02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2663)

11. mál, fiskiðnskóli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel það vel, að þetta mál um fiskiðnskóla sé komið hér inn á hv. Alþ. til umr. og væntanlega til einhverrar endanlegrar afgreiðslu. Ég get vel tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að þetta mál hefur legið allt of lengi niðri. Það komst á það hreyfing, sem hér hefur verið skýrt frá, er fyrir nokkrum árum síðan var skipuð n., sem vann að mínum dómi mjög gott starf og skilaði ýtarlegu áliti, að ég hygg fyrir 4 árum. En síðan hefur ekki neitt um málið heyrzt síðan á síðasta þingi, að fsp. var gerð um það og aftur nú, að þessu hefur verið hreyft í því frv. til l., sem hér er til umr.

Ég þarf ekki að þessu sinni að tala lengi um málið, vegna þess að eins og fram hefur komið, þá er ég með annað frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum og mun að sjálfsögðu gera grein fyrir málinu, þegar það kemur til umr. En mér þótti rétt nú við þessa 1. umr. um þetta mál að gera stutta grein fyrir því, hvers vegna ég kom fram með sérstakt frv., en flutti ekki brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég las þetta frv. mjög gaumgæfilega, þegar það var afhent þm. og sá, að ef ég ætti að geta fylgt því, þá þyrfti að gera á því að mínum dómi mjög víðtækar breytingar, ef það ætti að þjóna því markmiði, sem Vestmannaeyingar hafa gert sér hugmyndir um í sambandi við fiskiðnskóla. Ég er t.d. ekki sammála flm. eða þeirri n., sem skilaði því áliti, sem frv. þetta er byggt á, að það skuli endilega vera í l., að skólinn skuli starfa í eigin húsakynnum, þar sem fram fari bæði bókleg og verkleg menntun og þar sé einnig aðstaða til heimavistar fyrir nemendur. Ég hygg, að það sé kannske þetta ákvæði, sem mjög hefur orðið til þess, að frv. eða álit n., sem afhent var sjútvrh. á sínum tíma, hefur ekki séð dagsins ljós hér í sölum Alþ. — það sé kannske þetta ákvæði, sem þar hefur nokkuð tafið, því að ef það á að vera fyrsta skrefið að byggja slíka stofnun, eins og þarna er gert ráð fyrir í 3. gr. þessa frv., þá hygg ég, að allir, sem nokkuð hafa kynnt sér þetta mál sjái, að þá erum við komnir með stofnun, sem kostar a.m.k. tugi millj. ef ekki stærri upphæð. Ég tel, að þetta mál sé orðið það aðkallandi, að fiskiðnskóli verði að fara af stað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru, bæði til kennslu í bóklegu námi og einnig í verklegu námi. Ég tel, að það megi ekki bíða eftir því að hafizt verði handa um byggingu fyrir skólann, þó að það sé að sjálfsögðu mjög æskilegt og þó að ég sé sannfærður um, að það komi á síðari stigum málsins, en þá endar það með því, að byggt verður sérstakt fiskvinnsluhús fyrir slíkan skóla sem við erum hér um að ræða. Og ég tel, að það þurfi ekki endilega að byrja á slíkri byggingu, heldur eigi skólinn að fara af stað við þær aðstæður, sem eru við hendi víða á landinu, bæði hér á Suðvesturlandi, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að skólinn verið staðsettur og í Vestmannaeyjum og víðar.

Það má að sjálfsögðu fara margar leiðir í sambandi við stjórn skólans. Ég tel það ekkert atriði, en einhvern veginn finnst mér, að 8 manna skólanefnd, skipuð mönnum frá ýmsum hagsmunasamtökum útgerðarinnar, sé ekki sú skólanefnd, sem ég hefði talið eðlilegasta. Við vitum það vel, að innan fiskiðnaðarins er nokkur togstreita á milli ýmissa greina. Það otar þar að sjálfsögðu hver sinni iðngrein fram og ég tel, að í frv. um fiskiðnskóla eigi ekki að fara inn á þá braut að telja það sjálfsagt, að skólanefnd fiskiðnskólans sé skipuð mönnum úr hinum ýmsu greinum. Þetta verður skólamál og þó að það að sjálfsögðu verði alltaf í mjög nánum tengslum við fiskiðnaðinn og þá menn, sem þar starfa, þá tel ég þó ekki, að það sé endilega nauðsynlegt, að skólanefndir séu skipaðar á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir.

