02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

11. mál, fiskiðnskóli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fiskiðnfræðslumálin hafa ekki verið í verkahring menntmrn. nema síðan um síðustu áramót. Þau voru áður í verkahring sjútvrn. og með hliðsjón af því mundi ég óska eftir því við hv. flm. þessa frv. og flm. frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum, að þeir breyti till. sinni og leggi til, að frv. fari til menntmn. Það er í samræmi við núgildandi lagaákvæði um Stjórnarráðið. Hin till. virðist mér vera byggð á eldri skipun, sem breytt hefur verið með nýjum l. um Stjórnarráðið. Nú heyra allir skólar í landinu nema búnaðarskólar undir menntmrn. Þessi skóli mundi, ef og þegar hann verður stofnaður, heyra undir menntmrn. og mér finnst tvímælalaust eðlilegt, að sú n., sem fjallar um önnur frv. um skóla, sem undir menntmrn. heyra, fjalli líka um þetta frv. Ég skýt þessu hér með að hv. flm.

Annars kvaddi ég mér aðallega hljóðs til þess að segja nokkur orð um það, sem gerzt hefur í þessu máli síðan menntmrn. var falið að fjalla um það. Þegar á s.l. vetri kynntum við í rn. okkur rækilega það, sem þegar hafði verið gert í þessu máli, nál., sem fyrir lá og annan undirbúning. Við komumst að þeirri niðurstöðu, að málið hefði ekki enn hlotið fullnægjandi undirbúning til þess að við í rn. treystum okkur til þess að undirbúa frv. í sumar til þess að leggja fyrir þetta þing.

Í raun og veru er allt fiskiðnfræðslumálið tvíþætt. Annars vegar er um það að ræða, hvernig eigi að mennta verkstjóra og aðra, sem verkstjórn og eftirlits— og matsstörf hafa á hendi í frystiiðnaðinum. Það er um þetta mál, sem þessi tvö frv. fjalla. En vandamálið er stærra og víðtækara en þetta. Það er líka spurningin um það, hvernig eigi að koma fræðslu um fiskiðnað og fiskverkun inn í verknám almenna skólakerfisins og gagnfræðaskólana. Það er ekki síður mikilvægt, að í sjálfu skólakerfinu, jafnvel á skyldustiginu, en þó einkum á framhaldsstiginu, í verknáminu og framhaldsdeildum gagnfræðaskólanna, þar komist inn einhver fræðsla um fiskverkun og jafnvel fiskveiðar. Þetta mál hefur enn verið tiltölulega lítið athugað, en það gefur auga leið, að það þarf auðvitað að samræma bæði slíkt nýtt nám í skólum, sem nú eru fyrir hendi og nýjan fiskiðnskóla fyrir verkstjóra og matsmenn og samræma hann skólakerfinu að öðru leyti.

Ein spurningin er sú, hvort fela ætti þessa verkstjóra— og matsmannafræðslu Tækniskólanum, sem þegar starfar, í stað þess að stofna alveg nýjan skóla, sem tækist þessa fræðslu á hendur. Ef matsmannafræðslan ætti að vera í Reykjavík, þá kemur þetta atriði til sérstakrar athugunar, að fela hana beinlínis Tækniskólanum, þ.e.a.s. að stofna nýja deild við Tækniskólann, sem hefði þessa fræðslu með höndum, líkt og t.d. Tækniskólinn hefur tekið að sér kennslu meinatækna og þar fram eftir götunum. Ef hins vegar fiskiðnskólinn á að vera í Vestmannaeyjum t.d. eða annars staðar, en í Reykjavík, þá gefur auga leið, að hann verður að vera sjálfstæður. Allt þetta hefur verið athugað talsvert. En ég sá það í vor, eða við vorum sammála um það í menntmrn., að málið hefði alls ekki hlotið þann undirbúning, að við gætum í rn. gert till., sem frambærilegar væru fyrir Alþ., á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir lágu. Þess vegna skipaði ég á s.l. sumri sérstaka n. til þess að kanna stöðu tæknimenntunarinnar innan skólakerfisins og eðlileg tengsl hinna ýmsu fræðslustiga. Og þessari n. var sérstaklega falið að kanna fiskiðnfræðsluvandamálið, bæði möguleika á fiskiðnfræðslu innan núverandi skólakerfis og athugun á menntun verkstjóra og matsmanna í fiskiðnaði og þá um leið að athuga, hvort stofna ætti sérstakan skóla í þessu skyni, eða hvort fela ætti þessa fræðslu Tækniskólanum. Þessi n. er starfandi núna, henni tókst ekki að ljúka störfum, áður en þing kom saman. Í n. eiga sæti Andri Ísaksson, deildarstjóri skólarannsóknadeildar menntmrn.; forseti Verkfræði og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, Þorbjörn Sigurgeirsson; skólastjóri Tækniskóla Íslands, Bjarni Kristjánsson; skólastjóri Gagnfræðaskóla verknáms, Magnús Jónsson; formaður iðnfræðsluráðs, Óskar Hallgrímsson; skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík, Þór Sandholt; skólastjóri Vélskólans, Gunnar Bjarnason og formaður Félags tæknifræðinga, Stefán Guðjohnsen tæknifræðingur. Ég óskaði eftir því í skipunarbréfinu, að þessi n. hraðaði störfum sem allra mest og hefði samstarf við n. þá, sem í bréfinu segir, að nú starfi að endurskoðun laga um fræðslu barna og laga um gagnfræðanám, en sú n. hefur þegar eða er þessa dagana endanlega að ljúka störfum. Ég á von á því, að þessi n. ljúki störfum í haust eða í öllu falli fyrir jól og þá muni þar koma till. um fiskiðnskólamálið og fiskiðnfræðslumálið í skólunum, sem ég vona, vegna þess hve málið er lengi búið að vera á döfinni, að verði loksins í því formi, að unnt verði að sýna þær hinu háa Alþingi. Ég vil skjóta þessu til þeirrar n., sem fær þessi frv. bæði til meðferðar, að hún kynni sér, hvað þessu máli líður hjá þessari tæknimenntunarnefnd og ég hygg, að það væri bezt og farsælast fyrir góða framgöngu málsins, að menntmn. afgreiddi málið ekki fyrr en hún fær að sjá hugmyndir eða till. tæknimenntunarn. í þessu mjög svo mikilsverða máli.

Ég skal með ánægju lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel hina brýnustu nauðsyn vera á því, að verkstjóra— og matsmannafræðslu verði komið upp. Um það skal ég ekkert segja á þessu stigi, hvort æskilegt sé, að hún sé í sérstökum skóla, ekkert segja, hvort æskilegt sé, að hún sé í Reykjavík eða í Vestmannaeyjum eða í Tækniskólanum. Aðalatriðið er það, að þessari fræðslu verður að koma á og það fyrr en seinna. Og ég tel rétt að stefna að því, að hún geti hafizt strax næsta haust. En jafnframt og það er líka verkefni þessarar n., er nauðsynlegt að auka fræðslu um fiskveiðar og sérstaklega fiskvinnslu innan verknámsfræðslunnar, sem nú fer fram í skólakerfinu og gefa þessum höfuðatvinnuvegi okkar aukið rúm frá því, sem nú er. Að því tel ég tvímælalaust, að beri að stefna.