnu fólkinu í Larvík, þegar síldin hefur brugðizt. Þetta sögðu þessir norsku útgerðarmenn. Þeir sögðu: „Við höfum skyldur við fólkið.“ Ég hef ekkert sagt annað, en það í minni ræðu, þó léleg hafi verið, að ríkisvaldið í dag, núv. ríkisstj., hefur skyldum að gegna við verkafólkið, sem flutti úr öðrum byggðarlögum til Siglufjarðar og byggði upp húsin sín þar og á þau þar.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson komst þannig að orði, að hann teldi það ekki mjög alvarlegt, þó frv. dagaði uppi á þessu þingi. Ég er honum alveg sammála. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að það dagi uppi á þinginu. Ég hef áður hér í þessum ræðustól lýst rekstri Sigló–verksmiðjunnar og ég skal ekki endurtaka það, en verksmiðjan hefur ekki fengið það fjármagn, sem hún hefur þurft og það þarf frekari skipulagningu á rekstri hennar. Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. forsrh. að endurskoða afstöðu sína og ríkisstj. og láta ríkið reka þetta fyrirtæki áfram í eign ríkisins undir sérstakri stjórn og útvega því rekstrarlán, langtímalán, sem nú er mikið talað um, þannig að það geti orðið sannkölluð blóðgjöf og fyrirtækið geti byggt upp verulegt atvinnulíf á Siglufirði og dregið úr árstíðabundnu atvinnuleysi þar.