Varðandi staðsetningu skólans, þá vita allir um mína afstöðu til þess hluta málsins. Ég hef áður látið það koma fram hér á Alþ., að ég tel, að skólinn eigi að vera staðsettur í þeirri verstöð, sem langstærst er, hvað útgerð vélbáta og fiskvinnslu áhrærir, en það er eins og kunnugt er í Vestmannaeyjum. En ég ætla þó ekki að fara að rökstyðja það nánar. Ég mun gera það, þegar það frv. verður tekið ti1 umr. hér, sem ég hef flutt um sérstakan fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Það er ósköp eðlilegt, að við séum ekki sammála um þetta í öllum atriðum, þeir menn, sem áhuga hafa fyrir þessu máli og þarf það ekki að valda neinum töfum á afgreiðslu málsins að mínum dómi. Ég tel t.d., að 9. gr., sem gerir ráð fyrir tveggja ára skóla í frv., ætti að vera nokkuð á annan veg og kemur það fram í því frv., sem ég hef lagt fram, að ég tel þetta of stuttan tíma. Fyrir 17 ára pilta, sem koma út úr gagnfræðaskóla, tel ég, að 6 mánaða verkleg þjálfun og það bóklega nám, sem gert er ráð fyrir, sé ekki nægileg undirstaða til að útskrifast úr þessum skóla. Þeir hafa ekki orðið nægilega verkþjálfun eða reynslu og það mundi kannske valda þeim erfiðleikum að fá stöðu, sem þeir mundu telja við sitt hæfi, ef þeir útskrifuðust úr skólanum aðeins 19 ára gamlir með ekki nema 6 mánaða verklegt nám á baki sér. Það hefði verið að mínum dómi æskilegt, að menn hefðu beinlínis þurft að skila vottorðum um, að þeir hefðu unnið svo og svo lengi við fiskiðnað, áður en þeir væru teknir gildir sem nemendur í fiskiðnskólann. En ég hef fallizt á þau rök, sem bent hefur verið á í þessu sambandi, að það getur verið verra að slíta námið þannig í sundur, þó að þetta sé að vísu ekki gert í sumum iðngreinum öðrum. Það geti verið verra að slíta námið í sundur, þannig að heppilegra mætti telja, að þeir, sem áhuga hafa haft fyrir að fara í fiskiðnskóla, færu þar í áframhaldandi nám, þegar þeir hafa lokið sínu námi í gagnfræðaskólum.

En það, sem hæstv. ráðh. kom hér inn á, er hann gerði grein fyrir störfum þeirrar n., sem hann hefur skipað til að skoða þetta mál betur, þá er það án efa mjög gott, að slík n. skuli vera starfandi og hugmyndir séu um það að fella þetta inn í æðri menntun. En ég tel, að það sé bara næsta stig fiskiðnskólamálsins, en það þurfi fyrst og fremst að koma á nú þegar ég mundi segja þegar á næsta hausti — fiskiðnskóla, sem útskrifaði menn með þá fræðslu, bæði bóklega og verklega, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og því frv., sem ég hef einnig lagt fram. Hitt kemur að sjálfsögðu á síðara stigi að fella fiskiðnfræðsluna inn í æðra menntakerfi landsins og ég tel, að sú hugmynd, sem ráðh. er með, megi ekki verða til þess að tefja fiskiðnskólamálið, sem nú hefur verið hreyft hér á Alþingi.

Hæstv. ráðh. lagði til, að frv. yrði vísað til menntmn., ekki sjútvn. Þó að skólamálin almennt heyri að sjálfsögðu undir menntmn., þá tel ég, að þetta mál sé þess eðlis, að það sé eðlilegra, að það fái athugun í sjútvn., því að þar eru þó aðilar, sem kunnugir eru fiskiðnaðinum, þekkja allar aðstæður þar og ættu að vera mjög dómbærir um það, inn á hvaða leið skuli fara í þessum málum. Þannig að ég vil láta það koma fram, að ég tel að bæði þetta frv., sem hér hefur verið til umr., og einnig það frv., sem ég hef lagt fram, eigi að fá athugun í sjútvn. frekar heldur en í menntmn.

Eins og ég sagði í upphafi, þá skal ég ekki fjölyrða meira um málið að þessu sinni, ég mun gera það, þegar að því kemur, að ég geri grein fyrir því frv., sem ég hef lagt hér fram, um sérstakan fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum.